Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Mér er heiður og ánægja að því að svara hæstv. ráðherra sem hefur hér í annað skipti flutt þessa ræðu sína um þetta mál. Fyrst gerði hann það við 1. umr. málsins og nú aftur við 2. umr. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er full ástæða til þess að tala við ýmsa aðila um þetta mál, þar á meðal þá sem hann nefndi og mér finnst koma fyllilega til greina að á milli 2. og 3. umr. málsins verði kallað á örfáa menn til nefndarinnar, hún ræði þetta mál enda sé það undirskilið að hæstv. ráðherra hafi fullan skilning á því að málið þarf í þessum búningi eða öðrum búningi sem dugar að komast í gegnum þingið eða að öðrum kosti þarf að liggja fyrir svo skýrt álit hæstv. ríkisstjórnar að það dugi til þess að a.m.k. þau fyrirtæki í þessari grein sem lífvænleg eru fái að halda lífi til þess að kunnáttan, verkkunnáttan og þekkingin í þessari grein geti fengið að lifa hér í landinu og nýtast þeim fyrirtækjum sem væntanlega fá að dafna í greininni þegar fram í sækir.
    Ef ég má skilja hæstv. ráðherra þannig að hann sé með þessum orðum sínum að hvetja til samstarfs við hann um það að koma lagi á þetta mál, því lagi sem dugar, þá skal ég fyrstur manna taka undir það með ráðherranum að það sé ástæða til að skoða málið á milli umræðna. En það hefur enga þýðingu ef þessi ræða hæstv. ráðherra var einungis flutt í því skyni að drepa þessu máli á dreif.