Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994. Ég vil þakka hv. formanni fjvn. fyrir málsútlistun hans svo og hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vesturl. fyrir þeirra hlut að þessum málum. Og ég vil nota tækifærið hér í upphafi máls míns til að þakka öllum þessum ágætu mönnum og ágæta fólki í fjvn. fyrir mjög gott samstarf, svo og þeim sem til okkar hafa komið, sérstaklega vegagerðarmönnum.
    Það segir hér í upphafi nál. að fjvn. hafi lokið umfjöllun sinni um vegáætlun fyrir þessi ár sem ég nefndi og að sú umfjöllun hafi verið með hefðbundnum hætti. Þetta þýðir að sjálfsögðu að við fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni höfum lagt okkur fram um að vinna vel að þessu máli eða vinna vel úr þessu máli án þess þó að ráða ferðinni í öllum greinum. Þetta vil ég taka sérstaklega fram því að mínum dómi er ýmislegt í þessu máli öðruvísi en ég hefði helst kosið svo sem ég mun nánar víkja að hér í örfáum orðum. Þess vegna hef ég, ásamt þeim mönnum sem ég nefndi, undirritað þetta nál. með fyrirvara.
    Ég ætla ekki að eyða löngum tíma og ekki að fjalla nákvæmlega um brtt. þær sem gerðar eru og fjallað er um á þskj. 960, enda er sú raunin á eins og yfirleitt áður að við þessar tillögur, eins og þær koma frá stjórn vegamála, eru tiltölulega litlar breytingar gerðar. En þó hefur þessu verið haggað á nokkrum stöðum.
    Það hefur líka lítillega verið fjallað um till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð en þar sem hún er ekki hér á dagskrá sérstaklega mun ég ekki nefna hana að öðru leyti en því að fjvn. athugaði þær tillögur. Það er svokölluð frumyfirferð um þau mál. Náttúrlega eru ýmsar tölur úr þeirri langtímaáætlun og ýmsar athuganir kunnar, bæði fjárveitinganefndarmönnum og öðrum hv. þm., en vegna þess að ég tel að það hafi töluvert þokast áleiðis í þessum málum, þá ætla ég að leyfa mér að bera saman og rifja upp í örfáum orðum helstu áhugamál í Vesturlandskjördæmi vegna þess að það eru ekki einungis mál okkar þingmanna Vesturlands heldur allrar þjóðarinnar að mínum dómi.
    Þá vil ég geta þess í upphafi að ég álít að það hafi helst áunnist í þeim málum sem héraðsnefndir okkar á Vesturlandi, áður sýslunefndir, og samtök sveitarfélaga hafa lagt áherslu á því að það er nokkuð góð samstaða í þessum málum.
    Enn vil ég nefna, eins og raunar er alkunna, að á Vesturlandi eru þýðingarmestu samgöngurnar á landi. Því er uppbygging vegakerfisins í kjördæminu eitt brýnasta hagsmunamál byggðanna. Aðaláherslur í vegaframkvæmdum á Vesturlandi eru að mati okkar þessar sem ég vil nú aðeins nefna:
    Í fyrsta lagi að komið verði á tengingu byggðarlaganna á norðanverðu Snæfellsnesi með lagningu bundins slitlags frá Ólafsvík til Búðardals. Á þessu máli tel ég að allvel hafi verið tekið nema það þarf að leggja enn þá meiri áherslu á veginn frá Stykkishólmi um Álftafjörð inn í Búðardal og um Skógarströndina sem seint og snemma hefur verið vanrækt í samgöngumálum. Þá verði ráðist í brúargerð yfir Gilsfjörð og það verkefni fjármagnað á sérstakan hátt úr Stórverkefnasjóði sem ég mun nánar koma inn á síðar.
    Þá er í þessum tillögum á því þskj. sem ég nefndi áðan vikið að uppbyggingu vega í uppsveitum Borgarfjarðar og tel ég að það sé mjög tímabært og hafi raunar of lengi beðið.
    Hér fyrr á dagskránni í dag var rætt um undirbúning vegtengingar um utanverðan Hvalfjörð og samþykkt gerð í því máli sem öllum er í fersku minni og ræði ég það ekki frekar.
    Þá verður á næstu árum unnið áfram samkvæmt vegáætlun að lagfæringum á vegi um Fróðárheiði, einnig Kerlingarskarðsvegi, athuguð leiðin um Vatnaheiði og svo að sjálfsögðu unnið að endurbótum vegar um Heydal og Bröttubrekku. Og á næstu árum verður tekið til við að ljúka veginum um Mýrar, þ.e. á árunum 1992 og 1993 sem allt of lengi hefur beðið. Og almennt má að sjálfsögðu orða það svo að á þeim svæðum þar sem ekki er fyrirsjáanlegt að vegir verði lagðir bundnu slitlagi sé lögð rík áhersla á styrkingu þeirra og að snjóþungir staðir verði lagfærðir.
    Ég ætla svo að víkja að einu máli í lokin. Það er raunar mál sem hv. 1. þm. Vesturl. nefndi í lok ræðu sinnar, en það er vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð.
    Áformuð vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð hefur vissulega nálgast framkvæmdastig til mikilla muna við umfjöllun fjvn. undanfarna daga og vikur. Samkvæmt fyrstu drögum að langtímaáætlun má segja að þessi fyrirhugaða stórframkvæmd í samgöngu - og byggðamálum hafi verið hulin bláma fjarlægðarinnar. Eins og fram hefur komið hefur Alþingi veitt fé til rannsókna og undirbúnings þessa verkefnis árlega frá 1985. Óteljandi samþykktir, undirskriftalistar og yfirlýsingar eru til staðar af hálfu heimamanna við Gilsfjörð í tveimur kjördæmum og heimamenn hafa sinn eftir sinn hlustað á og móttekið hátíðlegar yfirlýsingar og loforð þingmanna sinna og annarra ráðamanna í þessu máli. Um alllangt skeið hefur viljayfirlýsing af þessu tagi verið orðuð á þá leið að hafist verði handa í Gilsfirði umsvifalaust að lokinni Dýrafjarðarbrú, en henni lýkur að mestu á þessu ári, eða vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð hefjist af fullum krafti vorið 1992, eins og segir í till. til þál. frá hv. 1. þm. Vestf. og greinir nánar um það á þskj. 24, en það er 24. mál þessa þings.
    Samkvæmt þessu er sýnilegt að þrátt fyrir öll þessi faguryrði, ákveðin og ótvíræð, verður að hopa eitthvað frá settu marki í þessu efni miðað við allar aðstæður og eins og áformin voru í okkar huga, áhugamanna um þetta mál. Að vísu er fyrsta fjárveiting til þessa stórverkefnis ákveðin árið 1993 samkvæmt vegáætlun næstu fjögurra ára eins og hún lítur nú út eftir þessa umræðu og fjármögnun í þessu skyni á að ljúka á öðru tímabili svokölluðu.
    Ég vil því leyfa mér að marka afstöðu mína ákveðið til þessa máls á sama veg og ég hef gert í hv. fjvn. að viðstöddum æðstu valdamönnum Vegagerðar ríkisins skýrt og greinilega núna á undanförnum dögum. Og hún er svofelld:
    1. Allt verkið verði boðið út ekki síðar en á árinu 1993.
    2. Verkið verði unnið eigi síðar en á árinu 1994 og lokið á árinu 1995. Gott er ef vegagerð þessi getur gengið hraðar.
    Til þess að þetta umrædda mál megi ná fram að ganga með þessum hætti þarf að sjálfsögðu að afla fjár að láni á meðan á framkvæmdinni stendur, svo sem venja er þegar um slík stórvirki er að ræða. Hygg ég að lánsfjáröflun í þessu skyni verði tiltölulega auðveld þar sem fjölmargir landsmenn hafa áhuga á þessu máli og segja megi að öll þjóðin styðji einhuga raunhæfar og skynsamlegar umbætur í samgöngu - og byggðamálum.