Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 18. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins við 1. umr. þessa máls segja örfá orð. Þetta frv. kemur frá Ed. og þar hafði fulltrúi Kvennalistans í félmn. gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins.
    Ég vil taka það fram að ég er í meginatriðum sammála því sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að hætta að taka við umsóknum um húsnæðislán skv. lögum nr. 54/1986. Ég tel að það sé mjög óheppilegt að vera með mörg kerfi í gangi í einu. Ég tel óheppilegt að verið sé bæði með þetta svokallaða húsbréfakerfi og kerfið frá 1986. Með því er ég ekki að segja að mér hafi fundist það kerfi vera ómögulegt með öllu. Það kerfi var tekið upp eftir mikil samráð og var því miður of lítið rætt hér í þinginu. Þó bentu fulltrúar Kvennalistans sem þá voru á þingi á það strax við meðferð málsins árið 1986 að nauðsynlegt væri að tryggja þessu kerfi fjármagn. Fljótlega kom í ljós eftir að farið var að lána eftir þessu kerfi að stefna mundi í gjaldþrot sjóðanna því framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðanna var í engu samræmi við þörfina. Lán til húsbyggjenda voru veitt á 3,5% vöxtum, en sjóðurinn var fjármagnaður með lántökum frá lífeyrissjóðunum þar sem vextirnir voru 6 -- 7%. Það hljóta náttúrlega allir að sjá að þegar framlag ríkisins er ekki fyrir þessum mismun þá keyrir kerfið í strand og auðvitað varð það raunin. Og nú er vandi byggingarsjóðanna orðinn svo gífurlegur að eitthvað verður til bragðs að taka.
    Það er þó alveg ljóst að það er fullt af fólki sem nú hefur sótt um lán til Húsnæðisstofnunar eftir þessu kerfi, 1986 - kerfi svokallaða, sem á rétt á lánum samkvæmt lögum. Ekki er hægt að láta þessa breytingu á lögunum virka þannig að þeim sem hafa fengið lánsloforð sé skyndilega tilkynnt að þeir fái ekki lán. Þess vegna hlýtur að þurfa ákveðið fé til þess að standa við það sem nú þegar hefur verið lofað og langar mig til að spyrja hvort áætlað hafi verið hversu mikið þarf til þess að koma til móts við þá sem nú þegar eru með óafgreidd lán innan þessa kerfis.
    Mér þykir eðlilegt að nú strax við 1. umr. fáist svar við þessu vegna þess að það hlýtur að vera eðlilegt að fá að vita hve mikið þarf til þess að hægt sé að koma til móts við það fólk sem bíður eftir að fá lán.
    Það hefur komið fram að lífeyrissjóðirnir hafa haldið að sér höndum við skuldabréfakaup hjá Húsnæðisstofnun og m.a. hafa þeir frekar beint kaupum sínum að húsbréfum. Þar af leiðandi hefur verið skortur á fé til að veita lán úr þessu kerfi og langar mig því til að leggja fram þá spurningu hvernig þetta sé hugsað. Hvernig er hugsað að standa að þeirri breytingu að hætta í þessu kerfi og taka eingöngu upp húsbréfakerfið?
    Mér þykir leitt og vont að fá þetta frv. svo seint fram þannig að ekki er hægt að vinna þetta mál vel, en ég vænti þess að hv. félmn. leiti svara við þeim spurningum sem ég hef nú reitt fram og e.t.v. hefur ráðherrann svör við þeim nú þegar en mér þykir

nauðsynlegt að fá þau til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess hvort rétt sé staðið að þeirri leið sem er lögð til í frv. Treysti ég mér ekki til þess að lýsa því yfir hvort ég muni geta stutt þetta frv. eins og það er núna. Í fljótu bragði finnst mér vera of margir óvissuþættir til þess að hægt sé að segja af eða á hvernig hægt er að afgreiða þetta frv. En auðvitað er eftir að vinna þetta mál í nefnd og kemur þá væntanlega í ljós hvernig ætlunin er að standa að því að loka þessu svokallaða 1986 - kerfi.