Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni málefni sem, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, hefur lengi verið á dagskrá og stefnuskrá margra ríkisstjórna. Þegar þessi hæstv. ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum var það eitt helsta mál hennar að stefna að jöfnun raforkukostnaðar. Nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka kemur í ljós að það situr ekki annað eftir þessa hæstv. ríkisstjórn en það að leggja fram á Alþingi, rétt fyrir þinglok, till. um að næsta ríkisstjórn skuli aðhafast eitthvað í málinu. Í raun og veru er hér um að ræða málalyktir sem eru mjög í stíl við annað sem hæstv. ríkisstjórn skilur við sig. Rétt fyrir kosningar er komið með stefnumarkandi till. og sagt að á næstu árum eigi að leysa þetta mál, rétt eins og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki hugmund um að kosið verður innan tíðar og eftir kosningar koma nýjar ríkisstjórnir sem auðvitað hljóta að bera ábyrgð á sínum gerðum þá.
    Eins og fram kemur í þessari skýrslu, en að stofni til er hér um að ræða skýrslu, þá gera fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni fyrirvara. Fyrirvarinn er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur haft langan tíma til að gera ráðstafanir til lækkunar orkuverðs án þess að hafast nokkuð að þrátt fyrir skýrar yfirlýsingar í stjórnarsáttmála. Nefndin hóf störf í byrjun október 1990 og gerði fjvn. grein fyrir verksviði sínu og áætlunum um kostnað vegna hugmynda sem þá lágu fyrir. Engu nýju fé var varið til viðfangsefnisins á fjárlögum né á annan hátt. Úrlausn þessa máls er því vísað til næstu ríkisstjórnar.
    Fyrirvari okkar lýtur einnig að einstökum efnisatriðum í till. meiri hl. nefndarinnar.`` Það eru einmitt þær till. sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert að sínum og leggur hér fram í þingsályktunartillöguformi.
    Þess ber að geta að því miður fylgdist ég ekki nægilega með ræðu hv. 3. þm. Vesturl., sem var formaður nefndarinnar, til að vita hvort hann gerði grein fyrir því í sínu máli að fleiri nefndarmenn höfðu fyrirvara um ýmis efnisatriði þessarar þáltill. Ef grannt er skoðað kemur því í ljós að það er ekki full samstaða, ekki einu sinni meðal meiri hlutans, sem stendur að till. án almenns fyrirvara, um öll þau atriði sem koma fram í þáltill. Það skiptir út af fyrir sig ekki máli héðan af. Till. er allt of seint fram komin og þýðir ekki annað en það að nefndin, sem starfaði undir ágætri stjórn hv. 3. þm. Vesturl., skilar verki hér í þinglok, í lok kjörtímabilsins, og fer þess náðarsamlegast á leit við næstu ríkisstjórn að hún geri eitthvað í þessum málum.
    Ef ég aðeins, virðulegur forseti, drep á nokkur atriði till. þá er ljóst að meginstefnuatriðið kemur fram í 1. tillgr. Þar er sett fram það stefnumið að húshitunarkostnaður hjá þeim sem nú greiða einna hæst, lækki um þriðjung. Þetta er auðvitað stefnumið sem er gott og gilt en kostar fjármuni og það er einmitt það sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur sést yfir því að hún hefur nánast ekkert eða mjög lítið gert til þess að lækka húshitunarkostnað. Þegar minnst er á húshitunarkostnaðinn tel ég þó rétt að það komi fram að ég tel til bóta að það standi í till. að um sé að ræða lækkun húshitunarkostnaðar en ekki jöfnun á orkuverði. Orðið jöfnun á orkuverði gæti bent til þess að það væri í huga hæstv. ráðherra og meiri hl. nefndarinnar að hækka verð á
orku til þeirra sem greiða minna og borga þannig niður með þeim hætti orkuna til hinna, en það er ekki ætlunin samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir.
    Það hlýtur að vera óeðlilegt sem kemur fram í 2. tölul. tillögunnar að Alþingi beini því til þingkjörinna fulltrúa að þeir aðhafist eitthvað og eitthvað. Nú er það svo að það eru þingflokkar sem tilnefna menn sem kjörnir eru af Alþingi í stjórn hinna ýmsu stofnana og auðvitað þarf enga þáltill. til þess að Alþingi álykti með þessum hætti því að þingflokkarnir geta auðvitað einir og sér beint þessum tilmælum til sinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar. Eins og mjög ítarlega kemur fram í þessari skýrslu er Landsvirkjun eign annarra aðila en ríkisins og þess vegna er erfitt fyrir ríkið að taka einhliða ákvarðanir sem snerta fyrirtækið allt.
    Í 3. liðnum er farið fram á það að greiddar verði 35 millj. kr. af niðurgreiðslufé á síðari hluta ársins. Með öðrum orðum, næsta ríkisstjórn á að vinna það verk sem stungið er upp á af þessari hæstv. ríkisstjórn að gert verði.
    Í fjórða lagi er um það að ræða að láta fara fram úttekt og vil ég ekkert nema gott um það segja. Það er áreiðanlega hollt að gera slíkar úttektir af og til.
    Í fimmta lagi er um að ræða sjálfsagðan hlut. Það er að fjmrh. beiti sér fyrir ráðstöfunum til að aðstoða hitaveitur. Slíkt hefur verið gert um árabil og m.a. þegar ég sat í iðnrn. var staðið að slíku og það hefur verið gert fyrir þann tíma einnig.
    Loks er stungið upp á því í sjötta lagi að ef Landsvirkjun kemur til með að þurfa að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttindi megi láta hluta af þeim fjármunum koma til verðjöfnunar á innlendri orku.
    Virðulegi forseti. Eins og ég vissi er heldur lítill tími til að ræða mikið mál. Ég spurðist fyrir um það í þingskapaumræðu fyrr í dag hvort gæfist tími til að ræða þessa skýrslu og þessa áætlun með einhverjum viðhlítandi hætti. Það kemur auðvitað í ljós að það er ekki hægt. Það rýrir mjög gildi tillögunnar, enda er hér ekki um framkvæmdatillögu að ræða. Það kemur spánskt fyrir sjónir að í áliti sem nefnd um skipulag Byggðastofnunar skilaði af sér er byggt á allt, allt öðrum tillögum en hér er gert og sýnir í raun tvöfeldnina og tvískinnunginn í þessum málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Að lokum það sem ég hef ítrekað: Þar sem ég hef ekki tíma til að ræða efnisatriðin vil ég taka það fram að þessi tillaga gengur út á það að næsta ríkisstjórn skuli gera það sem í henni stendur.
    Það væri vissulega ástæða fyrir hv. nefnd að fara ofan í þessa skýrslu og ofan í þessar tillögur. Ég veit að hv. nefnd gerir það en það þýðir að sjálfsögðu, sem hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir, að málið

verður því miður ekki afgreitt á þessu þingi.