Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að segja nema örfáar setningar, aðeins vegna ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., þar sem hann leggur til að gildistökuákvæði frv. sé breytt þannig að lögin, ef afgreidd yrðu, tækju gildi 1. jan. 1992. Þá er auðvitað svigrúm til þess að taka þetta mál til athugunar og afgreiða það á haustþingi. Það er auðvitað betri niðurstaða að vanda lagasetningu og taka þær ábendingar til greina sem fram hafa komið, taka upp viðræður við Samband ísl. sveitarfélaga og leitast við að ná þessu máli fram þannig að friður sé við þau hagsmunasamtök sem svo mikið eiga í húfi um setningu þessara laga.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur boðið upp á þetta með því að flytja þá munnlegu brtt. sem hann hefur hér gert grein fyrir. Það er auðvitað forvitnilegt að heyra hvort til að mynda hv. formaður menntmn. Nd. muni ekki fallast á þetta og gera þessa brtt. að sinni. En úr því hún er flutt þá er þetta svigrúm fyrir hendi og ástæða til þess að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar þannig að þetta svigrúm verði þá skapað og í trausti þess að það verði notað til þess að vinna málið frekar heldur en þegar hefur verið gert.