Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 15. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Þegar ný ríkisstjórn tók við um haustið 1988 var ráðist í mjög víðtæka skuldbreytingu fyrir atvinnuvegina og settir á fót tveir sjóðir í því skyni, Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og Hlutafjársjóður. Þessir sjóðir luku báðir sínu starfi um síðustu áramót og þá rann Atvinnutryggingarsjóður inn í Byggðastofnun. Hins vegar eru lög um Hlutafjársjóð þannig að hann er að forminu til starfandi áfram og með sérstaka stjórn.
    Samtals var skuldbreytt og ráðist í hlutafélagaþátttöku fyrir rúmlega 8 milljarða kr. Nú hefur mér þótt rétt að fella Hlutafjársjóð Byggðastofnunar formlega undir stjórn þeirrar stofnunar. Það er óþarft að hafa hann starfandi áfram sem sjálfstæðan sjóð og fyrir því er gert ráð í þessu frv. Í öðru lagi þykir rétt að setja um Atvinnutryggingarsjóð sérstök ákvæði. Þarna er um sérstakar ráðstafanir að ræða sem ríkisábyrgð hefur legið að baki, sérstök ríkisábyrgð. Því þykir rétt að setja það ákvæði um fjárskuldbindingar sem þar eru orðnar eða allar breytingar á þeim, að þær skuli háðar samþykki forsrh. og fjmrh. Forsrh. af því að Byggðastofnun heyrir undir hann en fjmrh. þar sem ríkisábyrgðir heyra undir fjmrh.
    Eftir mikla umræðu um þetta mál í efri deild varð samkomulag um þetta mál eins og það er nú orðið, þ.e. með því að skilyrða þetta samþykki umræddra tveggja ráðherra. Það var öðruvísi í upphafi, þá var skilyrt að samþykki Ríkisábyrgðasjóðs skyldi liggja fyrir, en það hefur verið fellt út, og það er samkomulag um það eins og það nú er.
    Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.