Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 18. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að því er varðar það húsnæðislánakerfi sem komið var á fót árið 1986. Með þessu frv. er tekið á þeim vanda sem skapast hefur varðandi fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og margoft hefur verið vakin athygli á.
    Kveðið er á um breytt hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins þar sem hann mun eftirleiðis aðeins vera með takmarkaðar lánveitingar til sérstakra hópa og annast þau lán sem veitt hafa verið. Ákvæði um samninga við lífeyrissjóði til tveggja ára falla niður þar sem það er ekki lengur nauðsynlegt. Núgildandi lánaflokkar Byggingarsjóðs ríkisins að þremur undanskildum eru felldir niður, haldið er opinni leið til að ákveða nýja lánaflokka. Þá er fjallað sérstaklega um þá lánaflokka sem eftir standa, sem eru lán til stofnana fyrir börn og aldraða, lán til einstaklinga með sérþarfir og lán og styrkir vegna tækninýjunga, en nánar verður fjallað um þessa lánaflokka í reglugerð.
    Kveðið er á um það að lánsréttur falli brott og enn fremur að lán til nýrra og notaðra íbúða
falli brott og er það í samræmi við að 12. gr. laganna falli niður. Lagt er til að sú breyting verði gerð á lánskjörum að ríkisstjórninni verði heimilt að ákveða að vaxtakjör breytist á lánum er nýir eigendur íbúða yfirtaka þau sem áhvílandi lán.
    Í ákvæðum til bráðabirgða er tekið sérstaklega á málum þeirra umsækjenda sem eru í biðröð og hafa fengið lánsloforð eða bíða eftir þeim. Þeir sem þegar hafa fengið lánsloforð fá sín lán afgreidd en þeir sem ekki hafa fengið staðfestingu á greiðslu láns þurfa hins vegar að staðfesta umsóknir sínar skriflega innan þriggja mánaða frá tilkynningu þess efnis frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. en legg til að að lokinni umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. félmn.