Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 3. þm. Norðurl. e., hæstv. forseta Nd., fyrir að hafa vakið máls á þessum alvarlega hlut sem er að gerast í rekstri ríkisspítalanna. Hæstv. forseti bað um að við hemdum mál okkar. Það er að vísu erfitt að hemja undrun sína og hneykslan á því hvernig að efndum þeirrar yfirlýsingar hefur verið staðið sem féll nú á fyrri hluta þings í þá veru að þetta mál yrði örugglega leyst, bæði sá vandi sem út af stóð vegna síðasta árs í rekstri ríkisspítalanna, svo og að það lægju fyrir lausnir mála nú þegar í aukafjárlögum.
    Það er auðvitað deginum ljósara að lokanir á ríkisspítulum, samdráttur í rekstri á þann veg að frestað er bráðnauðsynlegum aðgerðum eða þá að fólk sem þarf á lífsnauðsynlegum aðgerðum að halda er sent utan, allt veldur þetta í raun og veru auknum kostnaði en ekki sparnaði. Kostnaðurinn kemur bara annars staðar fram og í sumum tilvikum síðar, en verður miklu langærri heldur en ella væri. Þess vegna er það með ólíkindum að hlusta á það þegar hæstv. ráðherrar koma hér og bera við ýmsum ástæðum eða eins konar afsökunum sem alls ekki eru í samræmi milli ráðherranna. Hæstv. heilbrrh. nefnir ýmislegt sem tafið hafi þetta mál. Ég tek fram að báðir ráðherrarnir virðast sammála um að það eigi að leysa málið og raunar með þeim hætti sem þegar hafi komið fram að gera beri.
En það sem veldur er að sögn hæstv. heilbrrh. m.a. það að ríkisstjórninni hafi ekki unnist tími til að koma sér saman um tillögur í þessu máli, m.a. hafi staðið svo á á ríkisstjórnarfundi nú í morgun að málið hafi verið þar á dagskrá en það var ekki tími til að taka það fyrir vegna þinghaldsins hér. Ja, mér hefur nú sýnst að hæstv. ríkisstjórn hefði ekki alltaf jafnmiklar áhyggjur af því hvort það væru fundir hér í deild eða ekki. En nú bregður svo við þegar kemur að máli ríkisspítalanna á dagskrá ríkisstjórnarfundar að þá liggur öllum hæstv. ráðherrum á að þeysa til þingfundar þó svo að hér hafi varla verið fundarfært í upphafi, a.m.k. ekki atkvæðagreiðslufært vegna skorts á stjórnarliðum. En hæstv. ríkisstjórn vék þessu máli til hliðar af þessum sökum.
    Ég get auðvitað ekki gagnrýnt það að hæstv. ríkisstjórn láti þingfund ganga fyrir öðru, en ef þetta var ástæðan, að hæstv. ríkisstjórn vannst ekki tími til að afgreiða þetta dagskrárefni, eins og fram kom hjá hæstv. heilbrrh., þá vil ég leyfa mér að stinga upp á því að hæstv. forseti hlutist til um það að ríkisstjórninni gefist tækifæri til að skjótast saman á fund og afgreiða þennan dagskrárlið frá fundinum í morgun. Þá ættum við að vera nær lausn málsins og þá ættum við að vera nær þeim tilgangi hæstv. frummælanda að fá upplýsingar um það hvers ríkisspítalarnir mega vænta þannig að störf þeirra nú á vordögum lendi ekki í hreinum ógöngum vegna óvissu um framhaldið og hvernig haga beri ýmiss konar samdrætti í störfum þeirra.
    Þetta hefði ég haldið að væri ekki afar flókið mál

úr því sem komið er og vegna þeirra tillagna sem þegar liggja fyrir. Af máli hæstv. fjmrh., í fyrri ræðu hans, mátti helst skilja að það vantaði einhverjar tillögur frá ríkisspítulum, þær hefðu a.m.k. verið mjög seint fram komnar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið lágu þær tillögur fyrir fyrir afgreiðslu fjárlaga og ef um einhverjar frekari upplýsingar hefur verið að ræða, þá eru þær allar löngu komnar þannig að þessi ástæða stenst ekki heldur.
     Loks nefndi heilbrrh. samstarfsnefnd sem ekki væri búið að tilnefna í. Ég verð að játa að ég skildi ekki alveg hvað það kom þessu máli við, tillögum sem liggja fyrir og rekstrartölum sem liggja fyrir fyrir löngu þó að það ætti eftir að tilnefna í samstarfsnefnd ríkisspítalanna. Mér finnst það vera svo augljós fyrirsláttur að það eigi að bíða eftir einhverjum slíkum tilnefningum, ja, líklega til að fá umsagnir eða ég veit ekki til hvers. Þetta er ósköp einfaldlega afgreiðsluatriði sem engu er líkara en hafi orðið fyrir þeim örlögum sem hv. 1. þm. Norðurl. v. benti á, að hafa lent á einhverjum pólitískum þvælingi vegna margfrægra blaðamannafunda hæstv. ráðherra.
    Það voru fleiri en ég og fleiri en hv. þm. sem voru undrandi þegar hæstv. fjmrh. sat fyrir sjónvarpsmyndavélum og lýsti því yfir alsæll að skuldir Íslendinga hefðu ekki aukist um eina einustu krónu í hans tíð. Það má vel vera að svo hafi verið um A - hluta fjárlaganna, en hver er staðreyndin í því máli? Skuldir Íslendinga hafa aukist svo að þær hafa aldrei verið neitt þvílíkar sem þær eru núna. Og það er von að hæstv. ráðherra sé mjög upptekinn af að matreiða svona upplýsingar fyrir landslýð á meðan hann lætur undir höfuð leggjast að leggja fram fjáraukalög og ganga frá þeim málum í ríkisstjórninni sem eru lífsnauðsynleg fyrir þá sem ekki geta beðið og það eru þeir sem bíða eftir lífsnauðsynlegri þjónustu ríkisspítalanna.
    Mér þykja þessar afsakanir hæstv. ráðherra satt að segja svo ósennilegar hjá hæstv. fjmrh. að ég leyfi mér að telja þær ósannar og svo ómyndarlegar hjá hæstv. heilbrrh. að ég vil ekki sætta mig við að þær geti verið réttar og þess vegna vil ég styðja hæstv. heilbrrh. í því að koma því til leiðar, ef stuðningur þingsins fengist við það eða a.m.k. hæstv. forseta, að hlutast til um það að hæstv. ríkisstjórn gæti skotist á fund til að koma sér saman um þann dagskrárlið sem hæstv. heilbrrh. mátti gjöra svo vel að renna niður að yrði ekki afgreiddur nú í morgun.
    Ég kannast við það frá gamalli tíð að það er erfitt að berjast fyrir stórum fjárveitingum í heilbrigðiskerfið og hæstv. heilbrrh. veitir ekkert af stuðningi Alþingis til þess. En hæstv. heilbrrh. og flestir hv. þm. vita það jafn vel að sparnaður á þessu sviði hjá stofnun sem er búin að spara mjög, mjög mikið og leggja að sér strangt aðhald til þess, sá sparnaður leiðir ekki til annars en aukins kostnaðar síðar sem vindur upp á sig.
    Ég ætlaði, hæstv. forseti, ekki að fara að ræða um efnisleg rök í þessu, en það er óhjákvæmilegt að minna á þau því að þeim mun meiri verður undrun

okkar og þeim mun meiri að málið skuli ekki hafa verið afgreitt af hálfu hæstv. fjmrh. og öll fjvn., stjórnarliðar og stjórnarandstaða, er sammála um það að þetta hafi dregist úr hömlu af hálfu fjmrn. Og fjvn. er fyrir löngu tilbúin til að vinna í þessu máli. Auðvitað veit ég að í fjvn. eru garpar sem eru færir um að svara fyrir sig, en ég get ekki látið vera að hneykslast á því þegar hæstv. ráðherra kemur og ýjar að því að vegna seinagangs í störfum fjvn. þýði ekkert að vera að leggja fram svona frv. eins og fjáraukalög vegna þess að hæstv. fjvn. þurfi --- ég segi hæstv., svo mikil er virðing mín orðin fyrir þeirri ágætu nefnd, það er ekki seinna vænna --- svo langan tíma til þess að vinna úr málum sínum.
    Fjvn. er því alvön að vinna undir miklu álagi og vinna úr flóknum dæmum. Þetta mál er hins vegar ekki lengur svo flókið. Staðreyndir málsins liggja fyrir. Tillögurnar liggja fyrir og viðbára eins og þessi hjá hæstv. fjmrh. er auðvitað alveg forkastanleg og fráleit og ekki hægt að ætlast til þess að mark sé tekið á henni.
    En til að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, þá vil ég ítreka það að ég skora á hæstv. ríkisstjórn, sem oft hefur nú séð af mínútum til þess að tala saman innbyrðis þó að þingmenn séu að funda og standi hér í ræðustólum, að skjótast á smáfund og leysa þetta mál sín á milli. Og trúað gæti ég að það gæfist sérstakt tilefni til þess, t.d. ef nú yrði farið að ræða um álverstillöguna góðu, þá skapast væntanlega svigrúm í tíma fyrir hæstv. ríkisstjórn til að ræða saman um þetta mál. En ég lýsi undrun minni á hörmungarástandi í afgreiðslu þessa máls og ég tel að það megi engan tíma missa til að fá lausn, að fá a.m.k. ákvörðun um það hvaða talna sé að vænta.