Þingsályktunartillögur
Mánudaginn 18. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna þessara orða hv. 1. þm. Reykv. þá telur forseti að um þessa tillögu skuli fara eins og aðrar þingsályktunartillögur. Forseti fær ekki séð að tillagan, sem er um það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að lækka húshitunarkostnað á Íslandi þar sem hann er hæstur, eins og þar segir, geti talist fjalla um stjórnskipun, utanríkis - eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasaminga. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi verið að tala um hvort hér væri um stjórnskipun að ræða. ( FrS: Framkvæmdaáætlun.) Framkvæmdaáætlun. Forseti er fús til að bera þetta mál undir embættismenn þingsins og taka til þess tvær mínútur, en forseti telur að hér sé ekki um raunverulega framkvæmdaáætlun að ræða. En ef hv. þm. vilja veita tveggja mínútna hlé, þá skal ég fúslega athuga þetta.