Samvinnufélög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu en vil undirstrika að við sjálfstæðismenn í deildinni ætlum ekki að tefja framgang mála. En vegna þess frv. sem hér liggur fyrir vil ég aðeins segja þetta:
    Það ber að harma það að þetta frv. skuli ekki hafa fengið meiri tíma í hv. deild þar sem hér er um að ræða, eins og fram hefur komið af hálfu hv. þm., mjög veigamikla löggjöf fyrir mjög þýðingarmikinn félagsskap í landinu sem við viljum auðvitað allir að geti þróast áfram með heilbrigðum og eðlilegum hætti. Þess vegna tek ég undir það sem hv. 3. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði hér rétt áðan að það er ýmislegt í þessu frv. sem hefði þurft að athugast betur áður en það er afgreitt, en ég vil taka það fram að ég mun ekki hindra framgang þess við afgreiðslu hér á eftir og geri þess vegna ráð fyrir að sitja hjá við atkvæðagreiðslu.
    Það er eitt, virðulegi forseti, sem ég vil vekja sérstaka athygli á áður en ég lýk máli mínu sem ég tel mjög veigamikið og væntanlega mun næsta þing taka það atriði til sérstakrar athugunar. Það er 7. töluliður 64. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta, varðandi uppgjör á efnahagsreikningi og rekstrarreikningi og öðru sem lýtur að rekstri og eignum samvinnufélags:
    ,,Eftirlauna- eða lífeyrisskuldbindingar félags skal færa í efnahagsreikning í samræmi við góða reikningsskilavenju.``
    Ég vek athygli hæstv. forseta og þingheims á því að hér er stutt setning sem lætur ekki mikið yfir sér en er mjög þýðingarmikil þar sem við vitum að lífeyrisskuldbindingar Sambandsins eru tengdar samvinnuhreyfingunni með þeim hætti að hér er um fyrirtækjasjóð að ræða. Hefði verið æskilegt að legið hefði fyrir þegar verið var að ganga frá þessari löggjöf hver væri staða þessara skuldbindinga því að það er ekki fullnægjandi, alla vega ekki þegar borið er saman við kröfur sem gerðar eru til annarra lífeyrissjóða í landinu, eitt út af fyrir sig að þeir fullnægi góðum reikningsskilavenjum heldur verða þeir einnig að fullnægja kröfum um tryggingaskuldbindingar, þ.e. að það sé vel tryggt að þeir lífeyrissjóðir sem eru í vörslu samvinnuhreyfingarinnar fullnægi tryggingaskuldbindingum sínum. Það atriði hefði þurft að liggja fyrir með sérstöku tilliti til þeirra þúsunda starfsmanna sem hér eiga hlut að máli.