Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég tek undir þau orð sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. Ef formaður fjh.- og viðskn. boðar fund um málið þá mun ekki standa á okkur að mæta þar og ræða við þá aðila flesta hverja sem fjmrh. hefur nefnt. En það er auðvitað skilyrði fyrir því að fjmrh. og ríkisstjórnin láti þetta mál þá koma til afgreiðslu hér í þinginu og hér verði látið reyna á hvort meiri hluti er fyrir þessu frv. í þessari mynd eða einhverri annarri áður en þingi er slitið.
    Ég tók það fram fyrr í kvöld að frv. er ekki flutt fyrr vegna þess að málið var alltaf til umfjöllunar í ríkisstjórn. Hæstv. fjmrh. segir að ríkið sé með fleiri milljarða í gegnum Landsbankann, í gegnum Byggðasjóð. ( Fjmrh.: Fyrst og fremst Framkvæmdasjóð.) Og Framkvæmdasjóð. Hann spyr samt áðan: Af hverju lánar ekki Byggðasjóður meira? Af hverju er hann hættur að lána? Byggðasjóður er með mörg lán í fiskeldi og hefur orðið að halda áfram. En Byggðasjóður getur ekki haldið áfram vegna þess að það er búið að loka fyrir rekstrarlánin. Af hverju hefur verið lokað fyrir rekstrarlánin? Vegna þess að það hafa orðið mikil óhöpp og gjaldþrot í greininni. Það hafa líka orðið óhöpp hjá öðrum fiskeldisþjóðum vegna verðfalls sem þar hefur orðið. Þetta hélt ég að allir vissu. Um þetta er búið að fjalla það mikið. Það hefur enginn ráðið við það. Af hverju halda þá Norðmenn t.d. áfram eftir öll þau áföll sem þeir hafa orðið fyrir? Það er búið að þróa hér mikið í fiskeldi. Það er verið að þróa t.d. ræktun bleikju sem lofar góðu. Hins vegar er markaðurinn fyrir bleikju mjög takmarkaður.
    Við verðum að búa við margfalt meiri kostnað að koma þessum afurðum á markað, eins og t.d. til Bandaríkjanna og við að fara í samkeppni við Kanadamenn. Ég segi fyrir mitt leyti að ég á engra hagsmuna að gæta í sambandi við fiskeldi. (Gripið fram í.) Já, svona 1 / 2 % eða innan við það í einni stöð. ( Gripið fram í: 1%.) Nei, það er ekki svo mikið, í einni fiskeldisstöð. Ég tel það löngu tapað og verð bara að hafa það að ég hafi tapað þessu. Ég gerði þetta vegna þess að ég hafði áhuga á því að þetta væri reynt.
    Það er verið að gera merkar tilraunir í sambandi við hrognaframleiðsluna. Það eru miklu stærri hrogn sem nú er farið að fá sem er árangur af þeirri ræktun sem hefur átt sér stað í öðrum löndum eins og í Noregi. Við erum að byrja að njóta góðs af því. Ég er sannfærður um það að sumar þessar stöðvar sem enn þá starfa þurfa ekki nema tiltölulega stutt árabil til að komast áleiðis. En ef enginn ætlar að lána neitt rekstrarlán til þessara stöðva þá fer þetta auðvitað bara á einn veg. Byggðastofnun er ekki það sterk stofnun að hún geti tekið á sig svona rekstur. Þarna verður að skipta þessu á milli fleiri aðila.
    Ríkið fær auðvitað mikið til baka eins og hv. 2. þm. Vestf. gat hér um áðan. Það er alveg hárrétt. Ríkið tekur skatta af þessari framleiðslu af ýmsum kaupum og aðföngum. Þetta eru auðvitað allt saman tekjur fyrir ríkissjóð. Það má ekki einblína á það að ríkið hafi bara tapað en ekkert fengið í aðra hönd. Það er nú með þetta eins og mörg önnur mál.
    Hæstv. forsrh. hefur sagt við mig að hann telji að þetta fiskeldi megi ekki stöðvast. Hæstv. landbrh. hefur sagt mjög svipað í þessum efnum. Þeir virðast vera þeirrar skoðunar að það eigi að halda þessu áfram. Og ég veit að það eru fleiri ráðherrar sama sinnis. En það er ekki bæði sleppt og haldið. Það vitum við bæði í þessu máli sem öðrum.
    Ábyrgðadeildin hefur bara ekki reynst nógu sterk og mikil. Það vitum við. Hún hefur gert ákaflega háar kröfur til þessara fiskeldisfyrirtækja til þess að komast inn. Kröfurnar t.d. um það að hafa tryggt. Ég hef ekki séð ófullkomnari tryggingar heldur en þetta laxeldi verður fyrir. Ég sé ekki að það sé nokkurt vit í því að vera að gera slík skilyrði um tryggingar því að tryggingafélögin borga bara það takmarkað ef tjón verður og hafa allt sitt á þurru. Þarna má spara útgjöld. Og hvers vegna eigum við ekki að gera þeim þetta kleift sem hafa nægan jarðhita og hafa verið að koma þessu af stað? Stofnkostnaðurinn er auðvitað gífurlega mikill og það er afskaplega mismunandi aðstaða til fiskiræktar eftir því hvar er á landinu og hvernig aðstæður eru bæði með heitt og kalt vatn.
    Ég skal fúslega viðurkenna að það var farið út í þetta fiskeldi af allt of lítilli fyrirhyggju, en það er líka búið að grisja þetta gífurlega mikið niður þannig að þetta er ekki nema lítill hluti. En það er annað sem er að byrja. Það eru þessar litlu stöðvar sem eru að byrja sem eru grundvöllur eiginlega fyrir búskap þar sem hefur verið lögð niður sauðfjárrækt, t.d. bleikjurækt og annað. Hér verður að haldast í hendur markaðsöflun fyrir þessa framleiðslu og það verður þá hið opinbera að gera með einhverjum hætti.
    Ég segi fyrir mitt leyti að höfuðatriðið er ekki að samþykkja þetta frv., höfuðatriðið er að samþykkja aðgerðir þannig að þeir, sem geta haldið áfram og við sjáum fram á að geta rekið sínar fiskeldisstöðvar með góðum árangri innan tiltekins tíma, fái hér úr bætt.
    Ef einhverjar ráðstafanir í svipuðum dúr og þessar verða að veruleika þá er það trú mín að ríkisbankarnir komi til með að endurskoða sínar lánareglur út á afurðir en dragi ekki lappirnar eins og gert hefur verið núna síðustu mánuði. Hér er um líf eða dauða að tefla. Eigum við að láta mestallt fiskeldið hrynja og sitja eftir með 9 -- 10 milljarða fjárfestingu og töp eins og fyrir liggja og þar með hætta þessum tilraunum, á sama tíma og aðrar þjóðir eru að auka fiskeldi í stórum stíl? Eins og ég sagði hér áðan stefnir þriðja mesta fiskveiðiþjóð heims í það að 70% af hennar framleiðslu verði úr fiskeldi innan 10 ára. Þannig er þessi þróun víðast hvar og við höfum bara alls ekki ráð á því að fara þarna til baka í mörg ár.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ég endurtek það að ef formaður fjh.- og viðskn. boðar fund við þessa menn, þá er ég reiðubúinn að mæta. En höfuðatriðið er að það verði eitthvað gert sem bitastætt er til þess að fiskeldi lognist ekki út af.