Athugasemd við blaðaviðtal
Mánudaginn 18. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Í Þjóðviljanum laugardaginn 16. mars birtist viðtal við hæstv. forseta Sþ. þar sem gefið er í skyn að Kvennalistinn sé að tefja mikilvæg mál í þinginu. Í því segir þar sem verið er að tala um Kvennalistann m.a. ,, . . . á meðan mál eins og húsnæðismál, leikskólar, grunnskólalög, lánsfjáráætlun og vegáætlun bíða.`` Og síðar segir: ,,Auðvitað semja forsetar um þinglok við alla þingmenn, stjórn sem stjórnarandstöðu, og eins og þú hefur e.t.v. tekið eftir þá hefur stjórnarandstaðan, t.d. Sjálfstfl., ekki valdið neinum vandræðum.``
    Þetta fannst mér mjög ómaklegt, að halda því fram að við kvennalistakonur værum að tefja mál eins og húsnæðismál, leikskóla - og grunnskólalög. Held ég að þetta sé eitthvað á misskilningi byggt og ég óska eftir því að hæstv. forseta útskýri fyrir hæstv. forseta Sþ., hafi hún ekki fylgst með umræðum hér í þessari hv. deild, að Kvennalistinn hefur svo sannarlega ekki staðið í vegi fyrir að leikskólar, grunnskólar eða húsnæðismál hafi fengið afgreiðslu í deildinni.