Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um leikskóla. Frv. gerir ráð fyrir því að festa leikskólann sem hluta af hinu almenna menntakerfi í landinu og marka starfsramma fyrir þá starfsemi. Í frv. er greint frá því hvernig eðlilegt sé að haga þessum málum en eins og kunnugt er, þá hafa leikskólamál verið í menntmrn. allt frá árinu 1973 ef ég man rétt.
    Í frv. er gengið út frá því að stofnun leikskóla og rekstur sé á ábyrgð sveitarfélaganna en fagleg yfirstjórn málaflokksins sé á hendi menntmrn. Nánar er kveðið á um það í III. og IV. kafla frv. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að á vegum ráðuneytisins verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að fagleg umsjón með þessari starfsemi verði betri en verið hefur, m.a. með því að unnt verði að semja við fræðsluskrifstofur um það að þær hafi auk grunnskólans með að gera starfsemi leikskóla.
    Í frv. og greinargerð þess er greint frá aðdraganda málsins sem mjög hefur verið ræddur opinberlega og ástæðulaust að endurtaka hér. Í frv. er byggt á því grundvallaratriði að ráðning nýrra starfsmanna samkvæmt þessu frv. skuli ákveðast á fjárlögum hverju sinni þannig að í frv. felst engin sjálfvirk kostnaðaraukning. Nokkuð hefur verið rætt um það hvort ríkisframlög ættu að koma til þessara verkefna. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um það enn þá. Í grófum dráttum er því hér um að ræða nánari lögfestingu á því kerfi sem verið hefur í gangi um nokkurra ára skeið.
    Þar sem málið hefur þegar fengið allmikla umræðu, bæði hér á hv. Alþingi og víðar, tel ég ástæðulaust að orðlengja frekar um það á þessu stigi nema fram komi um það sérstakar óskir og legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.