Lánsfjárlög 1991
Mánudaginn 18. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. sé ekki langt undan, ég sá hann hér á göngum rétt áðan og vonast til að hann verði hér til að hlýða á mál mitt.
    Við ræðum hér frv. til lánsfjárlaga. Hv. 12. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir áliti Kvennalistans til þessa máls en það eru fáein atriði sem ég vildi aðeins gera að umtalsefni sem hnykkja betur á einstökum greinum frv.
    Mig langar til að byrja á að gera að umtalsefni 22. gr. frv. Í henni felst að framlag til Ferðamálasjóðs skv. 27. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skuli skerðast. Eins og hv. þm. er kunnugt er miðað við að 10% af söluhagnaði Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli renni til ferðamála. Á undanförnum árum hefur þetta fé verið verulega skert, allt niður í það að einungis um 20% af þessu fé hafi skilað sér til Ferðamálaráðs. Ég tel þetta mjög miður en verð þó að lýsa ánægju minni með að þetta hlutfall hefur aðeins þokast upp á við. Þannig er nú miðað við að það verði 68 millj. sem renni til Ferðamálaráðs. Auðvitað er þetta allt of lítið. Ef ég veit rétt þá er þetta um 50% af tekjustofninum. Auðvitað hefði verið eðlilegra að stærra skref hefði verið tekið í áttina að því að Ferðamálaráð fengi það sem því er ætlað samkvæmt lögum.
    Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða um mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar, svo mikið sem það hefur verið rætt hér af allra hálfu. Hefur hæstv. forsrh. ekkert síður en aðrir rætt um þessi atriði. Uppbygging ferðamannastaða er mjög mikilvægt mál fyrir okkur. Vil ég fullyrða að ekki sé
möguleiki að fjölga ferðamönnum ef ekkert verður að gert í þessum málum. Ef þessi atvinnugrein á að skila okkur því sem hún getur gert ef rétt er á málum haldið, þá verður að taka myndarlegar á málum. Við höfum þó ákveðið að gera ekki brtt. við þessa grein en ég vildi gera athugasemd við þetta atriði. Ég hefði þó svo sannarlega viljað að þessi grein væri ekki inni eða þá til vara að það hefði verið heldur hærri upphæð sem þarna stæði. Þetta finnst mér vera nokkuð miðað við alla þá peninga sem eiga að fara í aðra þætti og er skemmst að minnast þess sem var rætt hér fyrir helgi og ég kem að síðar í ræðu minni, þeir fjármunir sem verja á í aðra atvinnuuppbyggingu sem er álver á Keilisnesi sem ég tel vera hina mestu óhappatillögu. Fremur hefði átt að leggja áherslu á aukningu í ferðaþjónustu. Ég verð að lýsa óánægju minni með að þarna skuli ekki vera myndarlegar á málum tekið og fullyrði að verði ekkert að gert á sviði ferðamála og á þessum helstu ferðamannastöðum verði þeir eyðilagðir þannig að það muni kosta verulega fjármuni að bæta úr. Get ég tekið sem dæmi Gullfoss, þar sem sem betur fer er farið að taka aðeins á málum, en þar hefur mjög mikið verið skemmt í náttúrunni og illa farið með umhverfið. Dettifoss er annað dæmi þar sem ástandið er mjög slæmt og hefur Ferðamálaráð ekki treyst sér til þess að reka þar snyrtiaðstöðu eða

þá þjónustu sem þarf til þess að hægt sé að taka á móti þeim mikla fjölda ferðamanna sem þangað kemur ár hvert. Þetta er um þessa grein.
    Síðan er það 25. gr. frv. Ég ætla ekki að gera hana að miklu umtalsefni, en við leggjum til á þskj. 1016 að greinin falli brott, þ.e. greinin sem gerir ráð fyrir að tekjur útvarpsins af hljóðvarps - og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renni til ríkissjóðs. Við viljum að þetta þrátt-fyrir - ákvæði í 25. gr. falli brott og tekjur Ríkisútvarpsins af þessum lið verði óskertar eins og gert er ráð fyrir skv. lögum nr. 68/1985. Hv. 10. þm. Reykn. mun gera frekar grein fyrir þessari tillögu okkar.
    Það kom fram í umræðunni hjá hv. 1. þm. Reykv. að hann teldi að e.t.v. væri þetta ný stefna hjá hæstv. ríkisstjórn, hún teldi gott að fá óveðrið í lið með sér til þess að auka hagvöxt og gera hag ríkissjóðs betri. Mig langar í því tilefni að benda hv. 1. þm. Reykv. og e.t.v. fleirum á það, einmitt í sambandi við óveðrið sem geisaði hér fyrr í vetur og m.a. felldi mastrið á Vatnsendahæð og olli miklu meira tjóni, að öll sú uppbygging sem þarf að fara fram vegna þessa tjóns eykur hagvöxt á Íslandi. Þetta sýnir kannski betur en nokkuð annað hversu hæpnir hagvaxtarútreikningar eru sem gera ráð fyrir því að eyðilegging auki hagvöxtinn. Nákvæmlega sama gildir um stríðsrekstur. Þegar við tökum Persaflóastyrjöldina og alla þá eyðileggingu sem varð þar í Írak og Kúveit, að öll uppbyggingin sem nú þarf að eiga sér stað mun auka hagvöxt verulega. Þetta segi ég til þess að benda á að þegar verið er að ræða um aukinn hagvöxt vegna hins og þessa, þá verður að skoða hvað liggur að baki þeim tölum áður en komið er með miklar fullyrðingar í því sambandi.
    Þá kem ég að 26. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, með síðari breytingum, skal framlag ríkisins vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka eigi vera hærra en 19.640 þús. kr. á árinu 1991,`` eða tæpar 20 millj. kr.
    Á undanförnum árum þegar rætt hefur verið um lánsfjárlög hef ég iðulega gert þessa grein að umtalsefni og höfum við hæstv. landbrh. skipst á skoðunum um þetta atriði. Eins og menn hafa e.t.v. tekið eftir höfum við fengið hér á borð okkar frv. frá hæstv. umhvrh. um villt spendýr á Íslandi. Það frv. gerir ráð fyrir því að sett verði heildarlög um villt spendýr, m.a. refi og minka. Það tel ég mjög tímabært og hefði svo gjarnan viljað að slíkt frv. hefði náð fram að ganga á þessu þingi. Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég set spurningarmerki við þessa grein. Flestir eru sammála því að minkar sérstaklega, og refir væntanlega líka, hafa verið skaðvaldar hér í áraraðir. Minkar eru t.d. taldir vera ein af orsökum þess að öndum hefur fækkað mjög við Mývatn og þess vegna telja margir að það veiti ekkert af þessum tæpum 20 millj. í eyðingu refa og minka, en ég set spurningarmerki við þessa þörf.
    Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna hér í rit Landverndar nr. 7, sem heitir Villt spendýr þar sem er

einmitt talað um þetta atriði. Ég ætla að vitna hér í örlítinn kafla úr grein sem skrifuð er af Páli Hersteinssyni, sem nú er orðinn veiðistjóri. Þetta rit er hins vegar gefið út árið 1980 þannig að það er komið nokkuð til ára sinna, en það hefur lítið breyst í þessum málum. Páll segir:
    ,,Íslenski refurinn vegur 5 -- 10% af því sem fullorðin ær vegur. Það kann að virðast undarlegt að svo lítið dýr geti ráðið niðurlögum slíkrar skepnu sem sauðkindin er. Hins vegar er auðséð að unglömb eru auðveld bráð tófunnar ef mæðurnar eru af einhverjum ástæðum ófærar um að verja þau. Aðbúnaður sauðkinda á fyrri öldum var gerólíkur því sem nú tíðkast. Þá var treyst geysimikið á vetrarbeit, ekki síst við sjávarsíðuna. Í hörðum vetrum tók oft að miklu leyti fyrir beit og á ísárum gat tekið alveg fyrir fjörubeit. Bændur urðu þá heylausir á útmánuðum og urðu að setja fé út á gaddinn. Um sauðburðinn var féð illa á sig komið og ærnar stóðust tófunni ekki snúning. Þar að auki var lambadauði mikill af öðrum orsökum. Oft er illmögulegt að þekkja í sundur lömb sem tófur eða hundar hafa fundið dauð og gætt sér á og lömb sem refir hafa drepið.``
    Þetta eru atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að við tökum til greina þegar við erum að samþykkja hér að verja svo og svo miklu fé í að eyða refum og minkum. Sérstaklega finnst mér að það þurfi að athuga þetta með eyðingu refa sem hafa verið hér á landi frá örófi alda. Ég vil fá að vitna aftur í þessa sömu grein örlítið síðar þar sem Páll Hersteinsson segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er eftirtektarvert að skaði af völdum refa virðist hafa farið síminnkandi það sem af er þessari öld og þó fer refum ekki fækkandi fyrr en eftir 1957.`` Síðan rekur hann ýmislegt varðandi íslenska refastofninn og segir í lok þessa kafla: ,,Höfum við efni á að verja tugmilljónum króna árlega í refaeyðingu án þess að vita fyrir víst hvort það er nauðsynlegt? Það er hugsanlegt að við höfum loksins eftir ellefu aldir fundið raunhæfa aðferð til að verjast skaða vegna refa án þess að gera okkur grein fyrir því, nefnilega betri umhirðu sauðkindarinnar.``
    Mér finnst nauðsynlegt að við veltum þessu fyrir okkur þegar við ákveðum að verja, þó ekki séu það kannski neinar stórupphæðir, en 20 millj. kr. í að eyða ref og mink og mér hefði þótt gaman að vita, og veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. heyrir mál mitt, hve mikið fer í eyðingu á ref og hve mikið fer í eyðingu á mink. ( HG: Hvar er umhvrh. eða refamálaráðherrann?) ( Gripið fram í: Tófuvinaráðherrann.) Ég hefði haft sérstakan áhuga á því, ef hæstv landbrh. er hér í húsinu, að hann mundi koma og taka þátt í þessari umræðu vegna þess að við höfum undanfarin ár deilt nokkuð um einmitt þetta atriði, ef hann má heyra mál mitt. Ekki ætla ég samt að gera kröfu til þess að hann verði sóttur langt að, en það væri mjög gott ef hann væri hér í húsinu því að akkúrat þetta atriði hefur verið okkar skemmtilegasta deilumál hér í þessi ár sem ég hef setið á þingi.
    En ég hef áhyggjur af því ef við förum að eyða

ref í einhverju æði án þess að það sé rannsakað sérstaklega og athugað hvaða afleiðingar það getur haft. Vil ég benda á það að t.d. á Hornströndum er nokkuð um ref og hef ég orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að ganga þar um og horfast í augu við þessa skepnu sem er mjög falleg og sé ég enga ástæðu til þess að eyða ref á svæðum eins og t.d. Hornströndum. Set ég stórt spurningarmerki við það yfirleitt að vera að eyða ref vegna þess að hann hefur, ja, ég get nánast fullyrt ekki í neinum mæli lagst á kindur. Og þegar kindur eru hafðar í húsum á vetrum tel ég enga þörf á því að hafa þannig ákvæði í lögum að hann sé réttdræpur hvar sem til hans næst.
    Um minkinn gildir kannski eilítið annað þó ekki vilji ég fara að útrýma honum. Minkar voru fluttir til landsins árið 1931 og hafa ekki verið mjög lengi hluti af náttúrunni hér á landi. Það er talið að það hafi ekki verið fyrr en 1932 sem minkar sluppu fyrst út í náttúruna en það var úr Grímsnesbúinu sem þeir sluppu haustið 1932. Næstu ár þar á eftir er talið að þeir hafi sloppið allverulega margir úr haldi. En það var eiginlega samt ekki talið vera fyrr en 1937 sem fyrstu minkagrenin fundust við Elliðaárnar í Reykjavík. Það gildir því kannski örlítið annað um minkinn en tófuna. Minkurinn hefur verið talinn mikið skaðræðisdýr og það er fullyrt, af t.d. bændum við Mývatn, að þar hafi honum fjölgað mjög mikið og þeir vilja kenna honum um mikinn hluta af því hve öndum hefur fækkað mikið við Mývatn en benda þó á þegar farið er að ræða málið að bæði svartbakurinn og hrafninn hafi verið ansi drjúgir í að eyða öndum og hrun andastofnsins hafi kannski ekki síst verið samspil þessara þátta en ekki það að minkurinn hafi verið eini skaðræðisgripurinn.
    Einnig hefur minkurinn lagst í fiskeldistjarnir þar sem hann hefur komist að en það er auðvitað mismunandi hversu góðan aðgang hann hefur að slíkum stöðum. Á einum stað þar sem ég þekki vel til þaðan sem ég er ættuð, ofan úr Borgarfirði, hafði bóndi einn komið sér upp allmyndarlegri fiskatjörn þar sem í voru nokkur hundruð silungar, en minkurinn fann sér ból rétt við tjörnina og hreinsaði þar upp úr á nokkrum mánuðum. En hann var penn í þessu. Hann tók sér bara einn fisk á dag og yfirleitt á það við um þessar skepnur, bæði refi og minka, að þeir eru ekki að drepa sér til ánægju heldur bara eru þeir að drepa af þörf til þess að halda lífi.
    Mig langar til að vitna örlítið í þetta sama rit Landverndar í grein sem Karl Skírnisson og Ævar Petersen skrifa á bls. 88 í þessu riti. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar ákvörðun er tekin um að eyða fjármunum og tíma til að veiða mink hlýtur hún að vera byggð á einhverjum rökum. Má gera ráð fyrir að fjárhagslegur ábati hafi verið talinn af minkaveiðum, með öðrum orðum að árangur minkaveiða hafi í fjármunum verið metinn meira en það tjón sem minkurinn veldur. Lítum á þær forsendur sem liggja að baki minkaveiði á Íslandi.
    Í fyrsta lagi er minkur talinn spilla varpi fuglategunda sem hafa verið nýttar. Í öðru lagi er minkurinn talinn spilla varpi fuglategunda sem okkur er annt um en eru ekki nýttar að ráði af manninum. Sem dæmi má nefna mófugla og kríu. Í þriðja lagi. Minkurinn kann að valda skaða á stofnum ferskvatnsfiska. Í fjórða lagi hefur minkurinn verið talinn aðskotadýr í lífríki landsins og eru okkar fyrstu viðbrögð að reyna að útrýma honum. Drápseðli minks samfara grimmilegu útliti veldur því einnig að margir líta á hann sem réttdræpan skaðræðisgrip.``
    Síðan segja höfundar: ,,Lítum nánar á þessar forsendur. Hvergi þar sem rannsóknir eru fyrir hendi hefur verið sýnt fram á að minkur sé valdur að fækkun í neinum þeim dýrastofnum sem hann nýtir sem fæðu. Almennt má segja að fátt bendi til þess í náttúrunni að rándýr takmarki stofnstærð bráðar. Réttlæting minkaveiða á þeim forsendum að minkurinn haldi niðri vissum fugla - og fiskastofnum er því hæpinn.``
    Þetta vil ég benda á, virðulegur forseti, þar sem ég tel mjög mikilvægt að þegar verið er að taka ákvarðanir um eyðingu slíkra dýrategunda, eða ekki eyðingu, ég held að enginn ætlist til þess að þeim sé algerlega útrýmt, þá er ég að meina að halda stofninum niðri, þá verður að gæta þess mjög að ekki sé gengið um of á einn dýrastofn. Og síðan segja þeir hér síðar: ,,Hérlendis er brýn þörf á auknum rannsóknum á þessu sviði.`` Vil ég taka undir það atriði. Og síðan segja höfundarnir:
    ,,Minkaveiðar kosta milljónatugi á ári hverju. Er því vert að staldra ögn við og athuga hvort núverandi veiðiálag skili þeim fjármunum sem varið er á ári hverju til minkaveiða í bættri afkomu hlunnindabúskapar og hagstæðum áhrifum á lífríki. Nokkuð víst er að óframkvæmanlegt er að útrýma mink hérlendis. Spurningin snýst því annars vegar um það hvort núverandi veiði hafi einhver áhrif til að halda minkastofninum niðri eða hvort minkastofninn hefur þegar náð hámarksþéttleika sínum og veiðar megni ekki að halda stofninum niðri.``
    Mér finnst mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta sé tekið með í reikninginn þegar verið er að ákvarða, eins og hér er verið að gera, tæpar 20 millj. til að eyða ref og mink. Finnst mér ástæða til þess að endurskoða ákvæði laga nr. 92/1957 um þetta. En mig langar þó áður en ég lýk þessum þætti að vitna til lokaorða þeirra Karls og Ævars þar sem þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Hér hefur verið sagt frá lifnaðarháttum minks á Íslandi og hafa nokkur rök verið færð að því að hann sé ekki eins mikill skaðvaldur og margir ætla. Einnig hefur verið dregið í efa að núverandi veiðar hafi áhrif á stofnstærð minks. Til þess að öðlast þekkingu sem orðið gæti undirstaða skynsamlegrar ákvarðanatöku um minkaveiðar er frumskilyrði að framkvæmdar verði mun ítarlegri rannsóknir á mink heldur en hingað til hafa verið gerðar. Hérlendis hefur yfirleitt verið fjallað um mink í æsifréttastíl og oftast verið gefin heldur skökk mynd af lífsháttum hans. Stuðla þarf í framtíðinni að hlutlausari umfjöllun um mink heldur en verið hefur til þessa.``

    Þetta er álit þeirra og ráðlegg ég hv. alþm., og ekki síst þeim sem leggja til að við verjum verulegum fjármunum í að eyða ref og mink, að kynna sér 7. rit Landverndar um villt spendýr til þess að átta sig á að málið er ekki alveg eins einfalt og það lítur kannski út fyrir og að þessar skepnur eru ekki eins miklar skaðræðisskepnur og hingað til hefur verið látið í veðri vaka.
    Mér finnst ástæða til að líta á frv. hæstv. umhvrh. í þessu sambandi, það er að vísu ekki til umræðu hér en ég vil benda á að í frv. hans er gert ráð fyrir verndun þessara dýrategunda. Ég er ekki alveg sammála öllu því sem í því frv. kemur fram, en þar sem það er ekki á dagskrá hér hef ég ekki hugsað mér að gera það að umtalsefni en þykir hins vegar slæmt að við skulum ekki hafa tækifæri á þessu þingi til að ræða það frv. mjög ítarlega því að það er hið merkasta plagg að mörgu leyti. Það hefur verið nauðsynlegt í mörg ár að setja heildarlöggjöf um stofnstærð villtra landdýra á Íslandi. Það gerir ráð fyrir því. Í því er reyndar einnig tekið á stærð músa- og rottustofna hér á landi, en ég sé nú ekki neitt í þessu frv. sem kemur inn á það.
    Ég vil einungis, virðulegi forseti, áður en ég lýk við þessa grein benda á að þegar mink sérstaklega og e.t.v. ref líka hefur verið kennt um eyðingu ákveðinna dýrategunda, t.d. anda og má þar nefna æðarfuglinn sérstaklega, hefur svartbakurinn verið miklu meira skaðræði, en til að eyða svartbak er ekki hægt að mínu mati að beita þeim aðferðum sem hingað til hafa verið mest notaðar, þ.e. að skjóta hann eða eitra fyrir hann, heldur þarf að byrgja sorphauga þar sem þeir hafa aðallega náð fæðu og fiskúrgang til þess að hann komist ekki þar að því að svo lengi sem fuglinn hefur æti þá fjölgar honum.
    Í 28. gr. er ákvæði um að skerða framlag til Listskreytingasjóðs ríkisins. Þar er talað um að framlagið skuli ekki vera meira en 12 millj. kr. Ég minnist þess að við umræðuna um lánsfjárlögin á síðasta þingi gerðum við þingkonur Kvennalistans þetta einmitt að umtalsefni þar sem okkur þykir ekki eðlilegt að þarna sé skorið endalaust niður. Þá var þeirri fyrirspurn varpað fram til hæstv. fjmrh. hvernig væri með það listaverk sem ætti að koma upp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mér er kunnugt um að annað þeirra listaverka sem þar eiga að vera er komið upp en það er eftir að reisa þar eitt listaverk og ég hefði gjarnan viljað spyrjast fyrir um hvernig gengur með það og hvort þessi fjárhæð sem er ætluð til Listskreytingasjóðs ríkisins sé í einhverju samræmi við það sem þarf til þess að ríkið standi við það sem það á að gera. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég geri mér ekki grein fyrir hversu há upphæð hefði átt að fara í þennan lið, en þessi upphæð finnst mér vera ansi lítil og ég tel að þarna þurfi miklu meira til að koma.
    Ég minntist örlítið áðan á brtt. okkar þingkvenna Kvennalistans sem ég hafði ekki hugsað mér að gera frekar að umtalsefni en mig langar til að líta örlítið á brtt. sem komið hafa fram af hálfu meiri hl. fjh. - og

viðskn. Það er fyrsta brtt. sem er um það að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að kaupa björgunarþyrlu. Það er eitt af þeim málum sem mikið hefur verið rætt um hér í þinginu. Ég tel mjög nauðsynlegt að ráðist verði í kaup á björgunarþyrlu og hefur það margoft komið fram af hálfu okkar kvennalistakvenna. Teljum við og höfum reyndar margoft bent á að sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar sé að vel sé búið að sjómönnum í alla staði og öryggi þeirra tryggt eftir því sem kostur er. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur margsannað gildi sitt, bæði við björgun sjómanna við sjóslys og björgun á landi að ógleymdu mikilvægi hennar við sjúkraflutninga, bæði milli staða innan lands og frá skipum á hafi úti.
    Það er löngu ljóst og viðurkennt að ein þyrla af þeirri stærð sem nú er í eigu Landhelgisgæslunnar nægir ekki til að sinna því mikla hlutverki sem henni er ætlað. Hér á Alþingi var flutt fyrr á þessu þingi þáltill. þar sem skorað var á ríkisstjórnina að kaupa nýja björgunarþyrlu og var sú tillaga einróma samþykkt fyrir nokkrum dögum. Þegar sams konar tillaga var flutt á þinginu 1987 vann fulltrúi Kvennalistans í allshn. Sþ. ötullega að því að fá hana afgreidda, en þá vildi meiri hluti nefndarinnar vísa henni til ríkisstjórnarinnar. Þann 11. maí 1988 lýsti Alþingi vilja sínum um kaup á björgunarþyrlu, en þrátt fyrir þá samþykkt hafa þær ríkisstjórnir sem setið hafa ekki orðið við áskorun Alþingis um þyrlukaup og ekkert hefur verið aðhafst í málinu fyrr en nú.
    Við teljum rétt að ráðist verði í kaup á björgunarþyrlu eins og gert er ráð fyrir nú og höfum ekki viljað fallast á það að beðið verði eftir því að ágóði af happdrætti komi inn til þess að kaupa björgunarþyrluna og teljum miklu eðlilegra að sú leið verði valin sem meiri hluti Alþingis virðist nú vilja standa að og viljum lýsa því yfir að við munum styðja þessa brtt. og teljum óverjandi að ríkisstjórn og Alþingi víki sér undan að leggja fram nauðsynlegt fjármagn til þyrlukaupa. Þess vegna munum við að sjálfsögðu styðja þá brtt. sem þarna kemur fram.
    Í bréfi sem alþingismönnum barst frá Landssambandi hjálparsveita skáta og Landssambandi björgunarsveita, dags. 18. mars 1991, segir, með leyfi forseta:
    ,,Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita vilja benda alþingismönnum á eftirfarandi:
    Á Íslandi vinna björgunar - og hjálparsveitir mikið sjálfboðaliðastarf sem annars mundi lenda á ríkinu að kosta. Þannig spara sveitirnar ríkinu umtalsverðar upphæðir ár hvert. Hvergi annars staðar þar sem við þekkjum til gegna sjálfboðaliðasveitir jafnþýðingarmiklu hlutverki í almannavarna - og öryggiskerfi þjóðarinnar og hér á landi. Það er því ljóst að ríkið sleppur ákaflega vel fjárhagslega frá öryggis - og björgunarmálum og hvergi í Evrópu er hlutfallslega eytt lægri upphæð í almannavarnir en hér á landi. Það ætti því ekki að vera ríkinu ofviða að sjá til þess að í landinu séu fullkomnar björgunarþyrlur. Þetta ætti ríkið að geta gert án þess að skerða tekjustofna björgunar - og

hjálparsveita. Það er skelfileg staðreynd að dómsmrn., ríkisstjórnin og síðar Alþingi ætla að stela fjáröflunarhugmynd um sjóðshappdrætti sem frjáls félagasamtök þurfa að leggja fyrir þessa aðila til samþykktar. Þessi þjóðnýting á sér stað án nokkurs samráðs við þá sem áttu hugmyndina. Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita eru að sjálfsögðu hlynnt því að keypt verði til landsins fullkomin björgunarþyrla og þó fyrr hefði verið. Við getum hins vegar ekki sætt okkur við aðferðina sem nota á til fjáröflunarinnar.
    Við vonumst til þess að þú, hv. þm., sjáir til þess að framlagt frv. til sjóðshappdrættis nái ekki fram að ganga í óbreyttri mynd.``
    Undir þetta bréf skrifa fyrir hönd Landssambands hjálparsveita skáta Arnfinnur Jónsson og fyrir hönd Landssambands flugbjörgunarsveita Gunnar Bragason. Ég tek undir þetta og tel að það sé miklu eðlilegra að fara þessa leið sem hefur orðið ofan á. En mig langar í tilefni af þessu bréfi að gera að umtalsefni 10. brtt. á þskj. 1005 en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjmrh. heimilt að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita, svo og til mannúðar- og líknarstarfsemi. Jafnframt er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af rannsóknatækjum sem vísindastofnunum eru gefin eða eru keypt fyrir styrki.``
    Þetta, virðulegur forseti, tel ég mjög mikilvæga grein og styð hana mjög eindregið. Ég vil því vísa til þess sem hér kemur fram í því bréfi sem okkur var sent að björgunarsveitir vinna ómetanlegt sjálfboðaliðastarf og tel ég mjög mikilvægt að Alþingi sýni í verki að það virði það sem þar fer fram og veiti fjmrh. heimild til þess að fella niður og endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til björgunarsveita.
    Ég vona svo að fjmrh. noti þessa heimild þannig að þeir sem gefa björgunarsveitum tæki fái niðurfellingu á virðisaukaskatti vegna þeirra gjafa. Þetta þykir mér mjög mikilvægt, virðulegur forseti. Ég tók reyndar eftir að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafði flutt brtt. á þskj. 525 sem er einmitt um þetta ákvæði og sé ég að meiri hl. hv. fjh. - og viðskn. hefur tekið þá tillögu upp. Ég vil lýsa því hér yfir að ég mun styðja þessa tillögu þar sem mér þykir hún vera mjög mikilvæg til að styðja við bakið á björgunarsveitum.
    Mig langar aðeins að koma með eina fyrirspurn að því er varðar 3. brtt. á þskj. 1005, en það er heimild til að taka lán að fjárhæð 45 millj. kr. fyrir Djúpbátinn á Ísafirði. Mig langar til að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v. Pál Pétursson, sem ekki er hér, en e.t.v. getur fjmrh. leyst úr því, en mig langaði til að vita, hvort gerð hefur verið áætlun um það hversu miklar fjárhæðir þurfi að fara í hafnarframkvæmdir og breytingar á höfnum ef sú ferja sem þarna er talað um verði keypt. ( Fjmrh.: Svarið er nei.) Svarið er nei, segir hæstv. fjmrh. Það er gott að vita það, en mér þykir það mjög slæmt ef verið er að heimila kaup á bát upp á 45 millj. kr. ef ekki er athugað hversu

miklar fjárhæðir þarf að leggja í áframhaldandi aðgerðir til þess að hann geti síðan nýst. Ekki er ( FrS: A.m.k. 200 millj. 100 millj. á Ísafirði og 100 millj. í Djúpi.) Hér keppast menn um að svara fyrirspurnum mínum utan úr sal og upplýsist nú að það þurfi 200 millj. Ekki veit ég hvort á að taka þetta sem endanlegt svar, ekki var það fjmrh. sem svaraði. Fjmrh. heldur því fram að ekki sé búið að athuga þetta mál. Hv. 1. þm. Reykv. heldur því fram að þarna sé um 200 millj. kr. viðbót að ræða. Þetta þykir mér mjög slæmt að vita ekki um ef í því að samþykkja 45 millj. kr. framlag til Djúpbátsins á Ísafirði felst að í raun sé verið að samþykkja 200 millj. kr. framlag. Þetta finnst mér að verði að koma í ljós áður en ráðist er í svo miklar fjárfestingar.
    Þá kem ég að brtt. á þskj. 1006 en það eru brtt. frá þrem hv. þm. úr fjh. - og viðskn., þeim Páli Péturssyni, Ólafi Þ. Þórðarsyni og Jóni Sæmundi Sigurjónssyni. Þar er gert ráð fyrir að Landsvirkjun verði heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að taka að láni á árinu 1991 800 millj. kr. til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar og fimmta áfanga Kvíslaveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er. Línulögn hefur verið ákveðin og hönnuð fyrir þessa línu sem á að liggja frá Fljótsdalsvirkjun og fyrst norður til Akureyrar og svo suður. Þessari línu hefur verið valinn staður milli Herðubreiðartagla og Dyngjufjalla. Því miður var það gert án þess að Náttúruverndarráð mótmælti. Það féllst á það línustæði sem nú hefur verið valið. Þegar fólk fór að átta sig á því hvað þarna hefði gerst, m.a. fólk á Austurlandi, þá fóru að berast mótmæli við þetta línustæði. Ég var á ferð þarna í sumar og trúði ég varla því sem mér var sagt af því fólki sem þarna var að vinna, og m.a. landvörðum í Herðubreiðarlindum, sem bentu á hversu mikill skaði þessi lína mundi vera og hversu erfitt og nánast útilokað væri að líta á hálendið á þessum stað. Þar hafa margir orðið til þess að benda á að ferðaþjónustunni væri mikil hætta búin og er alveg útilokað fyrir okkur að reyna að telja fólki trú um að hér á Íslandi sé að finna frið og ró, óbyggða víðáttu og óspillta náttúru ef við ætlum að leyfa að í gegnum þessa náttúruperlu sem hálendið er verði sett þetta mikla mannvirki sem línan mun verða. Ég held að þetta sé hið mesta óráð og ferðaþjónustu, sem ég gerði að umtalsefni hér fyrr í ræðu minni, til tjóns. Þykir mér að þarna viti hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir ef annars vegar er verið að reyna að efla ferðaþjónustu og fegra ímynd landsins og auglýsa og síðan er verið að leggja í það að setja línuna þvert yfir hálendið, nánast án tillits til þess hvað þar er fyrir. Ég vil benda á að nú þegar er búið að byggja byggðalínu sem liggur frá Austurlandi og norður um og væri hægt að leggja þessa línu meðfram henni eða ekki langt frá henni og nýta vegamannvirki sem eru fyrir hendi til þess að ekki þurfi að spilla eins miklu og óneitanlega verður ef hún verður lögð þvert yfir hálendið.
    Á síðasta náttúruverndarþingi var samþykkt ályktun þess efnis að skorað var á Náttúruverndarráð að

endurskoða þessa afstöðu sína með tilliti til þess að reyna að fá þessu línustæði breytt og að horfið verði frá því að leggja þessa rafmagnslínu milli Herðubreiðartagla og Dyngjufjalla. Ég vona að eftir því verði farið og ég trúi ekki öðru en að stjórn Landsvirkjunar taki þetta mál til endurskoðunar og ákveði að línan verði lögð annars staðar en nú er ákveðið. Vona ég að tími gefist til að gera það, ekki síst vegna þess að ljóst er að veruleg seinkun verður á því að nokkuð verði samþykkt varðandi þetta álver og vonandi verður það aldrei gert, en ef af verður, þá þarf að endurskoða línustæðið. Þó svo að ekki verði af þessu álveri getur orðið um virkjanir að ræða í þágu annarra atvinnugreina og
þess vegna verður að passa það mjög vel þegar verið er að hanna mannvirki eins og t.d. línur að þær spilli ekki umhverfinu nema sem allra minnst. Auðvitað er aldrei hægt að komast hjá einhverri röskun en það verður að passa að hún sé í algeru lágmarki.
    Í þessari brtt. er gert ráð fyrir að það verði veitt lánsheimild upp á 800 millj. Eins og og segir orðrétt í tillögunni, með leyfi forseta: ,,Ákvörðun um þennan undirbúning og að nýta heimildir samkvæmt þessari mgr. skal tekin í ljósi framvindu samninga um álver á Keilisnesi.``
    Ég vil benda á að á 112. löggjafarþingi var samþykkt frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver o.fl. Í ákvæði II til bráðabirgða í því frv. var veitt heimild til að verja 300 millj. kr. á árinu 1990 til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar, fimmta áfanga Kvíslarveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægilegri raforku. Í athugasemdum við þessi ákvæði til bráðabirgða segir:
    ,,Ákvarðanir um þessar framkvæmdir og það að nýta þessar heimildir verða teknar í einstökum atriðum eftir því sem samningum um álver vindur fram.`` Þetta er orðalag sem kom fram þegar við ræddum um þetta frv. á síðasta þingi. Ég leyfi mér að benda á að miklar deilur urðu um þetta atriði á síðasta þingi og sýndist nú sitt hverjum. Þá var það einna helst Alþb. sem var með efasemdir um þessa lánsheimild og gerði ýmsa fyrirvara á akkúrat þessu ákveðna atriði. Í Þjóðviljanum birtist t.d. þann 10. apríl samþykkt þingflokks Alþb. um hugsanlega byggingu álvers í tilefni þess að verið var að ræða um þetta frv. hæstv. iðnrh. eða ríkisstjórnarinnar sem þá var komið fram. Langar mig til þess, virðulegi forseti, að fá að vitna í þessa samþykkt, en þar segir:
    ,,Þingflokkur Alþb. minnir á að enn eru engar forsendur fyrir hendi til að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um byggingu 200 þús. tonna álvers hér á landi. Meðan meginatriði væntanlegra samninga liggja ekki fyrir er tvímælalaust óhyggilegt að hefja virkjunarframkvæmdir, enda hlýtur það að veikja samningsstöðu Íslendinga að binda nokkur hundruð millj. kr. í nýjum virkjunarframkvæmdum án þess að orkuverð hafi verið ákveðið.`` Ég bendi á að þarna var einungis verið að tala um 300 millj. kr. framlag en

ekki 800 eins og núna. ,,Á þessu stigi málsins telur þingflokkur Alþb. brýnast að ríkisstjórnin marki þá stefnu að hugsanleg bygging þessa risafyrirtækis stuðli ekki að enn frekari byggðaröskun í landinu og þess vegna verði því valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt þarf að kanna betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar gætu sjálfir átt aðild að rekstrinum og tryggt forræði sitt á hagsmunum þannig að viðunandi sé.
    Þingflokkur Alþb. telur einsýnt að leita verði allra leiða til að efla atvinnulíf í landinu eftir nokkurra ára samdráttarskeið og telur sjálfsagt að kanna alla tiltæka kosti í því skyni. Jafnframt minnir þingflokkurinn á að auk byggðasjónarmiða hlýtur endanleg afstaða til nýrra stóriðjuframkvæmda að ráðast af því fyrst og fremst hvaða verð fæst fyrir orkuna, hvort iðjuverið greiðir skatta með eðlilegum hætti og lýtur íslenskum dómstólum og hvernig mengunarvörnum og umhverfisvernd verður háttað.``
    Þetta sagði þingflokkur Alþb. þegar verið var að ræða einmitt þetta frv. sem ég gerði hér að umtalsefni og þá ekki síst þessa 300 millj. kr. fjárveitingu sem átti að veita í orkuframkvæmdir án þess að nokkuð lægi fyrir hvort hægt væri að selja eitt einasta watt af þeirri orku sem átti að fara að virkja eða undirbúa.
    Það fór svo að þetta frv. var samþykkt í þinginu á síðasta vori og 300 millj. kr. samþykktar, en eins og ég sagði áðan, í ljósi framvindu samninga átti að afhenda þessa peninga. Síðan gerist það um mitt sl. sumar, sumarið 1990, að það þurfti að fara að nota eitthvað af peningunum. Þá kom þingflokkur Alþb. enn saman og samþykkti á fundi sínum að gefa heimild til þess að einn þriðji af fjárhæðinni, eða 100 millj. kr., færu í framkvæmdir. Og langar mig til, virðulegi forseti, að vitna í viðtal við hv. 4. þm. Suðurl. Margréti Frímannsdóttur, þingflokksformann Alþb., sem birtist í Þjóðviljanum 17. júlí árið 1990. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Alþb., segir Þjóðviljanum að þingflokkurinn hafi fyrir sitt leyti bundið lánsheimildina vissum skilyrðum. Því væri m.a. beint til ríkisstjórnarinnar að hún tæki á næstu dögum eða vikum ákvörðun um staðsetningu stóriðju utan höfuðborgarsvæðisins. Margrét sagði þingflokkinn einnig vísa til samþykktar sinnar frá 9. apríl þar sem gerð er sú krafa að nýtt álver verði reist utan höfuðborgarsvæðisins og það valdi ekki byggðaröskun.`` Það var þessi samþykkt sem ég vitnaði til áðan. Síðan segir Margrét orðrétt: ,,Áframhaldandi fjárveitingar til Landsvirkjunar eru þá bundnar því skilyrði að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins.`` Síðan segir í fréttinni: ,,Í samþykktinni frá því í gær er ekkert sagt um raforkuverð til væntanlegs álvers en Geir Gunnarsson hefur sagt að ekki eigi að koma til greina að samþykkja fjárveitingar til undirbúnings virkjana á meðan þau mál eru ófrágengin. Iðnrh. hefur sagt samningana við Atlantsálhópinn komna á lokastig og því ættu menn að fá að sjá þá samninga áður en samþykkt er að setja fjármagn í undirbúning. Að sögn

Margrétar er þingflokkurinn með samþykkt sinni að samþykkja að 100 millj. kr. yrðu settar í rannsóknir, hönnunarvinnu og hluta af þeirri vegagerð, en í samþykktinni væri þingflokkurinn ekki að heimila neitt annað fyrir sitt leyti.``
    Þetta var sagt þann 17. júlí árið 1990. Og hvað gerist svo? Jú, ég hef alla vega ekki séð nokkurn skapaðan hlut um það að þingflokkurinn hafi síðan sagt nokkuð um áframhaldandi fjárveitingu til þessarar byggingar. Er þá lítið hald í ákvæðinu eins og segir í brtt. á þskj. 1006 þar sem talað er um að ákvörðun um að nýta heimildir samkvæmt þessari mgr. skuli tekin í ljósi framvindu samninga um álver á Keilisnesi. Þetta þykir mér vera mjög máttlaust og skipta reyndar engu máli að því er séð verður þar sem ekkert hald virðist vera í þessu. Að því er best verður séð er haldið áfram að vinna og framkvæma langt fram yfir það sem heimildir segja. Síðan var í mörgum blöðum haft viðtal við bæði ráðherra Alþb. og aðra þingmenn og langar mig til að nota tækifærið og vitna í frétt sem birtist í Tímanum þann 18. júlí þar sem haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, landbrh. og samgrh. Þar segir reyndar orðrétt:
    ,,Að sögn Steingríms J. Sigfússonar landbúnaðar - og samgönguráðherra lítur hann svo á að Keilisnes tilheyri óumdeilanlega atvinnusókn höfuðborgarsvæðisins og suðvesturhornsins. Því er Keilisnes ekki inni í myndinni af hálfu Alþb.``
    Mér þykir menn aldeilis hafa breytt um skoðun. Fyrst er algert skilyrði: ekki álver á suðvesturhorninu og tekið stórt upp í sig. Það er ekki liðið ár, þá er búið að skipta um skoðun. Og það er merkilegt að fylgjast með Alþb. í öllu þessu máli.
    Það er forvitnilegt að vita hvenær Alþb. veitti heimild til þess að verja þessum 200 millj. sem á vantar og með hvaða skilyrðum. Það hefur ekkert komið fram og þætti mér vænt um að það kæmi hér fram þar sem mér er kunnugt um að einn hv. þm. Alþb. á mælendaskrá mun væntanlega mæla fyrir tillögu sinni, sem ég á eftir að gera að umtalsefni hér á eftir. Það vekur ekki bara athygli að þessi 200 millj. heimild virtist vera veitt einhvers staðar í laumi. Miðað við allt það fjölmiðlafár sem varð út af þessum 100 millj. var einkennilegt að ekki yrði deilt um það þegar 200 millj. voru veittar í viðbót. Það vekur líka athygli að á þskj. 723 í svari iðnrh. við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um undirbúning vegna álbræðslu, þar sem spurt er hversu miklu fjármagni Landsvirkjun hafi þegar varið til einstakra þátta eða ákveðið ráðstöfun á til undirbúnings virkjana og stofnlína á grundvelli heimildar í lögum nr. 72/1990, sem ég hef gert að umtalsefni, kemur fram að Landsvirkjun hefur ekki aðeins varið þessum 300 millj. kr. heldur hefur farið fram úr áætlun. Þar segir, með leyfi forseta, þar sem talað er um að 367 millj. hafi verið varið til þessara undirbúningsvirkjana:
    ,,Framangreind heildarfjárhæð nemur um 330 millj. kr. á verðlagi hvers tíma og er það nokkru hærri fjárhæð en heimiluð var í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 74/1990, um breytingu á lögum um raforkuver, en

ráðuneytið vísaði að sjálfsögðu til þess ákvæðis er það veitti heimild fyrir framkvæmdum 17. júlí 1990.``
    Þarna er því greinilegt að farið er verulega fram úr þeirri heimild sem veitt var hér á Alþingi. Ég minnist þess að ákveðinn fræðslustjóri norður í landi var rekinn úr starfi fyrir það að hafa farið fram úr heimildum á fjárlögum og langar mig til að vita hvort hæstv. fjmrh. ætlar að vera með einhverjar ráðstafanir varðandi það að þarna hefur greinilega verið farið verulega fram úr heimildum. Þykir mér það mjög alvarlegt brot að fara tæpar 70 millj. fram úr áætlun, eins og þarna er, og er það ekki lítið.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. Ragnar Arnalds leggur fram viðbótarbrtt. við brtt. á þskj. 1006 sem er á þskj. 1008. Þar leggur þingmaðurinn til að ekki sé einungis miðað við að heimildirnar skuli nýttar í ljósi framvindu samninga, heldur er bætt við: Enda liggi fyrir fyrirvaralaus raforkusamningur. Mér þykir alveg sjálfsagt að ef á annað borð er verið að samþykkja heimild í lánsfjárlögum eins og þessa, þá sé auðvitað þetta skilyrði inni, þ.e. að fyrir liggi fyrirvaralaus raforkusamningur. Ég tel fráleitt að vera að hefja framkvæmdir upp á 800 millj. kr. án þess að nokkuð sé fast í hendi um það hvort það komi nokkurn tíma aur í ríkiskassann eða alla vega ekki á þessari öld og ekki fyrr en á næstu öld og hvort við getum nokkuð selt þá raforku sem á að fjárfesta þarna í. ( Forseti: Nú vill forseti spyrja hv. þm. hvort þingmaðurinn sé reiðubúinn til að fresta ræðu sinni um óákveðinn tíma.) Já, ef forseti óskar, þá get ég gert það. ( Forseti: Já, forseti óskar eftir því að ræðunni sé frestað.) Já, ég mun verða við því.