Ákvæði um leikskóla
Mánudaginn 18. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég kom hér í dyrnar þegar hv. þm. var að ljúka máli sínu og hafði spurnir af því að hann héldi því fram að þau sköruðust með einhverjum hætti frv. um leikskóla sem nú er orðið að lögum og það frv. sem hér er til umræðu. Þetta er með öllu rangt. Þessi frv. hafa ekki skarast og því síður eftir að sú breyting var gerð á frv. í Nd. að fella út kaflann um málefni leikskóla og flytja tvö ákvæði sem þar voru inn í kaflann um málefni barna og ungmenna.
    Ég skal ekki hafa langt mál um þetta, virðulegur forseti. Hér er verið að setja löggjöf sem fjallar um ýmsa þætti í þeim velferðarmálum sem sveitarfélögin hafa skyldur við sína íbúa. Málefni leikskólans eru veigamikill þáttur í þeim málaflokkum sem sveitarfélögin fara með á sviði velferðarmála. Þau hafa bæði fjárhagslega og faglega ábyrgð á þessum málaflokki og því er óeðlilegt að það sé á engan hátt kveðið á um málefni leikskóla inni í þessu frv. Sú niðurstaða sem hér liggur fyrir og er til umræðu er t.d. gerð í fullu samráði við Fóstrufélag Íslands sem hefur haldið því fram að þessi ákvæði sköruðust. Hér er einungis verið að kveða á um að sveitarfélögin skuli eftir föngum tryggja framboð á leikskólarými og er það mjög eðlilegt í löggjöf sem kveður á um skyldur sveitarstjórna almennt á sviði velferðarmála. Síðan er ákvæði um að fram skuli fara úttekt á tveggja ára fresti á þörfinni fyrir leikskólarými. Ákvæðið í 2. málsgr. 34. gr. er líka mjög mikilvægt. Það kveður á um að félmrn. skuli liðsinna sveitarfélögunum í því skyni að sameinast um rekstur leikskóla á vettvangi héraðsnefnda og með stofnun byggðasamlaga. Þetta ákvæði er mjög mikilvægt vegna þess að mörg af smærri sveitarfélögunum eru ekki í stakk búin til að halda uppi nauðsynlegri þjónustu og koma upp leikskólum í þeim mæli sem þarf. Þess vegna er það oft sem þessi smærri sveitarfélög þurfa að sameinast einmitt á vettvangi héraðsnefnda eða byggðasamlaga um stofnun leikskóla. Í þeim tilfellum kemur að verulegu leyti til kasta ráðuneytisins að liðsinna sveitarfélögum í því efni, bæði gegnum Jöfnunarsjóð og með ýmislegri ráðgjöf. ( Forseti: Ég vil benda hæstv. félmrh. á að hér eru umræður um þingsköp og aðeins það atriði hvort félmn. skuli taka málið til skoðunar á milli 2. og 3. umr.) Virðulegi forseti. Mér var ekki ljóst að hér væri umræða um þingsköp, þá hefði ég ekki hagað máli mínu með þeim hætti sem ég hef gert. Ég tel þó að ég hafi upplýst nokkuð það ágreiningsatriði sem hv. þm. setti hér fram og því mun væntanlega það sjónarmið sem ég hef hér látið koma fram skýra nokkuð málið fyrir nefndinni ef hún er að taka það á annað borð til umfjöllunar aftur.