Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason gat þess hér að hann teldi eðlilegt að hæstv. forsrh. væri viðstaddur þessa umræðu og ég tek undir þá ósk. Ég vil beina því til forseta að ég er einnig þeirrar skoðunar að ég tel eðlilegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Forseti mun reyna að greiða fyrir því að hæstv. forsrh. verði hér viðstaddur.)
    Í öðru lagi vil ég geta þess strax í upphafi að kjarninn í þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram og Sjálfstfl. virðist hafa tekið afstöðu til að eigi að fara hér í gegnum þingið, er að ríkissjóður eigi að fara að taka veð --- og ég bið hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur að hlýða á það að það virðist vera afstaða Sjálfstfl. að ríkissjóður eigi nú að fara að taka veð upp á 3 milljarða í hlutum sem engin lánastofnun fæst núna til þess að taka veð í.
    Það er dálítið merkilegt að Sjálfstfl., sem hefur verið talsmaður minni ríkisafskipta, minni ríkisumsvifa, minni ríkisútgjalda, gerir það nú að úrslitakröfu sinni á lokadögum þingsins að ríkisútgjöldin og ríkisumsvifin séu aukin. Það var upplýst hér áðan af hv. þm. Ólafi G. Einarssyni að það væri frumkrafa Sjálfstfl. að þetta frv. um aukin ríkisútgjöld og aukin ríkisumsvif færi í gegnum þingið. Verð ég nú að segja að ég er hættur að botna í Sjálfstfl. ( ÓE: Þú heyrir ekki neitt sem sagt er. Það er greinilegt. Þú snýrð út úr öllu.) Ja, ég biðst afsökunar ef ég hef eitthvað misskilið þetta, en ég skildi þá ræðu, sem hv. þm. Matthías Bjarnason flutti hér áðan, á þann veg að sá maður sem hér stæði, fjmrh., bæri ábyrgð á því að fiskeldið færi hér alveg á hausinn ef þetta frv. væri ekki afgreitt.
    Ég vil einnig segja það hér í upphafi að annars vegar er sagt að frá frv. sé gengið á þann veg að fulltrúar fjmrh. í stjórn ábyrgðadeildar fiskeldislána hafi öll völd á málinu. Og þeim er sýnt svo mikið traust að það er ætlast til að þeir séu sú bremsa sem þarf til þess að hindra að þetta frv. feli í sér verulegt fjárstreymi úr ríkissjóði. En síðan er sagt í annarri setningu, m.a. af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að þeir menn sem hafa gefið fjmrh. ráðleggingu um þetta frv. séu ekki vandanum vaxnir.
Sumir flm. þessa frv., eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, virðast vera þeirrar skoðunar að það verði að setja allt sitt traust og hald á mennina sem eru í stjórn ábyrgðadeildar fiskeldislána en aðrir flm. þessa frv., eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson, virðast telja að þeir séu ekki vandanum vaxnir.
    Ég spyr nú bara: Hvers konar skollaleikur er þetta eiginlega? Er þetta ekki bara frv. um það að fyrirtæki sem bankarnir hafa neitað að lána eigi að geta gengið í ríkissjóð? Svo við orðum þetta nú bara hreint út. Og af hverju er svona brýnt að koma með frv. hérna inn núna og afgreiða það án þess að kalla á einn einasta mann í stjórn ábyrgðadeildar fiskeldislána? Það er það sem mér finnst merkilegast í þessu máli að nefndin afgreiðir frv. út án þess að kalla á einn einasta

mann í stjórn þeirrar lána- og ábyrgðastofnunar sem frv. fjallar um. ( FrS: Til þess að þvinga ríkisstjórnina til að gera eitthvað af viti í þessu máli.) Ef frv. er til að þvinga ríkisstjórnina til að gera eitthvað af viti í þessu máli þá skulum við ræða það á þeim grundvelli en frv. er ekki þannig uppbyggt að það feli í sér að það sé hægt að gera eitthvað af viti í málinu. Því miður, hv. þm. Friðrik Sophusson.
    Það er alveg rétt að ég skildi frv. þannig upphaflega þegar það kom hér fram að það væri aðgerð til að knýja á um að stjórnvöld, eins og stundum er sagt, tækju á þessum fiskeldismálum. En það satt að segja hvarflaði aldrei að mér að ætlunin væri að afgreiða frv. sem lög í þeim búningi sem það er lagt fram. ( FrS: Átti það að bíða endalaust?) Ja, bíða endalaust? Ég skal nú ekkert um það segja hvað hv. þm. á við í þeim efnum, en mér skilst að bankinn sem hann er bankaráðsmaður í, Landsbankinn, hafi fyrir einum og hálfum mánuði eða svo gripið til nýrrar lánastefnu vegna þess að bankinn treysti sér ekki til þess að láta meira af sínu fjármagni í þessi fyrirtæki. Þetta er ríkisbanki sem ríkissjóður ber ábyrgð á. ( FrS: Þetta er bankastjórnarinnar mál.) Ég var ekkert að segja að hv. þm. hefði tekið þá ákvörðun, ég hef aldrei sagt það, ég vek bara athygli á að bankinn, þessi sami banki og hann er bankaráðsmaður í og ætti þess vegna að hafa fullan aðgang að rökum og gögnum bankastjórnarinnar, hvers vegna hún tók þá ákvörðun. Og það er það sem mér finnst sérkennilegt að þingmaðurinn, sem ætti sem bankaráðsmaður að hafa aðgang að röksemdum bankastjórnarinnar fyrir þessari ákvörðun, að hætta þessum lánum, kemur hér inn í þingið og segir að þá skuli ríkissjóður taka við.
    Það hefur ekki heldur verið vikið að því sem ég nefndi hér við 1. umr. og gat um hér áðan í umræðu um þingsköp, að með þessu frv. er afnumið það skilyrði að fyrirtækin eigi að vera rekstrarhæf á eftir. Það hefur ekki komið neitt svar við þeirri spurningu: Hvers vegna er verið að afnema það skilyrði að fyrirtækin eigi að vera rekstrarhæf á eftir? Ég óska þess að því sé svarað. Við höfum farið með ýmiss konar skuldbreytingamál hér í gegnum þingið á síðustu þremur árum, en það hefur aldrei komið fram frv. fyrr um það að skilyrði um rekstrarhæfni fyrirtækjanna sé afnumið. Það á sem sagt ekki að vera nein hindrun í veginum. Hvað illa sem fyrirtækið er á vegi statt, hvað vitlaus sem reksturinn er, það á engu að síður að vera hægt að lána í það.
    Ég vona að mér sé fyrirgefið þó að ég segi það að ég bara botna ekkert í því hvernig þingmenn, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson, sem ég óska nú enn á ný eftir að sé viðstaddur þessa umræðu, og formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, geta verið flm. að svona frv. Ég hef setið síðustu sólarhringa undir ræðum frá ýmsum þessum vina minna í fjvn. um ,,orþódoxíu`` í ríkisfjármálum. Það verður nú satt að segja heldur lítið úr þeim ræðum þegar texti þessa frv. er skoðaður.
    Ég spurði líka að því við 1. umr. og geri það aftur hér og nú: Hvaðan á ríkissjóður að taka þessa peninga? Vegna þess að ábyrgðadeildin er ekki með neitt eigið fé. Það er neikvætt nú þegar. Eru það þá ekki heimildarlausar greiðslur ef hvergi er að finna í fjáraukalögum eða fjárlögum fjárstreymi inn í deildina? Ég spyr hv. þm. Kristin Pétursson hvað hann segir um slík vinnubrögð. Mennirnir sem hér í dag fluttu miklar ræður yfir mér um ,,orþodoxíu`` í ríkisfjármálunum, eru þær allar gleymdar hér núna rétt fyrir miðnættið? Eða er ekkert samhengi í því sem menn eru að segja og gera hérna í þinginu, eða hvað?
    Ég endurtek þessar spurningar hér. Mér finnst það satt að segja merkilegt ef hér á að sameinast fylking í þinginu um að brjóta öll þau prinsipp sem menn hafa talað hér um í dag að eigi að vera í heiðri höfð. Bara af því að það eru einhver fyrirtæki hér úti í bæ sem eru illa á vegi stödd, af því að menn geta haldið heilagar ræður um það að einhverjir séu á móti fiskeldinu. Ég er ekkert á móti fiskeldinu, ég vil bara minna hv. þm. Matthías Bjarnason á það að ég gekk í það hér á mínu fyrsta þingi sem fjmrh. að setja á stofn tryggingadeild fiskeldis. Það voru margir sem mæltu gegn því, töldu það óskynsamlegt fyrir fjmrh. að samþykkja að ríkissjóður gengi í slíkar ábyrgðir fyrir fiskeldið. Ég samþykkti svo á síðasta þingi að stofna ábyrgðadeild fiskeldislána líka, þó það væru líka margir, hv. þm. Matthías Bjarnason, sem töldu óeðlilegt að fjmrh. væri að samþykkja slíkt.
    Nú er hins vegar komið í þriðja sinn og þá leyfi ég mér hér í umræðunum að segja: Eigum við ekki að líta yfir þessa reynslu af því að við erum tvisvar sinnum áður búin að fara í gegnum þetta?
    Niðurstaðan er því miður sú, hv. þm. Matthías Bjarnason, að allar þær ráðleggingar og allir þeir spádómar og væntingar sem þeir menn, forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækja sem ég ræddi við á mörgum fundum mánuðum saman í bæði þessi skipti --- allt þetta hefur því miður, og ég segi aftur því miður reynst rangt. Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að menn áttuðu sig á því hér að vandi fiskeldisins á Íslandi felst ekki fyrst og fremst í því að það vanti meiri peninga á lægri vöxtum og minni tryggingagjöld.
    Ég átti samtal í útvarpi í gærmorgun við hinn nýja forsvarsmann Sambands fiskeldisstöðva á Íslandi, ungan mjög vel menntaðan mann. Ég veit ekki hvort þingmenn hafa hlustað á það samtal á Rás 2, en ég nefni það af því að hv. þm. Stefán Valgeirsson var að tala hér um útvarpsumfjöllun. Það var mjög athyglisvert. Þessi forsvarsmaður Sambands fiskeldisstöðva, þessi ungi menntamaður var sammála öllu því sem ég hafði sagt varðandi rannsóknirnar, markaðssetninguna, tilraunastarfsemina og annað það sem hv. þm. höfðu sem hörðust fordæmingarorð um hér við 1. umr. Kallaði nefndin þennan mann fyrir? Nei. Kallaði nefndin einhvern fyrir? Nei. Það má vel vera að hv. þm. Matthías Bjarnason, ég dreg það ekkert í efa og hans góða vilja, hafi rætt við marga menn áður en hann flutti þetta frv., en það dugir bara ekki til vegna þess að hér er verið að vísa á ríkissjóð. Við skulum segja að það sé 1 milljarður, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, við skulum bara taka töluna sem hv. þm. Ólafur Þ.

Þórðarson var hér með, 1 milljarð. En það er frv. um að vísa á ríkissjóð 1 milljarði samkvæmt áliti hv. þm. Ólafs Þórðarsonar, 3 milljörðum samkvæmt því sem ég sagði hér. (Gripið fram í.) Já og útgjalda. En reynslan kennir okkur það. En það er ekki punkturinn, hv. þm. Punkturinn er sá að nefndin hefur ekki kallað einn einasta mann fyrir út af því máli, ekki einn mann. Og ég spyr: Eru einhver fordæmi fyrir því í þingsögunni að þingmenn hafi afgreitt mál af þessari stærðargráðu og ávísað á ríkissjóð máli af þessari stærðargráðu án þess að leita álits eins einasta manns, hvorki embættismanns né sérfræðings? Og ég vil svara því hér: Ég held að það sé ekkert slíkt fordæmi. Og ég undrast það, sérstaklega vegna þess að í hópi flm. eru t.d. þrír, ef ég man rétt, fjárveitinganefndarmenn --- ég bið hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson að hlusta ( ÓÞÞ: Ég hlusta mjög grannt, þó ég fylgist ekki alltaf með Rás 2.) --- a.m.k. þrír fjárveitinganefndarmenn sem á þeim tíma sem ég hef verið fjmrh. hafa ekki verið reiðubúnir að samþykkja 5 eða 10 milljónir, hvað þá heldur 1 milljarð, nema fá um það álit embættismanna, sérfræðinga eða annarra.
    Nú er allt í einu öllu því vikið til hliðar. Ég spyr þess vegna: Sýnir það styrkleika málsins? Sýnir það styrkleika málsins að þeir sem að því standa vilja ekki leita álits neins? Mitt svar er nei. Það sýnir veikleika málsins.
    Ég vil þess vegna fara fram á það hér við formann fjh.- og viðskn., og ég vona að hann sé í húsinu svo hann megi heyra mál mitt --- er hægt að sækja formann fjh.- og viðskn. ef hann er í húsinu? ( Forseti: Forseti getur upplýst það að samkvæmt töflu hér þá er hann nú ekki lengur í húsinu.) Það er merkilegt. ( Forseti: Forseti leggur ekki dóm á það.) Það geri ég. Það er merkilegt. Formaður fjh.- og viðskn. er farinn úr húsinu. Ég ætla nú ekki að krefjast þess að hann sé sóttur en ég ætla að leggja fram þá ósk . . . ( Viðskrh.: Fjmrh. leggur í málþóf og persónuheimtur.) Nei, ég er ekki í málþófi, hv. þm. og ráðherra, Jón Sigurðsson, en mér hefur hins vegar verið tjáð að það verði ekkert annað rætt hérna heldur en þetta mál á þessum fundi, það hefur mér verið tjáð af forseta deildarinnar. (Gripið fram í.) Nei. Forseti deildarinnar hefur tjáð mér að það verði ekki rætt, þannig að ég er ekki í neinu málþófi. Ef ég er að gera eitthvað til að tefja tímann þá er það hvenær þingmenn geta farið heim. ( Viðskrh.: Og starfsfólk þingsins.) Og starfsfólk þingsins já. Gott að hæstv. ráðherra er allt í einu farinn að bera umhyggju fyrir því. Það ber eitthvað nýrra við. ( Viðskrh.: Það hefur hann jafnan haft.) Já, batnandi mönnum er best að lifa, ágæti vinur og samráðherra. Ég vona að þessi umhyggja fyrir starfsfólkinu gildi áfram hér á næstu dögum og sólarhringum. En ég ætla ekki að vera hér lengi í ræðustól.
    Ég vil bera fram þá ósk vegna þess að mér hefur líka verið tjáð að hér fari ekki fram atkvæðagreiðsla um þetta mál í kvöld og ekki fyrr en á mánudag, ef umræðu lýkur þá í kvöld. ( ÓÞÞ: Í kvöld mun ekki atkvæðagreiðsla fara fram.) Já. Og vegna þess ætla ég

að fara fram á það formlega og bið flm. nál. að koma því til formanns fjh.- og viðskn. að nefndin haldi fund um þetta mál á mánudag, kalli til sín stjórnarmenn í ábyrgðadeild fiskeldislána og aðra þá sérfræðinga sem þekkja til í þessu máli svo það geti legið fyrir þinginu með einhverjum hætti áður en atkvæðagreiðsla fer hér fram, álit annarra heldur en bara flm., nefndarmanna og fjmrh. í þessu máli. Því ég tel það ekki sæmandi, og einstakt í þingsögunni, að ætla að fara að greiða hér atkvæði um fjárútlát af þessu tagi án þess að álits eins einasta sérfræðings sé leitað eða stjórnarmanna í þeirri stofnun sem um þessar lánveitingar á að fjalla.
    Virðulegi forseti. Það má ráða af þessu frv. að kjörin eigi að vera þau sömu og fjárfestingarlánasjóðirnir veita. Þá spyr ég enn á ný, vegna þess að því hefur ekki verið svarað í þessari umræðu, og ég spyr enn á ný flm. nál.: Ef kjörin eru þau sömu, hvernig stendur þá á því að fjárfestingarlánasjóðirnir lána ekki sjálfir? T.d. Byggðastofnun, þar sem a.m.k. tveir ef ekki þrír flm. frv. eru einnig í stjórn Byggðastofnunar? Hvernig stendur þá á því að hún lánar þá ekki heldur?
    Ég vil einnig óska eftir því við fjh.- og viðskn. að bankastjórar Landsbankans verði kallaðir fyrir nefndina áður en málið kemur hér til atkvæða, það tefur ekkert gang málsins, og þeir beðnir um skýringar á því hvers vegna Landsbankinn hafi hætt þessari lánafyrirgreiðslu, vegna þess að Landsbankinn er ríkisbanki og ef hann vill ekki taka áhættu í málinu þá er a.m.k. nauðsynlegt að þingið viti hvers vegna ríkisbankinn vill ekki taka áhættu þegar verið er að biðja þingið að skrifa upp á þá áhættu.
    Ég vil til viðbótar spyrja, vegna þess að því hefur heldur ekki verið svarað í þessari umræðu: Hvernig stendur á því að menn leggja núna til að fella niður svonefnt sólarlagsákvæði í þessum lögum þó að allir væru sammála um það þegar lögin voru sett að það væri einn af frumkostum laganna að það væri inni? Því hefur heldur ekki verið svarað.
    Virðulegi forseti. Þetta eru nokkrar efnisspurningar um þetta frv. Ég óska eftir því að þeim sé svarað. Ég óska eftir því að þetta frv. fái a.m.k. einhverja efnisumfjöllun í nefndinni áður en það kemur hér til atkvæða. Ég skil ekki hvernig þingmenn sem taka sjálfa sig alvarlega, sem á þessum sólarhring hafa talað fyrir nauðsyn ábyrgða í ríkisfjármálum og stjórn lánsfjármála hjá ríkinu, leyfa sér það á sama sólarhring og þeir flytja messur um ,,orþódoxíu`` þeirra mála að mælast til þess að þetta frv. sé afgreitt með þessum hætti.
    Ég mun gera mitt til þess, ef það verður reynt að pína þetta frv. í gegn hér með vinnubrögðum af þessu tagi, að þjóðinni sé a.m.k. ljóst hverjir það eru sem hér í þinglok vilja að það sé farið að gera út á ríkissjóð. Fyrirtækin eigi að fara að gera út á ríkissjóð, þannig að það sé krafa Sjálfstfl. númer eitt hér við þinglok að ríkisábyrgðir séu auknar, ríkisumsvif í atvinnulífinu séu aukin og ríkisútgjöldin séu aukin. Það væri satt að segja æskilegt að einhverjir forustumenn

Sjálfstfl., m.a. nýkjörinn varaformaður Sjálfstfl., sem á undanförnum árum hefur talað fyrir minni ríkisútgjöldum, minni ríkisábyrgðum og minni ríkisumsvifum í atvinnulífinu, kæmi hér upp og útskýrði hér fyrir þingheimi hvernig þetta frv. samrýmist þeirri stefnu. ( FrS: Ef þú hættir núna þá skal ég koma og skýra þetta.) Gott. Ég þakka þingmanninum fyrir það.
    Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu, það er ekki ætlun mín, en ég vil hafa það alveg skýrt hér í þingtíðindum að þessar spurningar hafa verið ítrekaðar og knýja á um það að þeim verði svarað. Þannig að það verði alveg skýrt fyrir þjóðina hverjir bera ábyrgð á þeim útgjöldum og þessum óvönduðu vinnubrögðum sem hér er verið að knýja fram.