Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vera langorður í umræðum um þetta mál en það er sorglegt til þess að vita að þær rannsóknir sem voru gerðar á loðnustofninum fyrir meira en ári síðan skuli ekki hafa verið teknar gildar. Þá á ég við að Hafrannsóknastofnun sjálf tók ekki mark á þeim rannsóknum sem hún hafði sjálf látið fara fram fyrir ári síðan. Þeir hafa því ekki treyst eigin rannsóknum. Ég spyr því af hverju eigum við þá að treysta þeim núna ef þeir treysta ekki þeim niðurstöðum sem þeir komust að fyrir heilu ári? Þá gáfu þeir í skyn við okkur nefndarmenn í sjútvn. að það væri óhætt að veiða allt að eina milljón tonna af loðnu og þorskurinn æti allt að eina milljón tonna og svo áttu svona mörg hundruð þúsund tonn að hrygna. Svo koma þeir til okkar níu mánuðum seinna og segja að það finnist engin loðna. Það finnist ekki nema um 300 þús. tonn. Þá spyr maður hvað þorskurinn eigi að éta og hvar eru allar þessar rannsóknir staddar? Mér finnst þetta bara fáránlegt. Hringlandahátturinn er svo mikill að maður á ekki orð.
    Í framhaldi af þessari raunasögu kemur hæstv. sjútvrh. og ætlar nú að fórna Hagræðingarsjóði sem var kominn hér í gegnum þingið fyrir ári síðan. Þá eru allt í einu öll rök hans, eins og hjá Hafrannsóknastofnun, dottin um sjálf sig og þá er hægt að fórna Hagræðingarsjóði sem lá svo voðalega mikið á að koma í gegn því það átti að hjálpa ákveðnum aðilum sem fóru illa út úr kvótakerfinu, en nú er það ekkert nauðsynlegt lengur. Nú á bara að hjálpa loðnubátunum.
    Þetta er allt saman hálfgerð raunasaga. Mér finnst að ef einhver þyrfti á hjálp að halda þá sé það hæstv. ráðherra sem lætur hringla svona með sig fram og aftur.
    Ég hef persónulega ekkert á móti því að þetta frv. sé samþykkt en ætla að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna eiginlega í mótmælaskyni við allan þennan botnlausa hringlandahátt. Ég verð að segja að það hefur verið frekar ömurlegt að horfa upp á þetta og sýnir okkur að niðurstaðan af þessu er náttúrlega sú að það er ljósara en nokkru sinni fyrr að arðsömustu framkvæmdir sem við getum sett fjármagn í á Íslandi eru auknar hafrannsóknir. Með meiri rannsóknum ættu væntanlega niðurstöðurnar að verða það áreiðanlegar að menn taki mark á sjálfum sér.