Frsm. minni hl. félmn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur nú verið hér til umfjöllunar á þremur þingum. Margt horfði til bóta í því frv. sem var fyrir lagt á 111. löggjafarþingi en í meðförum þingsins hefur það tekið miklum breytingum og enn er orðin breyting á því þegar það kemur nú frá Nd. aftur til Ed. Það er ljóst að ekki muni nást samstaða um málið nema í þeirri útþynntu mynd sem það hefur nú tekið á sig.
    Það er margt sem var í upphaflega frv. sem hefur verið fellt út. Vil ég þar helst nefna ákvæði um öfuga sönnunarbyrði í málum sem varða meinta mismunun vegna kynferðis við ráðningar í störf þar sem atvinnurekanda var gert að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið þegar ráðið er í stöður á vinnumarkaðnum. Skipan kærunefndar er ekki með þeim hætti sem við hefðum helst kosið að sjá eins og fram kom við umfjöllun málsins hér í Ed. á sínum tíma og ákvæði um jafnréttisráðgjafa er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var í upphaflega frv.
    Við styðjum þó þá breytingu sem gerð var í Nd. vegna þess að við teljum hana illskárri kost en þá breytingu sem gerð var hér í Ed. á sínum tíma. Og við munum, þrátt fyrir þá ágalla sem eru á frv., styðja það vegna þess að það eru ýmis mikilvæg atriði sem hafa þó náðst fram, eins og t.d. það að í 10. gr. er kveðið á um menntun. Þá má nefna annað ákvæði um jafnréttisþing sem er einnig mjög til bóta. Það er von okkar kvennalistakvenna að jafnréttisþing verði vettvangur lifandi umræðna um stöðu kvenna í samfélaginu og uppspretta nýrra hugmynda í baráttunni fyrir bættum hag kvenna og þar með allra þjóðfélagsþegna.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, virðulegur forseti, en eins og fram hefur komið styðjum við málið vegna þess að við sjáum þar örlítil skref tekin í rétta átt þó alls ekki sé nóg að gert.