Veiting ríkisborgararéttar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Þegar þingfundi lauk hér í hv. deild snemma laugardags, ég held að það hafi verið um hálfeittleytið aðfaranótt laugardags, þá var það með þeim ályktunarorðum minnir mig af hálfu forustu þingsins að það ætti að taka hlé yfir helgina þannig að þingmenn gætu hvílst og gott ef ekki náð áttum í ýmsum málum. Það virðist vera sem þetta hafi ekki nægt sumum hv. þingdeildarmönnum ef marka má orð hv. 1. þm. Norðurl. v. þannig að það er spurning hvort það þarf ekki að fá svolítið betri hvíld fyrir þingmenn til þess að þingstörfin megi ganga greitt fyrir sig.