Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Sólveig Pétursdóttir ):
    Hæstv. forseti. Örstutta athugasemd vegna orða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar hér áðan þar sem hann lýsir yfir stuðningi við þetta mál sem stefnuyfirlýsingu. Þá vil ég ítreka það að viljayfirlýsingar eiga ekki heima í lagafrumvörpum heldur öllu fremur í stefnuskrám stjórnmálaflokka eða í ályktunum Alþingis.
    Varðandi orð hans um nýja viðreisnarstjórn þá held ég að slík stjórn yrði ekki betur sett með einhver fyrirmæli frá þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Enda verða fulltrúar næstu ríkisstjórnar varla kjörnir með það í huga. Það er hins vegar ósköp auðvelt að taka undir mál sem hljóma vel, en þegar svo er staðið að málum eins og hér hefur verið gert og engin framkvæmd tryggð, þá verða menn bara að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við þá staðreynd, þótt kosningar séu fram undan. Vegna orða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og orða hæstv. forseta hér áðan um að sjálfstæðismenn séu að reyna að stöðva þetta mál, þá er það alger misskilningur. Það er hæstv. ríkisstjórn sem stendur sjálf fyrir því.