Læknalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá heilbr. - og trn. um breytingu á læknalögum.
    ,,    Nefndin hefur fjallað um frv. Á fund nefndarinnar kom Gunnsteinn Gunnarsson læknir. Umsagnir bárust frá læknaráði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, læknaráði Landakotsspítala, Geðlæknafélagi Íslands, læknaráði Borgarspítalans, læknadeild Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landspítalans, Tryggingastofnun ríkisins og landlækni.
    Ítarlegar umræður urðu í nefndinni um 1. -- 3. gr. frv. en ekki var útrætt um efni þeirra og því leggur nefndin til að þær verði ekki afgreiddar á þessu stigi.``
    Nefndin hafði þetta frv. reyndar og einmitt þessar greinar til umfjöllunar á síðasta þingi. Þá varð efni þessara greina ekki heldur útrætt, en þær eru mjög vandasamar og krefjast mikillar umfjöllunar og ég held að það sé því rétt að þessi efnisatriði verði geymd til betri tíma.
    ,,Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á 4. gr. frv. Auk orðalagsbreytinga er gerð tillaga um að læknum sé skylt að afhenda, sé þess óskað, landlækni eða öðrum opinberum aðilum afrit sjúkraskrár, eins og sjúklingum, en ekki frumrit hennar. Lagt er til að þeir opinberu aðilar, sem með lögum er falið faglegt eftirlit með heilbrigðisstéttum, geti einnig fengið afrit sjúkraskrár. Gerð er tillaga um orðalagsbreytingu á 4. mgr. 16. gr. laganna til að merking verði skýrari, þ.e. ef læknir telur ekki þjóna hagsmunum sjúklings að afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár skuli hún afhent landlækni til afgreiðslu.``
    Þetta er efnislega nákvæmlega það sem er í núgildandi lögum. Hér er aðeins kveðið skýrar á um textann.
    ,,Nefndin leggur ríka áherslu á að í reglugerð, sem heilbrigðisráðherra setur [kemur væntanlega til með að setja] um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa, verði tryggilega gengið frá því með hvaða hætti afrit sjúkraskráa skuli afhent. Að mati nefndarinnar ber að afhenda þau persónulega eða með ábyrgðarsendingu þannig að um þessi viðkvæmu skjöl verði ætíð fjallað í fyllsta trúnaði og þess gætt að þau lendi ekki í röngum höndum.``
    Þessi hugsun hvarflaði að nefndinni og kom til nokkurrar umfjöllunar vegna þess að nefndarmenn töldu hættu á að þegar svona mikilvæg skjöl eru send e.t.v. með nýtískulegum aðferðum, þ.e. í telefaxi eða eitthvað slíkt, þá geti það ætíð hent að slegið sé rangt númer inn á telefaxið og þessir viðkvæmu pappírar lendi í annarra höndum heldur en til er ætlast.
    Guðmundur G. Þórarinsson og Ragnhildur Helgadóttir voru fjarverandi er málið var afgreitt en undir nál. skrifa Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Geir H. Haarde, sem skrifar undir nál. með fyrirvara og mun væntanlega gera grein fyrir sínum fyrirvara, og Jón Sæmundur Sigurjónsson sem hér stendur.