Þinghaldið
Föstudaginn 15. mars 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vil í fyrsta lagi spyrja að því: Hvað á að halda þessari hringavitleysu lengi áfram með þinghald? Hér veit enginn frá einni stund til annarrar hvernig þinghald á að vera og með hvaða hætti það á að vera. Hér hafa farið fram í dag langar umræður um þingsköp og það að tilhlutun aðalforseta deildarinnar, sem voru utandagskrárumræður í raun og veru. Þessar utandagskrárumræður hefðu getað tekið hálftíma en það var klárað að eyðileggja þinghaldið með umræðum á þriðja tíma. Hér er búið að halda áfram kvöld eftir kvöld og fram á nætur í þingi og bæði eru þingmenn orðnir þreyttir að ég tali nú ekki um starfsfólkið. Það er ekki verið að taka mikið tillit til starfsfólksins hér á þessum vinnustað. Það er orðið örþreytt og það fyrir löngu.
    Þessi háæruverðuga stofnun hefur samþykkt lög um hvíldartíma fólks. Þessi lög eru þverbrotin, ekki einu sinni heldur margoft. Er ekki kominn tími til þess að lögsækja þá sem þverbrjóta lög þó þeir séu forsvarsmenn í þessari háæruverðugu stofnun? Ég segi fyrir mitt leyti að ég get ekki lengur þagað yfir þessu og mér þykir leitt að hafa beðið um orðið þar sem hér er varaforseti í forsetastóli, en ég mun halda áfram þegar aðalforseti kemur því það er kominn tími til þess að fara að taka í þessa forsvarsmenn hérna í þinginu. Það er bara ekki hægt að bjóða starfsfólkinu upp á þetta.