Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að fá að ræða um þingsköp að mjög gefnu tilefni. Það er nú mjög skammt til þinglausna á hinu háa Alþingi og það er því hver síðastur að vekja athygli á því að fjáraukalög fyrir árið 1990 hafa ekki verið lögð fram. Ég lít svo til að staða fjvn. gagnvart þessu máli sé æði óvenjuleg, m.a. vegna yfirlýsinga formanns fjvn. sem hann gaf hér við 2. umr. fjárlaga 13. des. sl. þar sem hann fjallaði m.a. um ríkisspítalana. Stjórnendur ríkisspítalanna hafa lýst verulegum áhyggjum vegna þess arna, að fjáraukalögin hafa ekki komið fram, ekki séð dagsins ljós. Vil ég í þessu sambandi minna á ummæli formanns hv. fjvn. hinn 13. des. þar sem hann fjallar um ríkisspítalana og segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þá er einnig rétt að geta þess að fjvn. hefur ákveðið að þegar liggja fyrir endanlegar kostnaðartölur sjúkrahúsanna eftir áramót, en þá fyrst er þess að vænta að endanlegar kostnaðartölur fyrir árið 1990 liggi fyrir. Mun hún taka til skoðunar rekstrarniðurstöðu sjúkrahúsanna hvers fyrir sig og beita sér fyrir því að nauðsynlegar viðbótargreiðsluheimildir verði gefnar á fjáraukalögum fyrir árið 1990 til að hægt sé að standa undir greiðslu óhjákvæmilegs kostnaðar.``
    Ég endurtek að það hefur ekkert bólað á þessum fjáraukalögum og þetta hefur vissulega vakið upp miklar áhyggjur og umræður innan stjórnarnefndar ríkisspítalanna og hæstv. heilbr. - og trmrh. er kunnugt um það mál.
    Fjárskortur ríkisspítalanna er núna um það bil 200 millj. kr. Vegna halla ársins 1990 skortir 129 millj. og það er ljóst hvað fjárlögum 1991 viðvíkur að ríkisspítalana vantar 60 millj. á liðinn Önnur rekstrargjöld vegna óbreyttrar starfsemi miðað við árið 1990. Hér er um að ræða heildartölu upp á um það bil 200 millj. kr. Stjórnarnefndin hefur óskað eftir tillögum frá hinum ýmsu deildum ríkisspítalanna um niðurskurð vegna þess arna og þessar tillögur liggja nú fyrir. Þær eru í stórum dráttum um svo stórfelldar sumarlokanir á Landspítalanum að við það verður ekki unnt að búa. Þessar tillögur eru í þremur liðum og ég vil geta eins þeirra. Þar er gert ráð fyrir að loka öðrum bæklunarskurðgangi, 23 rúmum, fækka hjartaskurðaðgerðum um helming, úr 160 í 80, og stytta vinnutíma á skurðstofum um 10 -- 12%. Það vill segja að lenging vinnutíma á skurðstofu sem átti sér stað 1989 verði afnumin. Einnig að fresta glasafrjóvgun um ár. Allt eru þetta mjög viðkvæm og erfið mál, sérstaklega bæklunarskurðlækningarnar þar sem biðlistar eru nú langir og hjartaskurðlækningar ef það þarf að fækka þeim verulega. Þar eru biðlistar einnig mjög langir.
    Ég ákvað að gera grein fyrir þessu vegna þess að ég tel að við svo búið megi ekki standa og vil þess vegna beina orðum mínum bæði til hæstv. fjmrh., heilbr. - og trmrh. og formanns fjvn. um það hvað þessi ágætu yfirvöld peningamála og heilbrigðismála á Íslandi hyggjast gera í þessu máli.