Ákvæði um leikskóla
Mánudaginn 18. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Fyrr á þessum degi var samþykkt hér frv. til laga um leikskóla. Þar segir í 3. gr.: ,,Sveitarfélag gerir árlega könnun á því hversu margir foreldrar óska eftir leikskólavistun.`` Fyrir einni klst. eða svo var þessi hv. þingdeild þeirrar skoðunar að slík könnun skyldi gerð einu sinni á ári. Núna fyrir nokkrum mínútum var enn á ný atkvæðagreiðsla um þetta hið sama málefni. Þá erum við komin yfir í frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar stendur um þetta sama atriði: ,,Sveitarstjórnir skulu eftir föngum tryggja framboð á leikskólarými. Til þess að sú þjónusta verði í sem bestu samræmi við þarfir barna í sveitarfélaginu skal það láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.`` Nú virðist svo sem þingdeildarmenn hafi skipt um skoðun, þyki nóg að slíkt mat á þörfinni fari fram á tveggja ára fresti, sem fyrir klst. eða svo skyldi fara fram á eins árs fresti. Ég hygg líka að það sé réttur lagaskilningur að þau lög sem síðar eru samþykkt eru ráðandi. Þannig ýta ákvæðin um félagsþjónustu sveitarfélaga þeim ákvæðum um þetta atriði sem við vorum að samþykkja fyrir einni klst. til hliðar. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að sú nefnd sem þetta mál heyrir undir, ætli það sé ekki félmn., setjist á rökstóla og velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að samþykkja till. hv. 8. þm. Reykv. Guðmundar H. Garðarssonar um að fella 34. gr. úr gildi.
    Þessi heildarlagabálkur um leikskóla sem við vorum að samþykkja er 23 greinar með ákvæðum til bráðabirgða. Ég hélt satt að segja að það fæli í sér skipan þessara mála eins og deildin vildi hafa hana og vil því mjög mælast til þess að félmn. lesi nú yfir frv. til laga um leikskóla og reyni að gera sér grein fyrir því hvort nefndin geti fallist á þau sjónarmið sem búið er að lögfesta hér á þinginu fyrir klst. Það er svona hálfbjánalegt að vera að breyta lögum á klukkustundar fresti. Ef það er mat félmn. að nauðsynlegt sé að breyta lögunum um leikskóla svo fljótt og vel þá tel ég fara betur á því að flytja sjálfstætt frv. til breytinga á lögum um leikskóla sem við vorum að samþykkja nú áfram ef það er þá þinglega rétt áður en búið er að staðfesta lögin, sem mér er öldungis ekki ljóst. Ég held þess vegna að við getum ekki haldið þessu máli áfram fyrr en það hafi verið athugað betur.