Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hl. félmn. með fyrirvara og ástæða þess er sú að á fundum félmn. komu fram mjög skiptar skoðanir um þetta frv. hjá öllum þeim sem á fund nefndarinnar komu og hjá sumum þeirra hörð gagnrýni á það að ekki hefði verið til þeirra leitað við undirbúning málsins. Ég er líka í vafa um það að samþykkt þess breyti miklu á næstu mánuðum frá því sem er í dag, þar sem stjórn Húsnæðisstofnunar hefur að sjálfsögðu í hendi sér að veita ekki frekari lán meðan fjármagn er ekki tryggt til þess að standa við slíkt loforð.
    Það kom líka fram að mjög tíðar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun gera starfsliði stofnunarinnar erfitt fyrir í sínu starfi þannig að þess vegna verði frekar dráttur á framgangi mála. Mér virtist því augljóst að það þyrfti að líta á þessi mál öll í heild og þá reyna að ná sem mestum sáttum allra þeirra sem um þessi mál fjalla. Því sé það ekki góður kostur að fara að afgreiða frv. í harðri andstöðu við fulltrúa frá launþegasamtökunum og að reikna verði með að í nýrri ríkisstjórn muni nýr félmrh. taka þessi mál til endurskoðunar áður en af framkvæmd þessara laga verður eða áhrifa þeirra fari mikið að gæta. Þetta er ástæðan fyrir því að ég skrifa undir nál. með fyrirvara.