Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan óska eftir því að hv. 1. þm. Reykv. . . . ( FrS: Ég er hér, ég er á leiðinni niður.) Já, hann er kominn hér upp á svalirnar. Það er skemmtileg tilbreytni ( Gripið fram í: Það er til að hann geti horft niður.) að geta horft svona upp til hans. Nú er hann horfinn af svölunum og ég vona að hann birtist í salnum hér innan tíðar. Já, þetta eru orðin ansi leikræn tilþrif hjá þingmanninum. Þetta minnir mann helst á uppfærslur í Gamla bíói hjá Íslensku óperunni þar sem aðalatriðið er að nýta svalirnar.
    Ég fagna því að hv. þm. lét í ljós vilja sinn til að þetta mál væri skoðað nánar og hann getur treyst því að ég hef mikinn vilja til að skoða þennan vanda fiskeldisfyrirtækjanna. Ég hefði ekki staðið í því á þessum rúmum tveimur árum að setja fyrst upp Tryggingarsjóð fiskeldis og síðan ábyrgðadeildina og þá miklu vinnu sem þurfti til að undirbúa þau frv. og þau lög og síðan framkvæmd laganna um ábyrgðadeildina og viðræður við þá sem þar stýra verkum, langar og miklar, um hvernig eigi að haga þeim málum ef ég væri ekki reiðubúinn að leggja mig fram til að gera allt það sem ég teldi rétt og verjanlegt til þess að tryggja að fiskeldið gæti fengið áfram að þróast hér og eflast. Þannig að ég vona að allir þeir sem líta með sanngirni yfir það þurfi ekki að draga í efa vilja minn í þeim efnum.
    Ég hefði hins vegar kosið að þessi athugun nefndarinnar færi fram áður en atkvæðagreiðsla fer hér fram við 2. umr. Það vill svo til að það er tími til þess og það er kannski skynsamlegra að nota tímann fram að slíkri atkvæðagreiðslu til að skoða málið heldur en gera það á milli 2. og 3. umr. Vegna þess að menn hafa fram að atkvæðagreiðslunni laugardag, sunnudag og hálfan mánudag. En menn hafa kannski ekki nema dagspart eða einn sólarhring á milli 2. og 3. umr.
    Ég vil þess vegna beina þeirri hugmynd og ábendingu til hv. þm. Friðriks Sophussonar og einnig hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hvort ekki er hægt að sammælast um það að nefndin komi saman yfir helgina eða á mánudagsmorgun til þess að fjalla um þetta mál áður en atkvæðagreiðslan fer fram svo hægt verði þá kannski að skoða brtt. eða annað sem menn vilja flytja. Ég vona að hv. þm. heyri mál mitt í þeim efnum. Ég er ekki að biðja um nein svör við því hér og nú, en ég bið menn að athuga það með góðum vilja að þessi vinna nefndarinnar fari fram áður en atkvæðagreiðslan hefst vegna þess að ég reikna með því að ef þingmenn taka starf sitt alvarlega þá muni þeir vilja fá að vita ýmislegt af því sem hér hefur verið um spurt.
    Að lokum vil ég segja það við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, sem lagði málið dálítið upp þannig að íslensk atvinnusaga sýndi það að ríkissjóður yrði að koma inn í mál og leggja fyrirtækjunum til fé. Ríkissjóður hefur þegar lagt fiskeldinu til nokkra milljarða. Og hvernig hefur hann gert það? Hann hefur gert það í gegnum Byggðastofnun. Hér er verið að

knýja fram að ríkið yfirtaki 1,2 milljarða af lánum Byggðastofnunar til að styrkja þá stofnun og ríkissjóður geri það í gegnum Framkvæmdasjóð sem er satt að segja orðinn mjög illa staddur. Kannski fyrst og fremst vegna lánanna til fiskeldisins, svo það er alveg ljóst að það eru þegar nokkrir milljarðar fallnir á ríkissjóð með beinum og óbeinum hætti vegna þessarar greinar. Það er því ekki hægt að segja að þetta sé spurningin um það hvort ríkissjóður komi inn eins og oft áður. Hann er fyrir löngu kominn inn. Það er fyrir löngu búið að leggja fram með einum eða öðrum hætti nokkra milljarða sem ríkissjóður verður síðan að reiða fram. Hér er verið að tala um viðbót við það sem þegar hefur verið gert.