Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins staðfesta það hér að það hefur verið kallað eftir því frá fjvn. að upplýsingar um fjáraukalög fyrir árið 1990 þyrftu að koma fram og í nótum frá starfsmönnum fjmrn. hefur einnig komið fram, sem hefur komið til fjvn., að verið væri að vinna að því. En þrátt fyrir ítrekun að undanförnu hafa ekki fengist neinar tölur eða tölulegar upplýsingar til nefndarinnar um þessa þætti sem augljóslega hljóta að vera fyrir hendi um það að leysa vandamál, ekki síst í sambandi við ríkisspítalana þannig að fjvn. hefur því miður ekki getað unnið að undirbúningi þessa máls eins og eðlilegt hefði verið.
    Mér finnst ástæða til að staðfesta þetta hér vegna þess að um tíma hafði ég frumkvæði að því að þetta var gert og m.a. hefur krafa um þetta komið fram í nefndinni frá hv. 2. þm. Norðurl. v. sem sérstaklega hefur verið fylgt eftir við fjmrn.
    Mér finnst að það liggi í augum uppi miðað við þá reynslu sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum í sambandi við ríkisspítalana að það er ekki hægt að víkja sér undan því að leysa þau mál þar sem það liggur skjallega fyrir og viðurkennt af öllum aðilum að samdráttur og lokun deilda og annað slíkt leysir ekki þennan vanda. Það leysir ekki rekstrarvanda spítalanna nema síður sé. Fyrir utan allt hitt, sem öllum hlýtur að vera ljóst, hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir þá þjónustu sem lög gera ráð fyrir að spítalarnir reki hér í landinu. Þess vegna er þetta stórt mál í raun og veru þó að þessar upphæðir sem þarna hefur þurft að staðfesta séu kannski ekki eins háar og oft hefur verið áður, en það liggur alveg ljóst fyrir að þær eru fyrir hendi.
    Ég þarf ekki miklu við þetta að bæta. Ég harma það náttúrlega eins og aðrir að þetta skyldi ekki hafa gengið eftir eins og þetta hefur verið sett fram á síðustu tveimur til þremur árum af hendi fjmrn., sem allir hafa borið lof á, þessa nýju skipan, um leið og verður að minna á að það er alveg furðulegt að þegar fjvn. hefur endurflutt frv. um greiðslur úr ríkissjóði hér á Alþingi sem var búið að ganga í gegnum vissa endurskoðun, bæði af ríkisfjármálanefnd og í fjmrn., þá er eins og það sé einskis virði að þetta frv. var endurflutt hér í hv. deild, það voru tiltölulegar litlar umræður hér, og nefndin sem fékk málið, hv. fjh. - og viðskn., hefur ekki einu sinni sýnt a.m.k. flytjendum úr öllum stjórnmálaflokkum hér inni á Alþingi þá sjálfsögðu virðingu að taka málið til meðferðar, hvað þá heldur að reyna að koma því hingað inn því að þetta er eitt af þeim málum sem gætu a.m.k. komið í veg fyrir það að menn þyrftu að standa hér í umræðum utan dagskrár eða þingskapaumræðum til þess að ræða um það sem allir í raun og veru eru sammála um að þurfi að breyta í sambandi við meðferð ríkisfjármála.
    En ég vildi koma þessum upplýsingum að, að fjvn. hefur verið tilbúin í samræmi við þá yfirlýsingu sem formaður fjvn. gaf hér við afgreiðslu fjárlaga á sl. hausti og það hefur ekki staðið á því að við værum

tilbúnir til að leggja á okkur aukavinnu til að greiða fyrir þessum málum.