Félagsþjónusta sveitarfélaga
Mánudaginn 18. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þar sem ég hef ekki viljað tefja tíma okkar hér síðustu klukkustundirnar á þessu þingi þá tók ég ekki til máls við 1. umr. um frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Málið hafði fengið umfjöllun í nefnd Nd. og þangað höfðu borist umsagnir. Það er eins og oft áður að við neyðumst til þess í önnum síðustu daga fyrir þinglok að afgreiða mál með þeim hætti sem hér er gert, það er haldinn einn stuttur nefndarfundur. Ég tel hins vegar að hér sé um mikilvæga löggjöf að ræða og eins og fram hefur komið hefur mjög lengi verið skortur á slíkri löggjöf þar sem settur er rammi utan um skyldur sveitarfélaga og þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita íbúum sínum. Á þeim forsendum vildi ég leggja mitt af mörkum fyrir hönd okkar þingkvenna Kvennalistans í þessari deild til að þetta mál hlyti afgreiðslu eins og frv. sem við afgreiddum áðan um málefni leikskólans. Ég vil ítreka að við teljum að hér sé í báðum tilvikum um mikilvæga löggjöf að ræða þótt ýmsir annmarkar séu á varðandi fjármögnun leikskólans, svo ég víki að honum hér í máli mínu. En ég vil ítreka það að við höfum viljað greiða fyrir þessum málum. Það geta kannski verið takmörk fyrir því hversu samvinnuþýðir þingmenn geta verið á síðustu klukkustundunum og þess vegna vil ég enn og aftur vísa því á bug sem fram kemur í viðtali í Þjóðviljanum nú um helgina að það sé verið að tefja þjóðþrifamál sem þessi af okkar hálfu.