Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Dæmið verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra hjá hæstv. ráðherra. Það er þannig samkvæmt lögum frá 1986, sem ég hef í höndum, ef ráðherra flettir upp á 13. gr. laganna, þá stendur þar:
    ,,Eigi umsækjandi, sem er að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, hámarkslánsrétt, skv. 1. mgr. 12. gr., nemur lán til hverrar íbúðar 2,1 millj. kr. En eigi hann lágmarkslánsrétt nemur lán til hverrar íbúðar 700 þús. kr.``
    Nú er mér ekki alveg ljóst um hvað ráðherrann er að tala. Ef ráðherrann er að tala um fólk sem var að eignast sína fyrstu íbúð og byggja, þá hafði það lánsrétt upp á 2,1 millj. Ég bað um það áðan, hæstv. forseti, hvort ég gæti fengið Hagtölur mánaðarins til þess að ég gæti reiknað út hvað 2,1 millj. væri ef maður breytir henni frá verðlagi ársins 1986 til verðlags ársins 1991. Ég er alveg sannfærður um að það megi tvöfalda þessa upphæð. Við erum því að tala þarna um lánsrétt upp á ca. 4,2 millj. kr. a.m.k. 70% af 6 millj. eru 4,2 millj.
    Ráðherrann var að tala um það að sá sem væri í húsbréfum gæti fengið 3,9 millj. Þessar 3,9 millj. skerðast því að það eru um 13% afföll a.m.k. á húsbréfunum. Þannig að þó að hann veðsetji íbúð sína fyrir um 3,9 millj. kr. þá fær hann aldrei meira en 3,5 millj. kr. út úr því. Raunverulegt lán samkvæmt húsbréfum er því um 700 þús. kr. lægra en samkvæmt kerfinu frá 1986.
    Hið sama á svo auðvitað við líka þó við tölum um 75%. Það er að vísu rétt að lánið hækkar þá upp í 4,5 millj. á pappírunum en ef við tökum 13% afföll af þeirri tölu, þá erum við komnir töluvert niður fyrir 4 millj. Lánið samkvæmt kerfinu frá 1986 er því einfaldlega hærra heldur en eftir húsbréfum, þeir peningar sem húskaupandinn eða byggjandinn fær í hendur, ef við erum að tala um fólk sem byggir yfir sig í fyrsta skipti.
    Þannig að allar voru nú vangaveltur ráðherrans um þetta atriði einhvern veginn, ég veit ekki hvort ég á að segja úti á þekju. 70% af 5,2, er það ekki meira en 65% af 5,2? Heldur ráðherrann að 2,1 millj. hefði ekki dugað með verðbótum til þess að vera nú ca. 4,8 millj.? Þetta er allt saman hreinn hrærigrautur.
    Ég skal svo ekki lengja þessar umræður neitt frekar. Það er ekkert þannig að biðraðir hafi horfið í húsnæðiskerfinu. Það eru langar biðraðir enn í húsnæðiskerfinu og lengjast með hverjum degi ef við horfum á félagslegar íbúðir. Það er alveg sama hvort við tölum um verkamannabústaðina, hvort við tölum um búsetaíbúðir eða kaupleiguíbúðir. Ein skýringin á því er auðvitað sú að hæstv. ráðherra tók þá pólitísku ákvörðun að leggja niður Byggingarsjóð ríkisins.