Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Það efnisatriði kom hér fram hjá hæstv. ráðherra að í 5. gr. hefði það verið fellt brott að grundvöllur þyrfti að teljast vera fyrir rekstri fyrirtækjanna til lengri tíma og taldi að með því hefðu menn komið því til leiðar að svo mætti líta á að rekstrarhæfni fyrirtækisins þyrfti ekki að vera til staðar eftir að það hefði fengið lán. Nú er það svo að sá texti sem er notaður í frv. er á þessa leið, með leyfi forseta: ,,Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um bústofnslán samkvæmt lögum þessum og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis.`` Munurinn á þessu tvennu er sá að til þess að leysa málið eins og gildandi lagatexti gerir ráð fyrir þarf spámenn sem vita allt um framtíðina. Hvar á að fá þá menn? Hver ætlar að segja fyrir um það fimm ár fram í tímann hvert markaðsverð verði á fiski í heiminum? Það er hægt að framkvæma ítarlegt mat en það er erfiður hlutur, þó ekki sé meira sagt, að standa að því að menn geti séð ,,til lengri tíma litið`` eins og hér er orðað.
    Ég verð nú bara að segja eins og er að það má aldeilis hafa verið úrvalssveit sem hefur verið sett þarna í stjórn sjóðsins ef hún er fær um að sjá þetta til lengri tíma litið. Og það væri þá gott, á grundvelli reynslunnar, að sjá hversu miklir spekingar þeir hafa verið að meta það til lengri tíma litið, það sem þeir voru að gera. Ætli þeir væru þá ekki sumir hverjir komnir með falleinkunn? Það er nefnilega hártogun að halda því fram að hér hafi nokkuð vitrænt verið fært á burtu. Það er hrein hártogun. Og það sæmir hreinlega ekki að bera það á borð að með þessu móti og því orðalagi sem hér er verið að tala um sé verið að tala um óábyrgari texta en þann sem var í lagafrv.
    Þá kemur hin spurningin sem er sett fram: Hvers vegna lána sjóðirnir ekkert sjálfir ef vaxtakjörin eiga að vera þau sömu á þessum lánum og hjá sjóðunum? Þarna komum við að grundvallaratriði í atvinnusögu Íslands. Og ég fór með þau grundvallaratriði í minni ræðu þegar málið var til 1. umr. Sjóðirnir fá að sjálfsögðu aldrei nema vexti af því fjármagni sem þeir lána. En hvað um íslenska ríkið? Hvað fær íslenska ríkið? Það fær nú til baka eftir ansi mörgum leiðum. Ef það er hagnaður, hæstv. ráðherra, þá vill ríkið fá eitthvað í kassann. Er það ekki? Ætli það sé ekki svo að þeir norsku, fulltrúar alþýðunnar sem settu ríkisábyrgðirnar á í Noregi, gerðu sér grein fyrir því að þjóðhagslega skilaði þetta miklum fjármunum fyrir norska ríkið, fyrir norska ríkið í formi vinnulauna, í formi skatttekna? Er það alveg gleymt að íslenska ríkið innheimtir skatta? Er enginn skilningur til á því að það er til nokkuð sem heitir þjóðarhagur í þessum efnum?
    Hvað með togarana sem Lúðvík Jósepsson samþykkti ríkisábyrgðirnar á? Hvers vegna lét hann ekki Landsbankann lána þessa peninga? Það er útúrsnúningur af lægstu gráðu að halda því fram að það sé sambærilegur hlutur hvort banki lánar eða ríkið tekur ákvörðun um ábyrgðir í ljósi þess að það er verið að setja á stað atvinnugrein sem vitað er að hefur heppnast í nágrannalöndum Íslands. Vissulega með áhættu frá einu fyrirtæki til annars.
    Þá kemur hin spurningin: Hvers vegna eru menn að afgreiða mál með þeim hraða sem verið er að gera, hæstv. ráðherra? Vissulega er engin vörn til hjá Alþingi Íslendinga fyrir því hvers vegna það lætur reka sig jafnhratt áfram í vinnu. Það er engin vörn til. Það er nú einu sinni svo að þingið ræður því ekki einu sinni sjálft hversu lengi það fær vinnufrið. Það er háð framkvæmdarvaldinu með það. Framkvæmdarvaldið getur stöðvað það hvenær sem er. Gott og vel. Liggja fyrir yfirlýsingar um að menn fái vinnufrið til að vinna þetta betur? Ég veit ekki til þess. Ég veit ekki betur en seinast í dag hafi það verið boðað að það ætti að rjúfa þingið, einn, tveir, þrír.
    Auðvitað er það svo að stór mál þurfa athugunar við og lítil mál einnig. Ég tek undir það hjá hæstv. ráðherra. En hvaða aðdróttanir fá þingmenn ef þeir hafa kannski lagt mánaðavinnu eða áravinnu í það að reyna að sérhæfa sig á einhverju sviði og vilja svo færa þingheimi þessa þekkingu sína í löngum ræðum? Þeir eru kallaðir ofbeldismenn sem misþyrma lýðræðinu. ( Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er dómurinn sem þeir fá. Það er virðingin fyrir málfrelsinu sem framkvæmdarvaldið virðist hafa og forsetar þingsins, þegar því er að skipta. ( Fjmrh.: Það er ekki mín skoðun.) Það er fróðlegt að heyra það að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að það sé ekki hans skoðun og ég virði það. Ég virði það. En hitt verð ég að segja að ég hefði gjarnan viljað vera í þeirri aðstöðu að fá vinnufrið til þess að hafa meiri skoðanaskipti um þetta mál. Ég sagði að ég hefði aflað mér þeirra persónulega til að leggja mat á þetta. Vinnuhraða fjh.- og viðskn. ræð ég ekki.
    Hins vegar vil ég undirstrika að það hefur komið hér fram boð um það frá 2. flm. og þó að ég sé hér frsm. fyrir þessu nál. þá hafa flm., fyrstu flm. þessa máls að sjálfsögðu forræði þess að bjóða það sem þeir buðu í þeim efnum, að láta ræða þetta fáist vinnufriður til.
    En það er einu sinni svo, hæstv. ráðherra, og það er grundvallaratriði að menn geri sér grein fyrir því að sá sem stendur við stjórnvöl á skipi sem siglir á fullri ferð tekur ákvörðun á hverri einustu sekúndu, hvort sem sú ákvörðun liggur í því að hreyfa stýrið eða hafa það kyrrt. Við stöðvum ekki tímans straum. Og fari Alþingi Íslendinga heim án þess að gera neitt í þessu máli þá hefur það líka tekið ákvörðun, ákvörðun upp á marga milljarða.