Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá meiri hl. félmn.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Svein Ragnarsson, félagsmálastjóra Reykjavíkur, Braga Guðbrandsson, félagsmálastjóra Kópavogs, Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, formann stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Meginbreytingin felst í því að felldur er brott X. kafli frv. um málefni leikskóla. Ákvæði sem snerta leikskóla falla nú undir kaflann um málefni barna og ungmenna. Aðrar breytingar eru minni háttar lagfæringar á frv.``
    Undir nál. skrifa Rannveig Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Jón Kristjánsson.
    Brtt. þær sem hér er vísað til í nál. eru á þskj. 873 og eru í 14 liðum. Flestar þeirra eru minni háttar, svo sem við 1. gr. þar sem við b - lið bætist: barna og ungmenna og við 2. gr. þar sem í inngangsorðum kemur: og ráðgjöf í staðinn fyrir ,,o.fl.`` Í b - lið 2. gr. er felldur út töluliður 6 þar sem upptalning er á verkefnum sem heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem talin eru upp málefni leikskóla.
    Við 3. gr. er lagt til að síðari málsgrein falli brott, en það er sú málsgrein sem tilgreinir að málefni leikskóla heyri undir menntmrn. að því er varðar faglega yfirstjórn og uppeldisáætlanir.
    Þá er lagt til í sambandi við 8. gr. að síðari málsgreinin falli brott, þ.e. málsgrein sem snýr að starfsfólki félagsmálastofnana og talið er að sé óþörf.
    Við 11. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar þannig að 2. tölul. orðist svo: ,,að leitast við að tryggja að félagsleg þjónusta verði sem mest í samræmi við þarfir íbúa.``
    Síðan eru nokkrar greinar þar sem er verið að fella út stök orð sem þykir fara betur og þar sem óþarft þykir og var það gert til samkomulags í nefndinni. En síðan koma inn tvær nýjar greinar sem verða 33. og 34. gr. Þær eru í kaflanum um málefni barna og ungmenna og hljóða svo:
 ,,a. (33. gr.) Sveitarfélög annast uppbyggingu og rekstur leikskóla og tekur sveitarstjórn ákvörðun um stjórn þeirra.
    Leikskólar eru reknir samkvæmt sérstökum lögum.
    b. (34. gr.) Sveitarstjórnir skulu eftir föngum tryggja framboð á leikskólarými. Til þess að sú þjónusta verði í sem bestu samræmi við þarfir barna í sveitarfélaginu skal það láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.
    Félagsmálaráðuneytið skal liðsinna sveitarfélögum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla á vettvangi héraðsnefnda eða með stofnun byggðasamlaga.``
    Að öðru leyti eru þær breytingagreinar sem ég ekki

rek hér fyrst og fremst varðandi orðalagsbreytingar.
    Ég legg áherslu á að meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.