Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er var vegáætlun fyrir árin 1989 -- 1992 samþykkt samhljóða á Alþingi árið 1989. Voru framkvæmdaáform fyrir árin 1990 -- 1992 þar viðunandi. Síðan skar núv. ríkisstjórn fé til vegamála verulega niður fyrir árið 1990 þrátt fyrir samhljóða samþykktir Alþingis. Til stendur af hálfu stjórnarliða að skera mikið til viðbótar fyrir þetta ár með vegáætlun þeirri sem nú er verið að afgreiða. Það blæs því ekki byrlega fyrir framkvæmdum í vegamálum.
    Með þessari vegáætlun sem senn verður samþykkt frá stjórnarliðum fyrir árin 1991 -- 1994 er enn vegið í sama knérunn, að draga úr fé til framkvæmda. En á sama tíma er bætt við miklum verkefnum í jarðgangagerð sem eru vissulega góðra gjalda verð fyrir þá landshluta er þarna eiga að njóta og ég styð. En til þess að hefjast handa um svo mikla jarðgangagerð þurfti nýtt fjármagn til þess að draga ekki úr öðrum nauðsynlegum framkvæmdum, brúarframkvæmdum, slitlögum, að byggja vegi upp úr snjó og viðhaldi malarvega. Jarðgangagerðin hlýtur að koma niður á þessum framkvæmdum ef ekki kemur til aukið fjármagn. Þarna brestur hæstv. ríkisstjórn dug.
    Ég vil þessu næst víkja að framkvæmdum í Suðurlandskjördæmi. Brýnustu aðgerðir þar eru í brúamálum. Það þarf að tryggja að Markarfljótsbrú verði tekin í notkun snemma árs 1992. Nú er fyrirhugað að veita auknu fjármagni til verklegra framkvæmda í landinu samkvæmt orðum fjmrh. og ef af verður er þess að vænta hvað Suðurland snertir að viðbótarfjármagn komi til að hraða framkvæmdum við uppbyggingu vega og varnargarða að brúnni auk nauðsynlegra hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn vegna þilplötuverksmiðju. Göngubrú á Ölfusá hjá Selfossi hefði þurft að verða tilbúin á þessu ári. Bæði er þörfin mikil og 100 ára afmæli brúar yfir ána og afmæli kaupstaðarins knýr á að brúargerð verði lokið á þessum tímamótum. Brú yfir Kúðafljót þarf að byggjast á eftir Markarfljótsbrú og á eftir henni brú yfir Hvítá vestan Flúða. Brú yfir Kúðafljót er samkvæmt áætlun ekki fyrr en 1995 en brú yfir Hvítá er ekki nefnd í langtímaáætlun. Ég vil þakka hv. formanni fjvn. að minnast á nauðsyn hennar í ræðu sinni hér áðan, en það var samkvæmt ósk þingmanna Suðurlands að hún yrði nefnd þótt í því sé raunar lítið hald nema næsta ríkisstjórn taki til hendinni í fjárveitingum til vegamála.
    Þá vantar á Suðurlandi eins og víðar stóraukin slitlög og viðhaldi malarvega er ábótavant. Þá má og minna á ályktun Alþingis um ljós yfir Hellisheiði. Einnig má minna á veg vestur með ströndinni frá Þorlákshöfn og breikkun Suðurlandsvegar yfir Hellisheiði. Verkefnin eru því ærin í vegagerð á Suðurlandi en til þess að framkvæma þarf fjármagn.
    Í þessu sambandi vil ég minna á þáltill. frá mér og hv. þm. Hreggviði Jónssyni sem liggur fyrir Aþingi og er svohljóðandi:
    ,,Till. til þál. um könnun á fjárveitingum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á því hvort ákvæði um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins eða önnur ákvæði heimili fjárveitingar til bættra samgangna, vega, stórbrúa og jarðgangagerðar sem nauðsynlegs hluta varnarkerfis landsins. Jafnframt verði kannað hvort fordæmi eru fyrir fjárveitingum í öðrum ríkjum bandalagsins til samgangna, fjarskipta og flugvallargerðar af hálfu þess.``
    Ekki lítur út fyrir að þessi till. verði samþykkt á þessu þingi en það verður eitthvað stórt að fara að koma til í fjármagnsútvegun þannig að stórauknar framkvæmdir geti hafist í vegamálum til að stöðva byggðaflóttann.