Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það hallar degi og væri fróðlegt að vita með mál, sem gætu runnið hér áfram nokkuð ágreiningslítið, hversu lengi forseti hyggst halda áfram fundi. Því að ég hygg að ekki sé rúm fyrir mikil ágreiningsmál á þessum fundi núna og sé þess vegna ekki alveg hvers vegna þetta mál er þá sett inn á þessu augnabliki. Ég hélt miðað við að forseti var kominn hér í 15. mál að þess væri nokkur von að hann þreifaði fyrir sér hvort ágreiningslaust væri með málin hér á milli. Ég sé að hæstv. fjmrh. hefur af þessu skemmtan góða og hugsanlega hefur hann ætlað sér að flytja hér ræður, en hann verður náttúrlega að hafa þær heim með sér ef forseti verður til að koma í veg fyrir að þau mál verði tekin á dagskrá sem hann hefði áhuga á, þ.e. ábyrgðadeild fiskeldislána og bann við sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda, sem mér er forvitni á að vita hvort forseti hyggst taka fyrir á þessum fundi.