Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Um mál þetta hefur margt og mikið verið rætt alveg frá því fyrir áramót. Þetta er hið mesta vandræðamál og hefur alltaf verið og margbreytt og raunar einar fjórar eða fimm útgáfur af þessu legið fyrir í allshn. Leiðin var nú sú að menn sameinuðust um það að reyna að leysa málið án þess að vera að gera það að ágreiningi sem enginn ágreiningur er um, þ.e. að kaupa þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, og niðurstaðan varð að flytja í Nd. við afgreiðslu lánsfjárlaga tillögu um heimild til að festa kaup á þyrlunni. Um það sameinuðust menn. Þar með var málið leyst og allur ágreiningur átti að vera horfinn. En nú hefur vegna einhvers konar ágreinings í hæstv. ríkisstjórn verið klúðrað enn einu sinni með þetta mál sem er orðið okkur þingmönnum til háborinnar skammar og þess vegna segi ég nei.