Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er rætt, frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum, er stórt mál sem tengist þeim samdrætti í loðnuveiðum sem er staðreynd á yfirstandandi vertíð og því undirbjó hæstv. sjútvrh. frv. til laga sem ekki tókst samstaða um í þingflokkum að lagt yrði fram sem stjfrv. en er þó flutt af ráðherranum sem er ráðherra í ríkisstjórn landsins og kom þannig fram hér fyrr á þinginu og hefur verið til meðferðar í hv. Ed. þingsins.
    Hæstv. sjútvrh. gerir ráð fyrir því samkvæmt sínu frv. að hann fái heimild til þess að ákveða með reglugerð að aflaheimildum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða I í lögum frá 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, skuli ráðstafað að hluta eða öllu leyti til þeirra skipa sem aflahlutdeild hafa af loðnu til að mæta tímabundnum tekjumissi vegna aflabrests. Ráðherrann á að skipta þessum heimildum milli einstakra loðnuskipa og er við þá skiptingu m.a. heimilt að miða við aflahlutdeild skipanna af loðnu og hver afli þeirra af loðnu var á haustvertíðinni 1990.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því í þessu frv. ráðherrans að honum sé heimilt að auka leyfðan heildarafla á úthafsrækju umfram það sem ákveðið hefur verið með reglugerð frá nóv. 1990 um fiskveiðar í atvinnuskyni og þrátt fyrir ákvæði laga frá 1990 um stjórn fiskveiða verði heimilt með reglugerð að ákveða að þessi viðbót skiptist eingöngu milli þeirra skipa sem aflahlutdeild hafa af loðnu.
    Þetta eru meginefnisatriðin í frv. hæstv. sjútvrh. varðandi viðbrögð vegna aflabrests í loðnuveiðum. Um þetta mál var mikið rætt og mikið deilt í hv. Ed. þingsins en þar var samþykkt í meginatriðum að að þessu máli yrði staðið með svipuðum hætti og hæstv. ráðherra hafði lagt til og brtt. sem fluttar voru við málið náðu ekki fram að ganga. Skoðanir voru skiptar í flokkum um þetta en hæstv. sjútvrh. mun hafa hlotið m.a. tilskrift frá stjórnarandstöðu til þess að fá þetta mál lögfest, eða réttara sagt að fá frv. samþykkt í Ed. þingsins.
    Nú er þetta komið til Nd. og hér hefur verið mælt fyrir málinu við 2. umr. og hv. formaður sjútvn. stendur að þessu máli og mælir með samþykkt frv. eins og það kemur frá Ed. En fjórir hv. þingdeildarmenn leggja fram brtt. á þskj. 995 um þetta mál og gera þar ráð fyrir verulegum breytingum á frv. frá því sem fyrir liggur og taka fram í fyrstu brtt. sinni af þremur að ráðherra sé heimilt að auka leyfðan heildarafla af úthafsrækju umfram það sem ákveðið hefur verið með reglugerð og úthluta þeim viðbótarafla til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Stjórn sjóðsins ráðstafi þessum aflaheimildum með sölu til þeirra skipa sem leyfi hafa til úthafsrækjuveiða.
    Þarna er þetta ekki bundið við skip sem stundað hafa loðnuveiðar og þarna er gert ráð fyrir að þessum afla sé ráðstafað í gegnum Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Í öðru lagi gera þessir hv. fjórir þingdeildarmenn tillögu um það að við bætist ákvæði til bráðabirgða í

lögin um stjórn fiskveiða þess efnis að söluandvirði veiðiheimilda á árinu 1991 verði ráðstafað á því ári til að mæta tímabundnum tekju- og atvinnumissi vegna aflabrests á loðnuveiðum samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Sem sagt að söluandvirði þessara heimilda verði ráðstafað til að mæta tímabundnum tekju- og atvinnumissi og ráðherrann eigi að setja reglur um þá úthlutun.
    Það kemur fram mikið traust á hæstv. sjútvrh. í þessum tillögum en mér finnst kannski dálítið langt gengið með þessari tillögu þeirra fjórmenninga.
    Í þriðja lagi gera þeir ráð fyrir því að enn bætist við ákvæði til bráðabirgða þess efnis að sjútvrh. skuli ekki beita ákvæði 9. gr. laga um skerðingu á bolfiskafla fiskiskipa í því skyni að flytja aflamagn á bolfiski frá skipum sem hafa aflahlutdeild á botnfiski yfir til skipa með aflahlutdeild á loðnu, þ.e. þeir ganga þarna gegn megintillögu hæstv. sjútvrh. í frv. hans um að hluta af aflaheimildum Hagræðingarsjóðs verði ráðstafað til loðnuveiðiskipa. Hér er lagt til að svo verði ekki og ber hér mikið á milli tillagna þessara hv. þm. og frv. sem hæstv. ráðherra flutti og fengið hefur samþykkt í Ed. þingsins.
    Þá liggur hér í þriðja lagi fyrir tillaga frá hv. þm. Kvennalistans sem mun vera samhljóða tillögu sem flutt var í Ed. og gerir ráð fyrir því að sjútvrh. sé heimilt að ákveða með reglugerð að allt að 6.000 þorskígildislestum af aflaheimildum samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um stjórn fiskveiða skuli ráðstafað án endurgjalds til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir beinum tekjumissi vegna aflabrests á loðnu og ráðherrann skipti þessum heimildum í ákveðnu hlutfalli milli sveitarfélaga sem miðist við meðaltal landaðrar loðnu í viðkomandi sveitarfélagi sl. þrjú ár. Þarna er einnig kveðið á um það að skylt skuli að landa þeim afla, sem úthlutað er samkvæmt þessari heimild, til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi um Hagræðingarsjóð og vísað til ákvæðis í lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og þetta eigi þá að ganga í gegnum hann. Einnig að sveitarstjórnir, sem fái úthlutað aflaheimildum samkvæmt greininni, skuli við ráðstöfun þeirra til skipa setja skilyrði sem miða að því að tryggja starfsfólki loðnuverksmiðja atvinnu við vinnslu aflans.
    Mér sýnist að mörgu leyti að það séu skynsamlegar tillögur sem hér koma fram af hálfu Kvennalistans í sambandi við málið, alveg sérstaklega það að það sé tryggt að þær aflaheimildir sem veittar yrðu í gegnum Hagræðingarsjóð komi til nota í viðkomandi sveitarfélagi út frá ákveðnum sjónarmiðum og afla undanfarinna þriggja ára, þannig að það kæmi þá einnig örugglega því verkafólki til góða sem unnið hefur við eða sveitarfélagi til góða þar sem slík vinnsla hefur farið fram.
    Ég tel að það beri að líta á þessi efni sem hér liggja fyrir í tengslum við þær heimildir sem verið er að gera tillögur um í frv. til lánsfjárlaga, sem rætt var hér fyrr á þessum fundi, þar sem fram koma ýmsar ráðstafanir til þess að bregðast við vanda loðnuverksmiðja sérstaklega og sveitarfélaga sem byggt hafa

verulega afkomu sína á loðnuveiðum. Ég tel að þegar litið er til þeirra tillagna sem þar liggja fyrir, hvort sem þær verða nú samþykktar eða ekki. Ég veit ekkert hvernig gengur hér með afgreiðslu mála í þinginu því það er verið að þvæla saman hér í bandormi í frv. til lánsfjárlaga alóskyldum málum sem mjög skiptar skoðanir eru um og hlýtur auðvitað að setja afgreiðslu mála í algjöra óvissu hér í þinginu á þeim stutta tíma sem virðist eiga að taka til að fjalla um þessi mál. Engu að síður leyfi ég mér að líta á þetta í samhengi, það sem lagt er til í frv. til lánsfjárlaga um þessi mál. Kannski eru menn reiðubúnir að taka eitthvað út úr og leysa upp bandorminn og taka á einstökum liðum hans. Þegar tekið er tillit til þeirra tillagna og þess sem hér liggur fyrir þá gæti ég sem best staðið að því að samþykkja þetta frv. sem hæstv. sjútvrh. bar upphaflega fram en hef þó tilhneigingu til þess að líta á þær tillögur sem þingflokkur Kvennalistans hefur hér lagt til sem brtt. vegna þess að mér sýnist að þar sé skynsamleg hugsun á bak við. En ég er ekki hlynntur þeim tillögum sem fyrir liggja frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um þetta efni ásamt þremur öðrum þingdeildarmönnum. Mér sýnist það ekki stefna í rétta átt í sambandi við þessi mál.
    Við verðum að hafa í huga þegar á þetta er litið að það er gert ráð fyrir því í lögum um stjórn fiskveiða að hægt sé að bregðast við aflabresti í sérveiðum, sem svo eru kallaðar, þar á meðal í loðnuveiðum, með því að flytja til aflaheimildir frá öðrum veiðum yfir í sérveiðar. Það er í rauninni á þeirri hugsun og þeim heimildum sem hæstv. ráðherra reisir sinn tillöguflutning hér. Ég tel að þegar svo mikill brestur verður hjá ákveðnum hluta flotans, sem er loðnuveiðiskipin, þá sé mjög eðlilegt að það sé litið á þau mál með hliðsjón af þessum ákvæðum sem voru liður í málamiðlun þegar lögin voru sett um stjórn fiskveiða. Það er jú svo að það hefur verið haldið heldur illa á málefnum þessa hluta flotans á undanförnum árum. Þegar lög hafa verið sett um stjórn fiskveiða hefur verið tekið verulega af þeim heimildum sem loðnuveiðiflotinn hafði til botnfiskveiða fyrr á árum og gat brúað bilið þegar sveiflur voru uppi með þeim hætti. Nú hafa þær heimildir að mestu verið felldar niður. Það hefði, má segja, verið auðvitað skynsamlegt að byggja upp sérstakan verðmiðlunarsjóð eða sjóð sem gerði kleift að mæta sveiflum og áföllum í loðnuveiðunum sérstaklega en það hefur nú ekki verið gert þannig að menn hafa ekki upp á slíkt að hlaupa. Þess vegna er mjög eðlilegt að það sé reynt að taka á vanda þessa hluta flotans jafnhliða því sem auðvitað er skylt að líta á aðra þætti þessa máls eins og reynt er að gera að nokkru leyti með þeim heimildum sem verið er að taka inn í þann bandorm sem hér liggur fyrir undir nafninu frv. til lánsfjárlaga og rætt er á þessum fundi og, eins og ég gat um, þar sem verið er að fjalla um hin óskyldustu efni og afla heimilda þar að lútandi.
    Þetta eru í stuttu máli, virðulegur forseti, meginviðhorf mín til þessa máls sem hér liggur fyrir. Ég mun líta til þeirra brtt. sem liggja fyrir á þskj. 988 og

eru breytingar við 1. gr. Ég er andvígur þeim brtt. sem liggja fyrir á þskj. 995. Ég mun eftir atvikum styðja framgang málsins eins og það liggur hér fyrir og var afgreitt frá Ed. á þskj. 777, nú komið til Nd., og geri ráð fyrir því að stefnt sé að því að afgreiða þetta mál frá þinginu á þeim stutta tíma sem hér virðist ætlaður til þingstarfa. Hér er verið að fjalla um nokkuð stórt mál sem varðar marga og verulega hagsmuni og því leyfði ég mér að ræða þetta mál hér og lýsa mínum viðhorfum.