Þingsályktunartillögur
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Mér er þetta ekkert sérstakt kappsmál. Ég vildi bara fá úrskurð um þetta efni. Það eru auðvitað til aðrar leiðir samkvæmt þingsköpum til þess að fara fram á það að menn tali lengur. Hér er um að ræða, og ég vek athygli hæstv. forseta á því, skýrslu nefndar sem hefur lokið störfum og langsamlega stærstur hluti framlagðs þskj. er skýrsla nefndarinnar. Þetta er aðeins að litlum hluta til þáltill. Það er auðvitað hægt skv. 28. gr. 3. mgr. að óska eftir því við hæstv. forseta að afbrigði verði veitt. Ef hæstv. forseti úrskurðar það að hér sé um venjulega þáltill. að ræða, þá fellst ég auðvitað fúslega á það, því það þýðir að þessi tillaga er einungis venjuleg þáltill., en ekki gert ráð fyrir því að henni sé fylgt eftir eins og hverri annarri framkvæmdaáætlun sem auðvitað rýrir gildi tillögunnar verulega.