Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hreggviður Jónsson hefur áður rætt hér um búsetuformið og ýmis atriði því tengd, t.d. skattamálin. Ég svaraði honum þá því sem fram kom og mér fannst ræða hans á ósköp svipuðum nótum og ekki neinar nýjar spurningar í því. Ég taldi því að það væri óþarfi að endurtaka það, en ég get auðvitað gert það varðandi skattamálin, fasteignaskattana. Það er alveg ljóst að Búseti greiðir fasteignagjöld og hlýtur að greiða eignarskatta með sama hætti og önnur félög.
    Að því er varðar annað atriði sem um var spurt. Mér skildist það á hv. þm. að ef sá sem væri í búseturéttaríbúð færi úr þeirri íbúð, þá mundi búsetufélagið hirða raunverulega það sem viðkomandi hefði lagt fram í íbúðina. Þetta er ekki rétt vegna þess að þegar sá sem er búseturéttarhafi hverfur úr íbúðinni fær hann það framlag endurgreitt sem hann hefur lagt fram, sem getur verið 10% eða 30%, án vaxta en verðtryggt. Þetta er þess vegna ekkert sem fer inn í búsetufélagið eins og hv. þm. sagði. ( HJ: Erfist ekki.) Það er talað hér um hvernig þetta erfist og þetta getur færst yfir til maka við andlát félagsmanns. Ef viðkomandi á ekki maka, þá mundu erfingjar hans fá það sem hann hefur lagt inn í íbúðina, eins og ég sagði, verðtryggt en án vaxta. Það er því hinn mesti misskilningur að þetta gangi allt inn í búsetufélagið.
    Varðandi greiðslubyrðina gerði hv. þm. mjög mikið úr því að það væri mismunur á greiðslubyrði í félagslega kerfinu, eins og t.d. búseturéttaríbúðum, og almenna kerfinu. Það er bara alls ekkert óeðlilegt að það sé mismunur á greiðslubyrði þar. Við erum með tvö kerfi, félagslegt kerfi og almenna lánakerfið, og félagslega kerfið er fyrir hópa sem eru innan ákveðinna tekjumarka og hafa ekki tök á að eignast íbúð nema með þeirri niðurgreiddu aðstoð sem þar er boðin. Það er nú einu sinni svo í þessu þjóðfélagi að það eru ekki allir jafnir. Það eru ekki allir með sömu tekjurnar eða sömu möguleika til þess að eignast íbúð. Þess vegna erum við með félagslegt kerfi. Ég gæti auðvitað haldið langar ræður um þetta mál en ætla mér ekki tímans vegna að gera það.
    Úr því að ég er komin hér í ræðustól vil ég fara nokkrum orðum um þá brtt. sem hér hefur verið nokkuð rædd og er, eins og hefur fram komið, alls óskyld því máli sem við erum hér að ræða. Í fyrsta lagi ber að minna á það að aðild að þeirri nefnd, sem skilaði af sér fyrir rúmu ári síðan breytingum á félagslega íbúðakerfinu og lagði til þá breytingu að fellt yrði niður að veita 100% lán til eignaríbúða í félagslega kerfinu, átti verkalýðshreyfingin, átti fulltrúi ASÍ, átti fulltrúi BSRB. Nefndin var sammála um það að leggja til að þetta yrði fellt niður. ( GHH: Er þetta ekki breyting á sömu lögunum?) Breyting á sömu lögunum, jú, jú. Ég er ekki að tala um það. ( GHH: Af hverju er hún þá óskyld?) Hún er óskyld þessu um Búseta og húsnæðissamvinnufélög. Við erum að kveða hér á um réttindi og skyldur búseturéttarhafa en hv. þm. er að leggja hér til aðrar breytingar sem ekki

snerta þetta.
    En hvað um það. Ég var að skýra þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni sem í áttu sæti verkalýðshreyfingin, ASÍ og BSRB. Það var ekki mín tillaga að leggja þetta niður, heldur var þetta hluti af mörgum breytingum sem voru gerðar á félagslega íbúðakerfinu. (Gripið fram í.) Má ég ljúka máli mínu og skýra afstöðu mína, hv. þm.? Ég hef ekki tekið mikinn tíma í þessum ræðustól hér í dag. Fyrst ég kom á annað borð í ræðustól til að svara ákveðnum spurningum, þá tel ég ástæðu til þess kannski að fara nokkrum orðum um þessa brtt. og skýra þau sjónarmið sem lágu að baki því að þessu var breytt.
    Ástæðan fyrir því var sú að áður var almenna reglan sú í félagslega íbúðalánakerfinu að lánin voru 85%. ( Forseti: Forseti vill geta þess að óskir hafa komið fram um að þessum fundi verði frestað mjög fljótlega.) Ég skal ljúka máli mínu á 1 -- 2 mínútum. Ég skal reyna að stytta það mjög vegna þess að ég vil ekki verða til þess að tefja þessa umræðu. --- Þá voru lánin 85% almennt. Það var heimilt að fara upp í 90% og ef aðstæður voru sérstaklega erfiðar var heimilt að fara upp í 100%. Reynslan af því að fara upp í 100% þegar fólk átti ekkert til að leggja fram sjálft var mjög slæm. Mörgu af þessu fólki sem fékk 100% lán var enginn greiði gerður. Það lenti í vanskilum með sitt. Þess vegna var farin sú leið að auka framboð á leiguhúsnæði með ýmsum aðgerðum, auka lánshlutfall, lengja lánstímann, til þess að auðvelda sveitarfélögum að koma upp leiguíbúðum fyrir þetta fólk þannig að það gæti þá a.m.k. fengið ódýrari leigu og lagt til hliðar til þess að eiga eitthvað fyrir útborgun. Síðan var farin sú leið að fella niður stimpilgjöld til þess að auðvelda fólki að eignast félagslega íbúð. Síðan voru óafturkræf framlög, sem sveitarfélögin létu inn í félagslega íbúð, felld niður til þess einmitt að auðvelda sveitarfélögunum að koma upp leiguíbúðum. Síðan er í félagslegum kaupleiguíbúðum til sá kostur að þar er veitt 90% lán en sveitarfélögin leggja fram, í staðinn fyrir þessi óafturkræfu framlög sem þau lögðu fram áður, 10% til 15 ára og lána viðkomandi það. En þessi tími sem hér er lagður til er svo skammur, ekki nema þrjú ár. Það er því til kostur í þessu kerfi með 100% láni sem er miklu auðveldari af því að þau lán eru til 15 ára. Það er þess vegna útilokað að segja að það sé ekki til kostur í félagslega kerfinu sem býður upp á 100% lán. (Gripið fram í.) Félagslegar kaupleiguíbúðir eru líka eignaríbúðir. Fólk á þar að hafa val um hvort það eignast íbúðina eða hvort það leigir hana. Það er náttúrlega nauðsynlegt að hv. þm. viti það að þessi kostur er til í kerfinu með 100% láni og þá til lengri tíma. Til 15 ára en ekki til þriggja ára eins og hér er lagt til.
    Virðulegur forseti hefur beðið mig um að stytta mál mitt og ég skal verða við því og lýk máli mínu.