Nefndastörf
Föstudaginn 15. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :     
    Herra forseti. Þetta er ekki langt mál. Ég vildi aðeins beina því til hæstv. forseta að koma því svo fyrir að það sé ekki verið að boða til nefndafunda út af fyrstu umræðu málum nú á síðasta degi þingsins. Þetta hefur gerst í einni nefnd þar sem ég á sæti. Ég spurðist fyrir um það hvað ætti að taka fyrir og það er mál sem var til 1. umr. hér í dag. Ég veit ekki einu sinni hvort því var vísað til nefndar, svo mikill var hraðinn á afgreiðslu hjá hæstv. forseta á vissu tímabili. Ég hygg þó að málið hafi verið lagt fram til einhvers konar kynningar. Mér finnst í meira lagi afkáralegt að fara að vinna við mál í nefnd á seinasta degi þingsins svo að ég vonast nú til þess að hæstv. forseti, sem ég veit að vill nýta þann tíma sem kann nú að falla til til alvarlegra þingstarfa, noti hann ekki með þessum hætti. ( Forseti: Má forseti spyrja hv. þm. hvaða mál er hér um að ræða.) Þetta munu vera þjóðminjalög í menntmn. ( Forseti: Þannig stendur á um það mál að forseta var tjáð að þetta væri samkomulagsmál sem allir flokkar væru sammála um að færi hér í gegnum þingið fyrir þinglok. Þetta mál var afgreitt hér á þessum fundi til nefndar.) Fyrstu umræðu mál? ( Forseti: Já.) Og samkomulag hverra? ( Forseti: Forseta skildist að þetta væri samkomulagsmál allra flokka hér á þingi. Og mælist forseti þá til þess að hv. þm. ræði það við formann þingflokks Sjálfstfl.) Það mun ég vissulega gera.
    Ég hafði fjarvistarleyfi í nokkra daga en þetta kemur mér nokkuð á óvart. Það má vel vera að þetta sé hið besta mál og svo sé reyndar um ýmis mál sem ekki ná afgreiðslu. En mér kom það í meira lagi undarlega fyrir sjónir að verið sé að halda fyrsta nefndarfund um mál sem er verið að leggja fram núna á seinasta degi þingsins. Ég veit ekki betur en það sé staðfastur ásetningur hæstv. forsrh. að rjúfa þing í fyrramálið, sennilega klukkan hálfellefu og ég skil það vel því að það er alveg augljóst að samkomulag stjórnarflokkanna fer versnandi með hverri stundinni sem líður.