Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 18. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það liggur mikið við á síðustu dögum þingsins, síðustu klukkustundum þessa kjörtímabils að afmá húsnæðislánakerfið frá 1986, sem komið var á í stjórnartíð Framsfl. fyrir fimm árum, þó þeir hafi að vísu ekki staðið einir að því. Ég man ekki betur en að það séu örfáar vikur síðan að gerð var sérstök ályktun á flokksþingi Framsfl. um að þessu kerfi skyldi ekki lokað, um að þetta frv. sem nú er flutt skyldi ekki flutt og um að Framsfl. mætti ekki og ætti ekki að greiða fyrir því að það næði fram að ganga. Auðvitað hefur nú komið á daginn að sú ályktun var marklaus og það er búið að kúga Framsfl. til að láta undan og víkja frá þeirri stefnu sem samþykkt var að mig minnir með öllum atkvæðum á flokksþingi á Hótel Sögu nú í febrúar, í síðasta mánuði, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Var það á sl. hausti? Já, það getur hafa verið í nóvember, ég biðst afsökunar á því, það var víst á sl. hausti.
    En hvað felst í þessu frv.? Það var ekki mikið að græða á ræðu hæstv. ráðherra sem flutt var hér áðan um það efni. Ekki var verið að útskýra málið í smáatriðum í þeirri ræðu eins og þó er skylt að gera þegar flókin mál eru lögð fyrir deildina. En það sem á að gera með þessu frv. er að það á að leggja niður ekki bara lánakerfið frá 1986 eins og því er lýst í 12. gr. núgildandi laga --- þá grein á að vísu að fella brott úr lögunum, en líka margar aðrar greinar og marga kafla úr lögunum. Það á að fella brott heilu kaflana úr lögunum, eins og kaflann um lán til byggingar leiguíbúða eða heimila fyrir aldraða og dagvistarstofnana fyrir börn og aldraða, kaflann um lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu íbúðarhúsnæði, kaflann um sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir, kaflann um lán til orkusparandi breytinga á húsnæði, kaflann um lán til tækninýjunga í byggingariðnaði og loks kaflann um lán til viðurkenndra framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Hér er verið að fella brott eina sex kafla úr þessum lögum og sex lánaflokka sýnist mér af þeim sem lánað hefur verið til úr Byggingarsjóði ríkisins um margra ára skeið. Það er náttúrlega ætlunin að loka þessum sjóði og láta hann hætta starfsemi sinni. Í staðinn eiga að koma húsbréf sem í dag bera 7,5 -- 7,7% raunávöxtun gagnvart þeim sem taka lánin þegar allt er talið, afföll og annað, þó svo að nafnverð þeirra bréfa sé 6%, og lánstíminn er 25 ár í stað þeirra 43 sem hefur verið í kerfinu frá 1986.
    Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að megingalli húsnæðiskerfisins frá 1986 var sá að þar var reynt að gera of mikið fyrir of marga samtímis. Hins vegar er það líka staðreynd, eins og hv. 1. þm. Vesturl., sá félmrh. sem kom þessu kerfi í lög, hefur bent á, að það hefur ekki beinlínis verið hlaðið undir þetta kerfi af núverandi valdamönnum. Og það hefur ekki beinlínis verið fjáraustur úr ríkissjóði í Byggingarsjóð ríkisins sl. fjögur ár. En það var forsenda á sínum tíma fyrir því að þetta gæti gengið að Byggingarsjóður ríkisins fengi sem svaraði einum milljarði kr. á

verðlagi ársins 1986 á ári hverju. Allir vita hvað orðið hefur um þau fyrirheit og þær forsendur og ástæðulaust að fara mörgum orðum um það hér.
    Því hefur lengi verið haldið fram af hálfu Seðlabankans að húsnæðislánakerfið hafi á undanförnum árum verið þensluvaldur í efnahagslífinu og skal ég ekki andmæla því. En hitt er líka ljóst að sú breyting sem lögð er til með þessu kerfi mun ekki ráða úrslitum í því efni því húsbréfakerfið er líka fjárfrekt kerfi og í því eru ekki heldur neinar takmarkanir eða sjálfvirkar hömlur sem geta spornað gegn eftirspurn nema þá að sjálfsögðu verðið á bréfunum, með öðrum orðum afföllin sem þau verða að sæta á markaðnum.
    Í þessu frv. er sú nýbreytni að heimilað verði að mismuna fólki eftir því hvort það hafi keypt íbúð nýlega eða áður vegna þess að það er stungið upp á því í þessu frv. að ríkisstjórnin fái heimild til að breyta vöxtum á eldri lánum við eigendaskipti, væntanlega til þess að hækka vextina. Ég leyfi mér að efast um að slík framkvæmd geti staðist. Það hefur verið skilningur manna að heimild ríkisstjórnarinnar til að breyta vöxtum á þegar teknum lánum gilti fyrir hvern og einn lánaflokk og eitt væri þá látið yfir alla ganga í því efni. En að ætla að fara að velja úr með þeim hætti sem hér er lagt til er að sjálfsögðu mjög hæpið og vafasamt að mínum dómi að fái staðist. En í 14. gr. frv. segir eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða breytt vaxtakjör á láni við aðilaskipti til samræmis við almenn vaxtakjör samkvæmt nánari ákvörðun hennar.`` Ég leyfi mér að gera athugasemd við þessa málsgrein.
    Það sem er að gerast við framlagningu þessa frv. er að núv. ríkisstjórn og núv. hæstv. félmrh. eru að viðurkenna uppgjöf sína í þessum málum. Það hefur verið margbent á það allt frá árinu 1987 þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd að það þyrfti að grípa til ráðstafana varðandi málefni þessara sjóða, til að mynda að því er varðaði vexti á útlánum. En hæstv. félmrh. hefur allan tímann streist gegn því að taka slíka ákvörðun vitandi það að sú ákvörðun væri væntanlega óvinsæl og það var ekki fyrr en í desemberbyrjun 1989 sem ákvörðun var tekin um að hækka vexti á útlánum en þó þannig að það var einungis á nýjum lánum. Íbúðir í sama húsi með lánum annars vegar frá því fyrir 5. des. 1989 og hins vegar frá því eftir 5. des. 1989 hafa ólíkt markaðsverð vegna þess að á þeim hvíla lán frá Byggingarsjóði ríkisins með mismunandi kjörum. Og nú er boðið upp á frekari mismunun í þessu efni með því að bjóða fólki upp á að þegar íbúðir ganga kaupum og sölum skuli vöxtum á byggingarsjóðslánum breytt, en bara á þeim lánum.
    Þær skýrslur sem fram hafa komið um þessi málefni á undanförnum mánuðum og missirum eru nú orðnar a.m.k. þrjár. Það hefur legið fyrir í langan tíma að það þyrfti að taka á fjárhagsvanda byggingarsjóðanna, reyndar beggja, ekki bara ríkisins, en það hefur verið trassað. Hver ber ábyrgðina á því? Að sjálfsögðu ráðherra þessa málaflokks, hæstv. félmrh., sem

hefur trassað það í bráðum fjögur ár að taka á þessu tiltekna vandamáli. En það vantar ekki að hæstv. félmrh. hafi beitt sér fyrir ýmsum öðrum aðgerðum. Það vantar ekki. Eins og til að mynda því frv. sem hér var til umræðu í morgun og hlaut afgreiðslu í deildinni við 2. umr. Og það vantar ekki að hæstv. ráðherra hafi flutt frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þau eru nú orðin fimm bara á þessu þingi, en að meðaltali tvö til þrjú á ári hverju á undanförnum árum. En það hefur bara ekki verið tekið á þessum tiltekna vanda sem er sú fjárhagsstaða sem við blasir í þessum sjóðum báðum og sem hefur, ef eitthvað er, versnað frá því að skýrslur um þetta efni komu fram, t.d. á síðasta sumri. Hún hefur versnað sú staða. Þó byggingarsjóðurinn sé ekki gjaldþrota, því hann á 15 milljarða króna í eignum, þá gengur hratt á þann höfuðstól á næstu árum að öllu óbreyttu.
    En þetta frv. hér mun ekki breyta miklu í sambandi við það vegna þess að byggingarsjóðurinn er lokaður. Hann tekur ekki á sig nýjar skuldbindingar eins og sakir standa. Það er líka vegna þess að honum hefur ekki verið tryggt neitt fjármagn til þess. Það vita allir að ekki hafa verið veitt lánsloforð í þessu kerfi frá 1986 mánuðum saman. Ég man reyndar ekki hvenær var lokað, ætli það séu ekki orðin tvö ár, ráðherrann man það kannski betur en ég. Það út af fyrir sig breytir ekki miklu hvort þetta frv. verður að lögum nú á þessum degi eða á morgun eða eftir að ný ríkisstjórn verður tekin við, ríkisstjórn sem getur áttað sig á þessum málum í heild sinni. Því þó svo að það eigi að loka byggingarsjóðnum þá á samt greinilega að skilja eftir skuldbindingar handa næstu stjórn, samkvæmt þessum ákvæðum til bráðabirgða. Ekki liggur ljóst fyrir hvað þær skuldbindingar kosta. Það er líka svo, eins og oft hefur verið bent á, að í hinu nýja kerfi sem á að taka við, húsbréfakerfinu, sem er auðvitað fyrir margra hluta sakir hentugt kerfi og þjónar hagsmunum ýmissa aðila ágætlega, þá er það engu að síður ljóst . . . (Gripið fram í.) Já, það er alveg rétt, hv. þm., og á þetta bentum við ég held báðir þegar þetta var til umræðu í þessari deild fyrir tveimur árum síðan. Það er hins vegar ljóst að þeir sem eru að reyna að afla sér húsnæðis í fyrsta sinn og hafa ekki allt of mikinn höfuðstól til að byrja með lenda í erfiðleikum. Það er mikil skuldbinding að taka á sig á unga aldri 25 ára lán með 6% raunvöxtum eins og húsbréfalánin eru að nafnvirði og borga af því í 25 ár. Það er mikil skuldbinding og umhugsunarefni fyrir ungt fólk að taka á sig slíkar byrðar, fyrir utan þau áhrif sem afföllin hafa á markaðsverð þeirrar eignar sem verið er að kaupa. Ég fullyrði, hvað sem þrástagast er á því, að á endanum er það sá sem hlýtur lánið sem greiðir þau afföll þó það komi ekki fram á bréfunum. Félmrh. hefur margsagt það að greiðslur í húsbréfakerfinu jafngildi staðgreiðslu. Þá ætti auðvitað að koma þar fram einhver staðgreiðsluafsláttur sem viðkomandi ætti að fá en það hefur ekki gerst. Verðið er óbreytt eða svo til óbreytt vegna þess að menn eru að bæta sér upp afföllin með því að hirða staðgreiðsluafsláttinn sem ella hefði átt að vera.

Þar með er það auðvitað sá sem tekur þetta húsbréfalán sem stendur undir þeim og fer á mis við staðgreiðsluafslátt sem ella væri og tíðkast í öllum viðskiptum miðað við núvirði greiðslunnar. Það sem eftir stendur í þessu er að mínum dómi það að ekki er séð nægilega vel fyrir hagsmunum þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn.
    Í því kerfi sem var tekið upp 1987, og fékk nú ekki að starfa í friði nema eitt ár, voru teknar upp svokallaðar húsnæðisbætur. Þær voru hugsaðar fyrir þá sem voru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn eingöngu og ekki aðra og fólk átti að fá þann styrk í sex ár eftir að það keypti sér sína fyrstu íbúð. Síðan komu spekingar ríkisstjórnarinnar og sögðu: Það eru engin tekju- eða eignamörk í þessu, þetta getur auðvitað ekki gengið, það verða auðvitað að vera einhver tekju- og eignamörk í svona húsnæðisbótum því ella koma auðkýfingarnir og byrja að hagnýta sér þetta. En ég spyr: Eru það einhverjir sérstakir auðkýfingar almennt séð á Íslandi sem eru að kaupa sér sína fyrstu íbúð? Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað er það upp til hópa unga fólkið sem er á fasteignamarkaðnum í fyrsta sinn sem naut þessara bóta. Og allt tal um að það hafi verið gífurleg breyting úr ranglæti yfir í réttlæti að hverfa frá húsnæðisbótum yfir í hinar tekju- og eignatengdu vaxtabætur er meira og minna út í bláinn. Í vaxtabótakerfinu geta menn auðvitað makað krókinn, ef svo mætti segja, ævilangt bara ef þeir skulda og borga vexti. Þar er auðvitað á ferðinni hít sem ekki sér fyrir endann á og hygg ég bæði fjmrh. og aðrir sem glíma við ríkisfjármál mættu gjarnan gefa því gaum hvað þessar vaxtabætur eiga eftir að kosta óbreyttar þegar fram í sækir. En þær voru fylgifiskur húsbréfakerfisins á sínum tíma eins og menn muna.
    Það væri auðvitað hægt að tala hér langt mál, virðulegi forseti, um þetta frv. þó það láti ekki mikið yfir sér og þó svo að hæstv. ráðherra hafi ekki séð ástæðu til að tefja tímann með því að gera ítarlega grein fyrir málinu. Ég ætla að geyma mér það, herra forseti, að tala um þetta frv. langt mál, mun gera það ef ég sé ástæðu til eftir að hafa farið betur ofan í saumana á þessu frv. Ég átti reyndar ekki von á því að reynt yrði að afgreiða þetta frv. á þessum síðustu klukkutímum kjörtímabilsins, líka vegna þess að lánakerfið er lokað og samhengi frv. breytir praktískt séð engu og getur þess vegna vel beðið í nokkrar vikur þangað til þing kemur saman aftur, ekki síst ef það er hugmynd manna að kalla saman þing í vor á nýjan leik. En ég áskil mér rétt til þess að fara í saumana á þessu máli. Ég vil ekki útiloka að það geti komið til greina að loka lánakerfinu frá 1986 úr því sem komið er, miðað við hvernig þessum málum hefur verið skipað undanfarin örfá ár. Og auðvitað má segja að það séu viss rök að það sé óskynsamlegt að hafa í gangi fleiri en eitt lánakerfi. En ég hygg að það sé óhjákvæmilegt, hvort sem það verður gert með brtt. við þetta frv. eða með öðrum hætti, að taka upp á nýjan leik sérstaka fyrirgreiðslu við þá sem eru að eignast húsnæði í fyrsta sinn, kaupa eða byggja í

fyrsta sinn. Það er unga fólkið á Íslandi sem þar er um að ræða að stærstum hluta.
    Ég skal ekki láta þetta verða lengra að sinni, herra forseti. Það er auðvitað margt sem kemur upp í hugann í sambandi við þessi mál, húsbréfakerfið, bankakerfið og fleira, en ég geymi mér frekari umfjöllun á þessu stigi í trausti þess að forseti ljái mér orðið á nýjan leik ef ég kýs að óska þess.