Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Við hv. þm. Eggert Haukdal, sem sitjum fyrir Sjálfstfl. í félmn. þessarar deildar, höfum ekki séð ástæðu til að skila séráliti að því er þetta mál varðar. Ástæðan fyrir því er sú að við sjáum ekki ástæðu til að amast sérstaklega við því úr því sem komið er, en hins vegar eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn afgreiði það héðan á sína eigin ábyrgð.
    Þannig er að við 1. umr. um þetta mál urðu hér miklar umræður, ekki síst um X. kafla frv. sem snýr að leikskólanum. Þær umræður hafa orðið til þess að hæstv. félmrh., flm. þessa máls, hefur hopað á hæli með sín upphaflegu áform og í grundvallaratriðum fallist á þau sjónarmið sem fram komu m.a. hjá mér og hjá hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur og mörgum öðrum, um það að málefni leikskólans ættu ekki heima í félmrn., heldur væri þar um að ræða málefni sem að réttu tilheyrði menntmrn. með sama hætti og til að mynda lög um grunnskóla.
    Ég fagna þess vegna þeirri breytingu sem meiri hl. nefndarinnar hefur ákveðið að gera á frv., þ.e. að fella út X. kafla frv. sem og ákvæði í 2. og 3. gr. frv. varðandi leikskóla. Ég er hins vegar á því að sú brtt., sem gerð hefur verið og haldið er fram að um sé einhver meiri háttar sátt í þjóðfélaginu, 8. brtt. á þskj. 873, sé ekki nægilega góð. Og ef hún hlýtur hér samþykki þá geri ég ráð fyrir að ég muni flytja brtt. við 3. umr. um að orða þetta atriði öðruvísi heldur en þarna er gert og mun þá bíða eftir því að þskj. verði endurprentað með þeim miklu breytingum sem lagðar eru til á því í brtt. meiri hl. nefndarinnar á þskj. 873.
    Ég tel nefnilega að ráðgerðar greinar nr. 33 og 34 á þessu þskj. eins og lagt er til að þeim verði breytt, skarist, og að sú síðari, þ.e. brtt. 8b um nýja 34. gr., sé í aðalatriðum ástæðulaus. Ég tel að það nægi alveg að segja í greininni á undan að sveitarfélög skuli annast uppbyggingu og rekstur leikskóla og að sveitarstjórn skuli taka ákvörðun um stjórn þeirra, en að það þurfi ekki síðan að bæta því við í nýrri grein þar á eftir að sveitarstjórnirnar skuli eftir föngum tryggja framboð á leikskólarými. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli og felast í því sem fram er komið í greininni á undan um að sveitarfélög annist uppbyggingu og rekstur leikskóla. Er það þá ekki að tryggja framboð á leikskólarými að annast uppbyggingu og rekstur leikskóla? Mér er spurn.
    Síðari liðurinn í þessari málsgrein hljóðar svo: ,,Til þess að þessi þjónusta verði í sem bestu samræmi við þarfir barna í sveitarfélaginu skal sveitarfélagið láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.`` Ég tel að þetta ákvæði sé ekki þess eðlis að það eigi heima í þessari löggjöf vegna þess að það er auðvitað á verksviði sveitarfélagsins sjálfs að meta það eftir þeim aðferðum sem það telur réttastar og bestar á hverjum tíma hver þörfin er fyrir þessa þjónustu. Það er alveg ástæðulaust að binda það í lögum að hvert og eitt sveitarfélag skuli láta fara fram mat á þörfinni fyrir leikskóla eigi sjaldnar en á tveggja ára

fresti. Ég sé bara ekki nokkra einustu ástæðu til að binda það í lög. Ég treysti sveitarstjórnunum í landinu alveg til þess að fylgjast rækilega með því hvert á sínu svæði hvernig þörfin fyrir þessi mál er og hvernig hún þróast og breytist. Þannig að hér er auðvitað bara verið að halda í einhverjar leifar af þeim ákvæðum sem voru í X. kafla frv., sem ákveðið hefur verið að fella brott, alveg að ástæðulausu .
    Síðan er hér lokamálsgrein í þessari væntanlegu 34. gr., um það að félmrn. skuli liðsinna sveitarfélögum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla á vettvangi héraðsnefnda eða með stofnun byggðasamlaga. Þetta er út af fyrir sig gott og gilt að greiða fyrir því að sveitarfélög, væntanlega hin smærri sveitarfélög í dreifbýli, taki sig saman um að reka leikskóla á vettvangi héraðsnefnda, en ég sé ekki að það sé nein sérstök þörf á því að binda það í lög að félmrn. skuli liðsinna um þetta efni. Ef sveitarfélögin verða í einhverjum sérstökum vandræðum og ef héraðsnefndirnar, sem eiga að vera vettvangurinn fyrir þetta, geta ekki leyst það sjálfar þá held ég að menn mundu á endanum leita til ráðuneytisins án þess að það væri lögbundið að ráðuneytinu bæri að liðsinna í þessum efnum. Þetta er auðvitað alveg fráleitt og þetta er auðvitað bara gert í þeim tilgangi að tryggja það að með einhverjum hætti geti félmrn. verið með puttana í þessum málum. En ég vil jafnframt benda á að í nefndarstarfinu óskaði formaður Sambands ísl. sveitarfélaga eftir því að þessu ákvæði yrði breytt þannig að í stað þess að félmrn. færi með þetta hlutverk, að veita liðsinni við þessar aðstæður, þá kæmi í staðinn Samband ísl. sveitarfélaga, sem eru hin frjálsu samtök sveitarfélaganna í landinu. Það er auðvitað nær lagi og meira í áttina heldur en að vera að troða þessu hér inn í ráðuneytið. Það mætti þá alveg eins hugsa sér að taka þessa grein, ,,Félmrn. skal liðsinna sveitarfélögum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla`` o.s.frv., inn í væntanlega endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands og taka það upp sem eitt af hlutverkum félmrn. á lista yfir málefnasvið ráðuneytisins, að eitt af verkefnum félmrn. í stjórnarráðslögum sé að liðsinna sveitarfélögum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla á vettvangi héraðsnefnda. Hvort tveggja er auðvitað jafnfráleitt. Þannig að mér sýnist að ekki sé nægilega vel frá þessu gengið.
    En þessar brtt. eru auðvitað á ábyrgð meiri hl. nefndarinnar og ráðherrans væntanlega. Auðvitað ber þetta allt með sér einkenni þess að hér er komin
svona samkomulagsmoðsuða milli ráðuneyta og ráðherra, þar sem kjarni málsins er látinn liggja milli hluta en menn leggja allt á sig til þess að reyna að ná bara einhverju samkomulagi, alveg sama um hvað það er. Þetta eru nú þau vinnubrögð sem við okkur blasa hér í þinginu þessi síðustu dægrin og þessar síðustu klukkustundirnar þegar haldnir eru hér nefndarfundir í hinum ýmsu skúmaskotum þinghússins til þess að reyna að klastra saman einhverjum meiri hluta á vegum ríkisstjórnarflokkanna um hin ýmsu mál.
    Það kom fram hér áðan í umræðum um þingsköp

að hv. fjh.- og viðskn. hefur ekki enn þá getað lokið störfum varðandi lánsfjárlög. Vegna hvers? Vegna þess að hinn virðulegi stjórnarmeirihluti í nefndinni getur ekki náð samkomulagi enn sem komið er um það með hvaða hætti á að breyta því frv. og með hvaða hætti á að afgreiða lánsfjárlögin.
    Síðan er það kannski annað mál, herra forseti, að það liggur hér fyrir bréf á þskj. 967 frá Sambandi ísl. sveitarfélaga til menntmn. Nd. um hitt frv., þ.e. leikskólafrv. sem þessu máli auðvitað tengist. Þar koma fram þær athyglisverðu upplýsingar að Samband ísl. sveitarfélaga hefur ekkert verið haft með í ráðum um þetta efni. ( Gripið fram í: Það var ekkert við það talað.) Það var ekkert við sambandið talað. Og sambandið gerir hér verulegar athugasemdir við það að stefnt skuli að því að afgreiða á þessu þingi frv. til laga um leikskóla án þess að því hafi verið gefinn kostur á að fjalla efnislega um málið og gefa formlega umsögn, og væntir þess að mál þetta verði eigi afgreitt nú án samráðs við sambandið.
    Ég veit að þetta mál er ekki á forræði hæstv. félmrh. en þessi mál hafa nú verið nátengd hér í umræðunni, annars vegar það þingmál sem nú er á dagskrá, þ.e. félagsþjónusta sveitarfélaga, og hins vegar frv. um leikskóla. Þannig að vinnubrögðin í þessu eru býsna hæpin, verð ég að segja, og reyndar síst til fyrirmyndar. En það hefur flogið fyrir hér í þingsölum og á göngum þingsins, menn hafa svona verið með það á skotspónum, að þessi frv. hangi það mikið saman að annað verði ekki afgreitt án hins og að ef annað þeirra nær ekki fram að ganga þá muni fara á sömu leið með hitt. Ég skal ekki segja hvað hæft er í þessu en kannski geta einhverjir upplýst okkur um það hvort svona er í pottinn búið.
    Við 1. umr. um þetta frv., virðulegi forseti, gerði ég margar og verulegar athugasemdir við einstök efnisatriði, orðalag, framsetningu og fleira í frv. Mér fannst satt að segja alveg furðulegt að það skyldi lagt fyrir Alþingi frv. sem var í þessum búningi, jafnilla unnið, vil ég leyfa mér að segja, eða jafnlítið unnið að því er varðar framsetningu og fleira í þeim dúr. Ég tók mig þess vegna til og bjó til langan lista af athugasemdum við þessi atriði og merkti inn á eintak af frv. fjöldann allan af athugasemdum. Formaður félmn., sem er ákaflega samvinnuþýður, hefur tekið þessar tillögur til skoðunar og gert þær flestar hverjar að sínum, og þær birtast okkur hér á þskj. 873 sem brtt. meiri hl. félmn.
    Ég er út af fyrir sig mjög ánægður með þessi vinnubrögð af hálfu formanns nefndarinnar og tel að þau séu reyndar til fyrirmyndar þó svo að það sé auðvitað dapurlegt að með því er staðfest hvernig þetta frv. var úr garði gert þegar það var lagt fram. Af þeim fjórtán brtt. sem lagðar eru til á þskj. 873 sýnist mér að tíu séu til komnar í beinu framhaldi af mínum athugasemdum en fjórar eru niðurstaðan úr samkomulagsumleitunum varðandi leikskólamálið.
    Menn geta svo sem spurt sjálfa sig að því: Hvernig stendur þá á því að þeir sem hafa lagt hér fram athugasemdir um orðalag og framsetningu og fengið

þeim framgengt skrifa síðan ekki upp á nál.? Það mætti hugsa sér að einhver gæti látið sér detta í hug að bera fram þessa spurningu. En auðvitað er rétt að snúa þessu við og segja að þeir sem vilja tryggja þessu frv. hér framgang eigi að þakka fyrir það að einhver skuli hafa nennt að fara í saumana á þessu skjali með þeim hætti að út úr því hafa komið tíu breytingar á orðalagi sem aldrei hefði átt að koma inn í þetta frv. til að byrja með. Þannig að það stendur ekki upp á þann sem hér talar að þakka fyrir það að hans brtt. hafi náð fram að ganga á þessu þskj. heldur er það stjórnarmeirihlutans að þakka honum fyrir að hafa komið með þessar ábendingar til þess að þetta frv. væri í einhverju skaplegu formi gagnvart framsetningu og ýmsum lögfræðilegum atriðum.
    Ég bendi til að mynda á að meiri hl. nefndarinnar gerir það að sinni tillögu í framhaldi af mínum athugasemdum að hin furðulega setning um það að félagsmálastofnanir skuli hafa hæfu starfsfólki á að skipa er felld brott. Ég fjallaði nokkuð um þessa setningu hér við 1. umr. Hún er reyndar gjörsamlega fráleit, að ætla að binda það í lögum að hin eða þessi stofnun á vegum sveitarfélags skuli, eins og það var orðað, hafa hæfu starfsfólki á að skipa til að sinna þeim verkefnum sem lög þessi kveða á um. Og eins og ég benti á þá vantar þarna í lok þessarar setningar: að viðlagðri aðför að lögum. Eða að taka inn sérstök ákvæði um refsingar í lok þessa frv. þar sem kveðið er á um viðurlög fyrir að brjóta þetta ákvæði. Þetta sjá auðvitað allir menn að er út í hött og þess vegna ber að fagna því að meiri hl. nefndarinnar féllst á að taka þetta upp sem eina af sínum brtt.
    Það er hins vegar ekki rétt sem segir í nál. meiri hl. að þetta atriði sé minni háttar og öll þau atriði sem nefndin tók til athugunar og voru undan mínum rifjum runnin hafi verið minni háttar lagfæringar. Það eru ekkert minni háttar lagfæringar að þurrka svona vitleysu út úr frv.
    Ég nefni hér fleira eins og t.d. þetta málblóm úr 11. gr. frv., þar sem segir að hlutverk félagsmálanefnda sé ,,að hafa yfirsýn yfir félagslega hagi fólks í sveitarfélaginu til þess að tryggja það að félagsleg þjónusta verði sem mest í samræmi við þarfir íbúa``. Þetta er nú farið eða fer væntanlega brott og í staðinn kemur skaplegra orðalag.
    Svo ég nefni annað dæmi þá hafa jafnframt verið felld brott úr 2. gr. frv., þar sem er upptalning, orðin ,,o.fl.`` sem eiga náttúrlega ekki að sjást í lagatexta sem á að vera nokkurn veginn tæmandi. ,,Með félagsþjónustu er í lögum þessum átt við þjónustu, aðstoð o.fl. í tengslum við eftirtalda málaflokka.`` Þessu er búið að breyta. Ef fólki finnst þetta minni háttar þá það um það. En ef fólk er að afgreiða hér lög á Alþingi sem eiga að gegna ákveðnu hlutverki og standast tímans tönn þá verða menn að vanda sig betur en gert hefur verið með þetta.
    Í 12. gr. frv. var eftirfarandi málsgrein: ,,Hafðir skulu í huga jafnt almannahagsmunir sem og velferð þess sem þjónustuna fær.`` Hér er verið að fjalla um almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum

sveitarfélaga. Þessi magnþrungna og efnismikla setning, ,,Hafðir skulu í huga jafnt almannahagsmunir sem og velferð þess sem þjónustuna fær``, hún er strikuð út í brtt. meiri hl. félmn. að minni tillögu.
    Þannig mætti lengi telja varðandi þessar brtt. Ég skal ekki hirða um að vera að segja frá meiru af þessu nema að vísu 44. gr., sem reyndar hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir gerði líka athugasemd við en í henni segir eftirfarandi:
    ,,Leitast skal við að tryggja að aldraðir taki sjálfir þátt í ákvörðunum um málefni sín.``
    Þessi setning er auðvitað stórhlægileg vegna þess hvað hún er fáránleg og vegna þess hvað það veitir mikla innsýn inn í þann hugarheim sem býr að baki þessu öllu saman, að það eigi náðarsamlegast að leyfa öldruðum að taka sjálfir þátt í ákvörðunum um málefni sín eða ,,leitast við að tryggja það`` að þeir fái það. En þessi setning fer nú undir hnífinn ef brtt. meiri hl. nefndarinnar ná fram að ganga og eru í samræmi við mínar óskir í þeim efnum.
    Ég skal nú ekki vera að fjalla meira um þessar brtt. Ég vil bara endurtaka það að ég met það við formann nefndarinnar að taka tillit til þeirra í þeim mæli sem þó var gert þó að þær hafi ekki allar verið teknar til greina. En það eru auðvitað ekki mínir hagsmunir sérstaklega að þetta frv. verði þokkalega úr garði gert, það eru auðvitað hagsmunir þeirra sem á því bera ábyrgð. En ef menn taka löggjafarstarf sitt hér í nefndum þingsins alvarlega þá hljóta þeir að reyna að leggja lið í því að ganga frá svona texta þannig að skaplegt sé. Það hef ég reynt að gera og ég er ánægður með það og vil þakka fyrir það að formaður nefndarinnar skuli hafa komið til móts við það sjónarmið í þeim mæli sem gert var.
    Varðandi efni þessa máls að öðru leyti vil ég rétt nefna hér ákvæðið í 19. gr., um skyldur manna til að framfæra sjálfa sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þetta atriði var lítillega rætt við 1. umr. hér í deildinni af minni hálfu og sömuleiðis einnig lítillega rætt í nefndarstarfinu. Hér er um að ræða ákvæði sem nú er að finna í annarri mynd í gömlu framfærslulögunum frá 1947, þar sem foreldrum er jafnframt skylt að framfæra börn sín eftir 18 ára aldur ef þau eru ekki fær um það sjálf, en jafnframt börnum skylt að framfæra foreldra sína ef foreldrarnir eru ekki í aðstöðu til þess að sjá um það sjálfir. Ég velti því hér upp á sínum tíma og sömuleiðis í nefndarstarfinu sem álitamáli hvort það væri rétt að fella brott þetta gamla og góða samhjálparákvæði um það að börn skyldu annast foreldra sína í ellinni. Það upplýstist hins vegar í þessu nefndarstarfi að eins og þessi lög eru framkvæmd í dag, til að mynda hér í Reykjavíkurborg, þá hefur ekki þótt fært að beita þessum ákvæðum til hlítar eða ganga hart eftir því að einstaklingar sem ekki vildu liðsinna foreldrum sínum í ellinni gerðu það. Með öðrum orðum að ekki væri beitt þvingunum eða valdi til þess að knýja fólk til slíks liðsinnis við foreldra sína. Og að athuguðu máli og að fengnum þessum upplýsingum m.a. og þeim sjónarmiðum þeirra sem við þessi störf fást var það niðurstaða mín að

flytja ekki brtt. við þetta ákvæði. En mér finnst samt eðlilegt að menn ræði þetta hér í sölum Alþingis þegar verið er að afgreiða þetta frv. og þegar verið er að breyta þessum ákvæðum sem nú fyrirfinnast í framfærslulögunum.
    Ég vil þá víkja aðeins að kaflanum um húsnæðismál, virðulegi forseti, VIII. kafla þessa frv. Ég hefði talið að 51. gr. frv., þar sem segir að sveitarstjórn skuli heimilt að fela félagsmálanefnd umsjón með leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins og útleigu þeirra o.s.frv., að þessi grein sé óþörf vegna þess að við afgreiddum hér í fyrra nýja löggjöf um félagslegt húsnæði. Þar var tekin inn sérstök brtt. til þess að tryggja það að sveitarfélagið gæti einmitt gert það sem þarna er lagt til, þ.e. falið félagsmálanefnd umsjón með leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins og umsjón með þeim að öðru leyti. Ég sé því ekki hvaða tilgangi það þjónar að taka þetta ákvæði aftur upp hér í þennan lagabálk.
    Sömuleiðis minnir mig að þegar húsnæðisnefndir voru stofnaðar hér í fyrra með þeim lögum sem ég nefndi hafi verið ætlunin að húsnæðisnefndin yfirtæki hlutverk húsaleigunefndar. En það má vera að sú breyting hafi ekki enn komið til framkvæmda vegna þess að húsaleigunefndirnar eru settar á laggirnar samkvæmt lögum um húsaleigusamninga og þeim hefur ekki verið breytt. Þannig að það má vera að það sé skýringin á því að það hafi ekki enn þá gerst. En ég sé ekki annað en að þarna séu óþörf ákvæði að því er þetta varðar þó að kannski megi segja um þetta atriði eins og svo margt annað í þessu frv. að það geri ekkert til þó að þetta verði samþykkt svona. Það veldur engu tjóni og af þeirri ástæðu kannski ástæðulaust að amast við því.
    En ástæða þess að við fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. ætlum ekki að amast við þessu frv. er reyndar sú að við teljum að þó að þetta frv. sé að mörgu leyti óþarft vegna þess að fyrir þessum ákvæðum er séð í öðrum lögum í flestum tilvikum þá sé það engu að síður skaðlaust. Og ef einhverjum sem við þessi mál vinna finnst það til bóta að hafa þennan ramma utan um þessi mál þá er það okkur að meinalausu.
    En ég bendi á, rétt áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga lagði til --- og ég vildi gjarnan að hv. formaður félmn. hlýddi á þessi orð vegna þess að ég hygg að hún hafi tekið eftir því þegar formaður Sambands ísl. sveitarfélaga lagði það til í nefndinni að millifyrirsögn í II. kafla, þar sem fjallað er um stjórn og skipulag, yrði breytt úr yfirstjórn í yfirumsjón. Ég hafði skilið það svo að um það yrði samkomulag að gera tillögu um að þessu yrði breytt. Það má þá jafnvel gera það við 3. umr. ef það er rétt hjá mér að um þetta hafi verið samkomulag milli hans og nefndarinnar.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, herra forseti, en vil ítreka mína fyrri spurningu um það hvort það sé rétt að þetta mál sé nátengt afgreiðslunni á frv. um leikskóla í augum stjórnarliðsins og ég bendi á að hv. 1. þm. Vesturl. upplýsti það

hér við 1. umr. málsins að um það væri samkomulag að þessi frv. ættu að fylgjast að til nefndar ekki lengra. En síðan ekki lengra. Ég held að það sé gott að fá þetta nánar upplýst og útskýrt áður en lengra er haldið með þetta mál.