Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. 1. minni hl. félmn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá 1. minni hl. félmn. Eins og fram kom einnig í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar, hv. 4. þm. Suðurl., þá er þetta frv. seint fram komið og að áliti okkar, sem undirritum nál. 1. minni hl., hefði þurft að fara miklu betur ofan í þessi mál. En þetta er eins og svo margt annað sem er að gerast hér þessa síðustu daga fyrir þinglausnir, að það gefst lítill tími til að sinna hinum ýmsu mikilvægu málaflokkum eins og skyldi.
    Það kom einnig fram í hennar máli að nefndin fékk á sinn fund ýmsa gesti, m.a. frá Húsnæðisstofnun og frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Vinnuveitendasambandi Íslands. Það verður að segjast eins og er að það voru svo sannarlega ekki allt jákvæð viðbrögð hjá þessum aðilum. Það kom t.d. fram að þegar loka á þessu svokallaða 1986 - kerfi, þá hefði þurft um leið að tryggja það að umsóknum allra þeirra sem voru komnir inn í það lánakerfi verði sinnt. Það sé hópur þar af fólki sem ekki geti nýtt sér húsbréfakerfið. Þetta var m.a. eitt viðhorf sem fram kom hjá gestum sem komu á fund nefndarinnar.
    Það var annað sem kom líka fram og það var óánægja með það hjá aðilum Húsnæðisstofnunar hvað alltaf er verið að krukka í þetta lánakerfi eins og við höfum nú margsinnis gagnrýnt hér á hv. Alþingi. Til marks um það má minna á að fyrir þinginu liggja fimm frv. frá hæstv. félmrh. um breytingar á þessum lögum. Við höfum bent á að það þurfi að taka þessi mál öll til endurskoðunar í heild sem og kom fram í máli nefndarmanna á fundum nefndarinnar. Það kom m.a. fram að það væri einmitt ein ástæðan fyrir því hversu Húsnæðisstofnun gengi illa að sinna sínu þjónustuhlutverki við lántakendur að það væri alltaf verið að breyta þessu kerfi og starfsmennirnir hafa ekki við að taka við nýjum breytingum og reglum sem þeir eiga að vinna eftir. Þeir fá bókstaflega ekki tíma til þess að setja sig inn í það, hvað þá heldur lánsumsækjendur. Þetta er orðið þvílíkt rugl að fólk veitt ekki sitt rjúkandi ráð.
    Eitt atriði var t.d. gagnrýnt, m.a. af forstöðumanni Húsnæðisstofnunar, í 14. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að það sé heimilt við eigendaskipti á íbúð að breyta vöxtum, og ef lántakandi selur íbúð sína þá beri honum skylda til að tilkynna aðilaskipti að láni til Húsnæðisstofnunar ríkisins án tafar. Þetta töldu þeir sem starfa við þessi mál og eiga að sinna þessu þjónustuhlutverki að væri bókstaflega óframkvæmanlegt. Þetta nefni ég sem dæmi en að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Í nál. okkar gagnrýnum við málsmeðferðina en ætlum ekki að tefja þetta mál og munum sitja hjá við afgreiðslu þess. Undir nál. 1. minni hl. ritar auk mín hv. 8. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson.