Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þáltill. um lækkun húshitunarkostnaðar og mætti út af fyrir sig fagna því að málið er hér á þessu stigi, en því miður er ekki ný aðferð hér á hv. Alþingi að menn hafi samþykkt þáltill. Menn hafa samþykkt harðorðar yfirlýsingar um jöfnun orkukostnaðar og lækkun á húshitunarkostnaði sérstaklega. Á undanförnum þingum hafa verið færð sterk rök fyrir nauðsyn á þessu og við sem erum með lappirnar beggja megin í ódýrara orkuverðinu og í dýra orkuverðinu, þekkjum þetta og skiljum miklu betur og e.t.v. sterkar þau rök og þær kvartanir sem okkar fólk í kjördæmunum, sem býr við hæsta orkuverð á landinu, hefur fram að færa. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að menn séu orðnir óþolinmóðir yfir því að það skuli ekki vera hægt að finna flöt á svo einföldu máli. Og ég verð að segja það eins og er að þetta hefur verið eitt mesta baráttumál landsbyggðarfólks í fjölda ára og það hefur gengið svo langt að þegar hæstv. forsrh. flutti stefnuræðu sína hér á hinu háa Alþingi á sl. hausti sagði hann: Hversu lengi er hægt að draga það að jafna út orkuverðið svo það verði það sama á öllu landinu hliðstætt bensíni og olíu, mjólk og mjólkurvörum o.s.frv.? Þetta ætti því að vera tiltölulega einfalt mál að gera þetta, svo sjálfsagt sem það er. En því miður hefur þetta ekki tekist á undanförnum árum, hvað mikið sem hefur verið talað hér og heitstrengt að ná þessu markmiði. Menn hafa gjarnan horft á Landsvirkjun sem það fyrirtæki sem hefur allt í hendi sér, eins og menn gjarnan segja.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég verð fyrir vonbrigðum af starfi þessarar ágætu nefndar sem er búin að leggja mikla vinnu í þetta mál og ég átti satt að segja von á allt annarri niðurstöðu. Við afgreiðslu fjárlaga í vetur var þetta mál á dagskrá. M.a. kom nefndin á okkar fund og ég reiknaði satt að segja með því að það kæmu ákveðin úrræði frá þessari nefnd sem væru beinlínis beinharðir peningar því að það hefði alveg eins verið hægt fyrir hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnina að leggja til við fjvn. að 35 millj. kr. yrði varið á árinu 1991 til þess að greiða niður eða lækka upphitunarverðið. En hér er þetta sett þannig fram að ég a.m.k. skil það þannig að hér sé bara verið að færa á milli niðurgreiðslufé. Það er verið að hækka vöruverðið til þess að geta lækkað á síðari hluta ársins hluta af verði upphitunarkostnaðar. Við notum ekki sömu peningana tvisvar í þessu tilfelli. Þetta er alveg augljós skýring. Mér finnst þetta ekki góður kostur og ég verð að segja að ég átti von á miklu, miklu meiru, ákveðnari tillögum frá þessari nefnd þó markmiðin út af fyrir sig séu ágæt. Ég get fallist á það að þetta sé gert á næstu tveimur árum. En þau nást ekki nema einhverjir peningar séu til.
    Ég sé ekki almennilega hvernig þetta getur haldið áfram og mér finnst líka óeðlilegt og eiginlega marklaust hjal að segja að Alþingi beini því til þingkjörinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar að þeir á þeim vettvangi beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum til lækkunar á heildsöluverði raforku til hitunar á íbúðarhúsnæði. Þeir eru ekki skyldugir að gera það, þessir fulltrúar. Þeir hafa ekki þá skyldu. Mér finnst þetta vera ákaflega slappt. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita það, ef hæstv. iðnrh. hefur það í sínum gögnum, af því að talað er um í 6. lið að því fé sem Landsvirkjun kann í framtíðinni að verða gert að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttindi yrði að hluta varið til verðjöfnunar á innlendri orku, hvað hefur Landsvirkjun greitt til þessa fyrir virkjunarrétt sem þegar liggur fyrir og hún er búin að hafa í fjölda, fjölda ára? Hvað ætli það séu miklir peningar? Ég er hræddur um að það sé ekki stór upphæð. Hér þyrfti að vera miklu sterkar að orði kveðið. Og hvað um jöfnun á lækkun orkuverðs í almennum rekstri, í atvinnurekstri t.d. sem er nú ekki síður kvartað yfir við okkur þingmenn úti á landi? Þeir sem eru að basla við að reka iðnfyrirtæki og frystihús o.s.frv. kvarta yfir þessu háa orkuverði.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að ræða hér langt mál um þessa till. Ég verð fyrir vonbrigðum, ég segi það hreint út. Ég hef sjálfur gefið miklar yfirlýsingar um það að skilja ekki við þetta mál öðruvísi en það komist í höfn. Þingflokkurinn, ég tala nú ekki um stefnu Framsfl. sem alltaf hefur verið með þetta á oddinum en aldrei komist lengra en þetta, en þingflokkurinn samþykkti í vetur þáltill. sem er hér heitt mál um nýtt orkuver og nýja stóriðju o.s.frv. og þá átti ekki að gefa heimild í lánsfjárlögum nema því aðeins að þetta mál væri leyst samhliða. Þetta er ekki lausn á málinu. Það þarf enga þáltill. til þess. Ríkisstjórnin hefði getað ákveðið að taka 35 millj. af niðurgreiðslum á vöruverði og skella þeim bara í upphitun. Ég vissi ekki að það þyrfti neina sérstaka þáltill. til þess. Þetta ætti að vera þá skylt, samanber ef við erum að tala um olíu og mjólk og mjólkurvörur o.s.frv. að það væri eðlilegt að það væri á sama verði. Ég segi það aftur og enn að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að þetta skyldi ekki koma fram í öðruvísi búningi en hér sést.
    Í þær upplýsingar sem maður hefur verið að hlera eftir í starfi þessarar nefndar lagði ég þá merkingu að það væri miklu meira að vænta en hér hefur komið fram. Þetta eru í sjálfu sér ágætir punktar, en það er allt eftir að koma fram hvað þeir gefa, því miður.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þetta fái aðeins meiri umfjöllun í nefnd þó tíminn sé horfinn. Ég skil að það er þörf á því að láta þessa þáltill. ná samþykki hér á Alþingi og reyna að koma henni fram sem litlu spori í því sem við erum allir sammála um. En ég verð því miður að endurtaka að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þetta og tel að þessar 35 millj. hefði verið hægt að leysa bæði í gegnum fjárlög, ef tilmæli hefðu komið um það frá ríkisstjórninni sem við fengum ekki, og eins að það mætti gera þetta með einfaldri tilskipun á annan hátt.