Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Ég kem í þennan ræðustól til þess að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta hvort það sé ætlunin að leitast við að afgreiða þetta mál á þessu þingi. Ég hafði litið svo til að frv. væri með svo veigamiklum ágöllum að naumast kæmi til greina að það yrði afgreitt nú. Þó ekki sé annað þá liggur það fyrir að sveitarfélögin mæla gegn samþykkt þessa frv. og fyrir liggur yfirlýsing frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, undirrituð af framkvæmdastjóra sambandsins Þórði Skúlasyni, þar sem því er skýlaust lýst yfir að Samband ísl. sveitarfélaga vænti þess að mál þetta verði eigi afgreitt nú án samráðs við sambandið.
    Það er í rauninni mjög furðulegt að horfa á það að hér sé komið með hvert frv. á fætur öðru til Alþingis sem snerta mjög hagsmuni sveitarfélaganna á þann veg og í því formi að sveitarfélögin treysta sér ekki til að standa að þeim eða mæla með samþykkt þeirra. Hér er auðvitað um það að ræða að það hefur verið vanrækt að standa þannig að undirbúningi þessara mála að um það sé fullt samráð við sveitarfélögin. Það eru sveitarfélögin sem eiga mikið í húfi hvernig lagasetning eins og þessi er úr garði gerð.
    Ég hafna því algjörlega sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., að það þurfi að drífa hér í gegn meingölluð frv. sem þeir aðilar sem hvað mest eiga í húfi treysta sér ekki til að mæla með vegna þess að það sé sú yfirvofandi hætta að það komi einhver önnur ríkisstjórn, eins og hann orðar það. Frá mínum bæjardyrum séð er það auðvitað von mikils þorra þjóðarinnar, hvað sem líður áliti þessa hv. þm., að það komi önnur ríkisstjórn og hún geti starfað með öðrum hætti heldur en sú sem nú situr. Það verður auðvitað verkefni þeirrar ríkisstjórnar að taka til í ýmsum málaflokkum, bæði í þessum og öðrum, með hagsmuni þjóðarinnar fyrir augum og þá þannig að þeir aðilar sem mest eiga í húfi í sambandi við kostnað og framkvæmd laga séu hafðir með í ráðum en ekki stigið alveg yfir þá.
    Ég hafði satt að segja ekki látið mér það til hugar koma, mér hafði bara ekki hugkvæmst það, að það kæmi til greina að það ætti að keyra þessi mál í gegn á þessu þingi nú. Ég held að það hljóti að þýða að það verði að fara nákvæmar ofan í þessi mál en gert hefur verið til þessa ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar allt í einu að fara að keyra á það að koma þessum málum í gegn.
    Ég held að það sé kannski ekki nein ástæða til þess að ég fari að ræða þetta mál eitthvað ítarlega hér á þessu stigi meðan ég er að fá svör við mínum fyrirspurnum um þetta efni. Það liggur fyrir tillaga hér, sem mér finnst eðlileg tillaga, í nál. á þskj. 967 um að vísa þessu frv. til ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað eðlileg leið meðan frv. er þannig úr garði gert að þeir aðilar sem það varðar hvað mest, ef að lögum yrði, og þurfa að taka veigamikinn þátt í framkvæmd laganna treysta sér ekki til að mæla með því að það sé samþykkt heldur beinlínis mótmæla því.
    Ég vil því, herra forseti, ítreka þá fyrirspurn mína

hvort það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forseta að halda á þessu máli með þeim hætti að það sé reynt að koma því til afgreiðslu hér á Alþingi nú fyrir þinglok.