Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég var ekki hér á þingi þegar mál þetta var til 1. umr. Ég vildi aðeins blanda mér í umræðu um þetta vegna þess að ég átti hlut að undirbúningi þess frv. sem hér er nú flutt í nokkuð breyttri mynd frá því sem upphaflega var. Mér sýnist að ýmsar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. séu síst til bóta og það sé verið að veikja í rauninni allverulega þau markmið sem fram komu til leiðréttingar á stöðu kvenna í sambandi við þetta mál þegar frv. var fram lagt í fyrsta sinn.
    Það á m.a. við um forgang kvenna til starfa við vissar aðstæður og ýmis fleiri atriði, m.a. sú breyting sem gerð var á kærunefnd. Ég tala nú ekki um þá breytingu sem Ed. gerði á því ákvæði en hefur nú verið fært til baka og til bóta frá þeirri breytingu sem gerð var í Ed.
    Ég vil sérstaklega harma þá breytingu sem gerð hefur verið á því ákvæði frv. sem varðar ráðningu jafnréttisráðgjafa skv. 18. gr. Það ákvæði hefur nánast verið gert gagnslaust frá upphaflegri gerð frv. þar sem gert var ráð fyrir að heimild væri til þess að ráða jafnréttisráðgjafa í fleirtölu til starfa víða á landinu en nú stendur það eitt eftir að ráðinn verði einn starfsmaður í félmrn. Þetta er veruleg þrenging frá því sem að var stefnt í sambandi við þetta nýmæli sem hafði hlotið ágætar undirtektir hjá þeim sem hafa sinnt þessum málum og hafa áhuga á að ryðja úr vegi hindrunum sem standa í vegi fyrir úrbótum á jafnstöðu kvenna á við karla sem er það mál sem hér um ræðir í flestum greinum ef ekki öllum.
    Ég tel sæta nokkurri furðu þær breytingar til verri áttar sem gerðar hafa verið á frv. í meðförum þess frá því það kom fyrst fram hér, en ég tel þó að eftir standi allnokkrar breytingar til bóta, sumar verulega til bóta. Af þeim sökum tel ég það vera rétt að lögfesta þetta mál þó að ég geri þær athugasemdir sem hér koma fram. Þetta sýnir okkur ljóslega hversu mjög er á brattann að sækja í sambandi við jafnréttismál hjá okkur og hversu langt við stöndum að baki þeim þjóðum, m.a. annars staðar á Norðurlöndum, sem lengst hafa náð í þessum efnum og nota löggjöfina til þess að bæta stöðu jafnréttismála. Vissulega er það svo að engan veginn verður misréttið leiðrétt með lögum einum saman. Það eru vissulega aðrar hindranir í vegi í samfélaginu sem eru alvarlegri og þá ekki síst fjárveitingar til þeirra mála
sem þurfa að koma til þannig að konur geti tryggt sér hliðstæðan rétt og hliðstæða stöðu í samfélaginu eins og karlar.
    Ein af þeim tillögum sem gerðar voru upphaflega þegar frv. var lagt fram vörðuðu fjárlagagerð, ákvæði um að það skyldi gerð grein fyrir því hverju sinni við gerð fjárlaga hvaða tillögur kæmu fram sem væru hugsaðar til þess að bæta stöðu jafnréttismála en þetta ákvæði var fellt út og er eitt af fleiri sem hafa hlotið þau örlög að falla út úr frv. í meðförum þingsins. Við skulum vona að menn haldi áfram að berjast við þær hindranir og þau íhaldssömu sjónarmið sem enn

gætir, einnig hér á Alþingi Íslendinga, í þessum málaflokki en rétt er þrátt fyrir allt að þetta frv. verði að lögum að mínu mati.