Félagsþjónusta sveitarfélaga
Föstudaginn 15. mars 1991


     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Ég vil leyfa mér að mótmæla því, virðulegi forseti, að þetta mál verði tekið á dagskrá nú. Það eru ekki nema örfáar mínútur síðan ég stóð hér og talaði um að það þyrfti að prenta skjalið upp á nýtt til að mönnum gæfist tóm til að átta sig á þeim breytingum sem gerðar voru í 14 liðum og undirbúa brtt. Og ég gat þess sérstaklega í ræðu minni við 2. umr. að ég væri með brtt. í undirbúningi þannig að ég uni því ekki að þetta sé tekið á dagskrá fyrr en manni hefur gefist tóm til þess að vinna í því máli og þó að afbrigði hafi verið veitt fyrir því að taka þetta mál á dagskrá, þá eru þau náttúrlega ekki veitt til þess að koma í veg fyrir að menn geti komið hér með brtt. með þinglegum hætti.