Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu og varðar húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarkerfið er að mati okkar kvennalistakvenna afskaplega merkilegt mál að því leyti til að það virðist flestra mál, a.m.k. þeirra sem að húsnæðissamvinnufélögum og búseturéttarfélögum standa, að það sé brýn þörf á að fá löggjöf um þessi félög. Þau eru sem betur fer orðin staðreynd í íslensku samfélagi og hafa því aukið valfrelsi fólks, ekki einungis lágtekjufólks, heldur einnig millitekjufólks og jafnvel hátekjufólks, til þess að velja sér á hvern hátt það kýs að koma yfir sig þaki.
    Það hefur löngum verið sagt að húsnæðismálin væru hin íslenska herskylda og hún hefur því miður verið sársaukafull fyrir afskaplega margar fjölskyldur eins og okkur er fullkunnugt um. Því voru það miklar framfarir þegar ákveðið var að stofna fyrsta búseturéttarfélagið hér á Íslandi og ekki er einu sinni liðinn áratugur síðan það gerðist. En þetta kerfi hefur verið við lýði með einum eða öðrum hætti í nágrannalöndum okkar um langan tíma og gefist afskaplega vel. Þetta er mikilvæg viðbót við leigumarkaðinn sem því miður er mjög ófullburða og vanþroskaður hér á landi. Það mun vonandi breytast í framtíðinni. Með þeim breytingum sem gerðar voru á húsnæðislögunum í fyrra, þá tel ég að það hljóti að verða betra að byggja upp heilbrigðan leigumarkað hér á Íslandi og auðvitað á hann að vera til. En það er ekki þar með sagt að leiguíbúðir, félagslegar leiguíbúðir, kaupleiguíbúðir og félagslegar kaupleiguíbúðir og hið gamla séreignarkerfi þurfi endilega að vera það sem flestir eða allir kjósa og því held ég að búseturéttarfyrirkomulagið verði að vera til.
    Það hefur sýnt sig að það er mikill áhugi fyrir því að nýta sér þennan möguleika í öflun húsnæðis og þann milliveg, sem þetta oft á tíðum er, milli hinnar gömlu séreignarstefnu og þeirra nýju strauma sem leika, sem betur fer, í húsnæðismálum. Auðvitað sitjum við uppi með ýmis vandamál
eldri kerfa og jafnvel kerfisleysis en vonandi mun það í framtíðinni verða minna vandamál.
    Ástæðan fyrir því að ég kem hér í stólinn í þessari umræðu er að ég vil leggja áherslu á að sem betur fer náðist samstaða í þeirri nefnd sem ræddi þessi mál þótt skiptar hafi verið skoðanir um að afgreiða þetta mál úr nefnd og ég vonast til þess að þetta frv. með þeim breytingum sem lagðar eru til af nefndinni verði að lögum á þessu þingi. Svo sem kunnugt er hefur verið lögð fram brtt. í viðbót sem er í rauninni þessu kerfi að miklu leyti óviðkomandi og vona ég að hún verði ekki til þess að spilla málinu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sem ber búseturéttarkerfið fyrir brjósti láti þá afstöðu sem menn munu hafa til þeirrar brtt. hafa áhrif á afstöðu sína til meginefnis þessa frv., þ.e. að setja búseturéttarkerfinu og húsnæðissamvinnufélögunum viðunandi lög. Það er alveg ljóst að hver og einn hlýtur að taka afstöðu í þessu máli út frá því sjálfu. Þá brtt. sem nokkrir þingmenn

hafa lagt fram, þar á meðal hv. 14. þm. Reykv., hljóta menn að meta nákvæmlega eftir hinu sama, sannfæringu sinni og þeim rökum sem með og á móti eru. Ég geri mér fullljóst að þau vega í margra hugum salt. En ég vara við því að menn fari að rugla þessum málum of mikið saman og á ég þá við bæði þá sem kannski bera húsnæðissamvinnufélögin helst fyrir brjósti og hina sem vildu helst sjá húsnæðismálum skipað með öðrum hætti hér.