Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál í sambandi við þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég er efnislega samþykkur því að það sé sett rammalöggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga og átti hlut að því máli á sínum tíma þegar ég skipaði nefnd 1985 til að endurskoða þessi lög sem miða að ýmsum þáttum í félagslegri þjónustu sveitarfélaga. En eins og allir hv. þm. vita þá höfum við til þessa stuðst við úrelt lög, síðast frá 1947, sem ekki taka tillit til þeirrar þróunar sem hefur orðið í þessum málum og þarf ég ekki að hafa hér langt mál um það, það hefur áður komið fram.
    Það sem mér finnst að í sambandi við þetta mál er það, eins og raunar hefur komið hér fram, að það var harðvítug deila milli hæstv. félmrh. og hæstv. menntmrh. um þessi mál þar sem togast var á um leikskólann og meðferð þess máls til að færa það til nútímahorfs, sem menn virtust ekki vera sammála um á þessum tíma. Þannig tafðist þetta mál frá sl. hausti þar til núna á síðustu dögum þingsins.
    Það sem ég vil benda á er það að ég er ekki að hafa á móti sérlögum um leikskóla, síður en svo, mér finnst það eðlilegur hlutur. Það hafa komið fram nægileg rök fyrir því að á því er mikil þörf. Leikskóli er allt annað hugtak nú í dag heldur en var fyrir allmörgum árum þegar leikskólinn var aðeins íverustaður, geymslustaður fyrir börn meðan fólk stundaði vinnu í aðalatriðum, en ekki sá uppeldisskóli sem hann hlýtur að vera samkvæmt kröfum tímans. En það sem mér finnst óeðlilegt er það að þegar fjallað er um svona stóran málaflokk, eins og félagsþjónustu sveitarfélaga og nýja skipan á lögum um leikskóla, þá skuli þess ekki gætt varðandi þær kröfur sem verður að gera til leikskóla eftir þessu nýja formi, sem virðist eðlilegt, að jafnframt sé tekið tillit til þess hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir fjármál sveitarfélaga til að standa við þetta mál, sem er aðalatriðið við þessa breytingu. Ég gagnrýni það mjög að það skuli vera farin einhvers konar samkomulagsleið sem í raun og veru breytir ekkert eðli málsins að því er varðar þessi höfuðatriði að tryggja það að framgangur þessa máls verði að veruleika. En það er ekki gert. Og það er alveg augljóst mál að í meðferð þessa frv. og þessara frv. beggja hefur þess ekki verið gætt að samræma þetta atriði.
    Sveitarfélögin komu af fjöllum í sambandi við leikskólann. Það hefur ekki verið hugsað fyrir því að láta þau taka þátt í þessu máli til þess að tryggja það að þau séu fær um að sinna þessu hlutverki eins hratt og nútíminn krefur. Þetta tel ég gagnrýni vert. Og mér finnst það einnig gagnrýni vert að taka út úr frv. til laga um félagsþjónustu hlutverk sveitarfélaga að því er þetta varðar. Auðvitað verðum við þá að breyta öðrum lögum því að við erum hér með sveitarstjórnarlögin, þar sem verkefni sveitarfélaga eru talin upp í félagsmálum, þar á meðal barnaverndarmál, rekstur dagvistar fyrir börn, rekstur dvalarheimila fyrir aldraða og rekstur heimilishjálpar o.s.frv. Og í verkaskiptalögunum, sem eru tiltölulega ný, er bygging og rekstur dagvistarheimila í verkahring sveitarfélaga. Menntmrn. skal hafa með höndum faglega umsjón með starfi dagvistarheimila og vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þau mál. Samþykki menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn dagvistunarheimili.
    Í 60. gr. þessara laga stendur, með leyfi forseta: ,,Sveitarstjórn ákveður byggingu og fyrirkomulag á rekstri dagvistarheimila í eigu þess samkvæmt lögum þessum. Sveitarstjórn getur veitt aðilum, sem reka vilja dagvistarheimili í samræmi við markmið þessara laga, styrki til byggingar og reksturs`` o.s.frv.
    Síðan kemur í 62. gr.: ,,Menntmrn. skal í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði og búnað og viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið dagvistarheimila sem falla undir lög þessi.``
    Það sem ég er fyrst og fremst að vekja athygli á í sambandi við þessi mál, sem hér eru bæði til meðferðar í hv. deild og eru þannig að mínu mati óaðskiljanleg, er að það verður að afgreiða þau frá Alþingi á sama þingi og gera þá viðhlítandi ráðstafanir. Það sem ég er að gagnrýna er að þessar ráðstafanir vantar. Það er alveg augljóst mál að hér er um milljarða að ræða ef á að ná verulegum tökum á þessu máli að því er varðar leikskólann og það er útilokað að mínu mati að taka undan félagslegri þjónustu sveitarfélaga heilan kafla í þessum lögum, þ.e. X. kafla laganna, á þennan hátt sem hér er gert.
    Herra forseti. Ég hef fallist á það að hafa ekki langt mál hér um þetta mál. Eins og ég sagði áður var þessum málum báðum klúðrað með hrossakaupum sem fóru fram í sambandi við það að laga þessi frv. til þannig að báðir hæstv. ráðherrar gætu við unað. En þeir breyta eðli málsins. Ég er alveg sannfærður um það að þó við samþykkjum þessi frv. bæði hér á hv. Alþingi þá verður að gera breytingar á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og á tekjustofnum sveitarfélaga til að þessi mál, sérstaklega leikskólamálið, nái þeim framkvæmdahraða sem nauðsynlegt er til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru í þjóðfélaginu og að mínu mati eru réttmætar til að koma þessum málum til betri vegar.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst leiðinlegt fyrir Samband ísl. sveitarfélaga að þurfa að viðurkenna að sveitarfélögin hafi ekki verið höfð með í ráðum um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessum frv. á því stigi sem breytingin var gerð. Þetta var aðeins gert á milli hæstv. ráðherra án þess að sveitarfélögin, sem voru búin að senda umsögn um fyrri frv. um félagslega þjónustu, væru höfð með í ráðum.
    Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er löngu tímabært og ég hef sjálfur lagt áherslu á að slík lagasmíð yrði að veruleika. Við getum ekki búið lengur við úrelta löggjöf. En ég vil benda á það við þessa umræðu að hér er á mjög mikill galli, sem því miður hefur komið allt of oft fyrir í meðförum nú á þessum stóru málum,

ekki síst á félagslega sviðinu, að það er verið að gera samkomulag út og suður sem skekkir hina raunverulegu lagamynd sem þarf að vera í þessum málum. Og það skulu vera mín síðustu orð að ég átel svona vinnubrögð.