Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Það hefur komið berlega í ljós að hv. sjálfstæðismenn vilja endilega stoppa þetta mál sem er þó eitt af nauðsynlegustu málum þingsins. Ég heyri það á hv. 2. þm. Norðurl. v. að hann lítur vonaraugum til fjármálaráðherrastólsins og tekur þá afstöðu sjálfsagt um þetta frv. samkvæmt því.
    Ég held að það væri mjög alvarlegt mál ef meiri hluti Alþingis mundi stöðva þetta frv. Ég vísa því enn og endurtek það, sem ég sagði hér áðan, af því að ég held að hv. formaður menntmn. sé hér í hliðarsal, að ég mælist til þess að hann athugi um það hvort ekki sé rétt að breyta 23. gr. og sjálfsagt að gera það á þann veg að lögin taki gildi 1. jan. 1992 vegna þess að þá er tími til að athuga hvernig á að fjármagna þetta mál. Auðvitað þarf að fjármagna það. Sveitarfélögin geta það ekki. Það vitum við. En ef löggjafinn samþykkir þetta þá er auðvitað ætlast til þess að löggjafinn finni líka leiðir til þess að fjármagna þessa leikskóla.