Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Sú till. til þál. sem hér er á dagskrá er byggð á hugmyndum sem kynntar voru í skýrslu frá nefnd þeirri sem hæstv. iðnrh. skipaði þann 1. nóv. sl. til þess að fjalla um lækkun orkukostnaðar. Skýrsla frá nefndinni var send iðnrh. og þar komu fram frá meiri hl. nefndarinnar þær hugmyndir sem kynntar eru í þessari þáltill. en sumir nefndarmanna höfðu fyrirvara varðandi þetta mál eins og hér hefur verið greint frá.
    Tillaga sú sem hér liggur fyrir er aðeins stefnuyfirlýsing. Alþingi hefur áður kynnt stefnu sína í þessum málaflokki og hvað eftir annað hefur Alþingi afgreitt ályktanir um aðgerðir í þessum efnum, enda er mikill vilji hjá stjórnmálaflokkunum að grípa til aðgerða í þessu efni og þetta er eitt af þeim málum sem brenna hvað harðast á ýmsum íbúum landsbyggðarinnar. En ég varð ekkert undrandi þótt hv. 1. þm. Vesturl. yrði fyrir vonbrigðum vegna þess að hér er einungis stefnuyfirlýsing. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn telji sig þurfa að ítreka yfirlýsingu sína í stjórnarsáttmála þegar hún hóf starf sitt með því að birta þá stefnuyfirlýsingu líka í lok síns ferils án þess að hafast að.
    Hér sagði einhver ræðumaður að brýnt væri að þessi tillaga næði fram að ganga. Ég tel að það sé viðurhlutamikið að halda svo á þessu máli að verið sé að vekja vonir hjá fólki án þess að gripið sé til aðgerða. Þessi tillaga felur í sér að það er ekki gripið til aðgerða, aðeins endurtekin stefnuyfirlýsing eða tillaga um stefnuyfirlýsingu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og Alþingis. Það var ekki að furða þó hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir segði hér áðan að hún vonaðist til þess að næsta ríkisstjórn mundi finna lausn. Það er það sem í þessu felst.
    Hér hefur verið gripið á efnisatriðum þessarar tillögu, ef tillögu skal kalla. Það má segja að það sé eins konar form þáltill. sem fram kemur í 1. tölul. Annað er á verksviði ráðherra í flestum tilvikum. Það er á verksviði hæstv. ráðherra að fara fram á það við Landsvirkjun að taka tiltekin málefni til athugunar. Það er á verksviði hæstv. ráðherra að athuga og láta gera úttekt á fjárhagsstöðu hitaveitna og það er á verksviði ráðherra, í því tilliti kannski hæstv. fjmrh., að kynna tillögur sem gætu orðið til að tryggja hitaveitunum aðstoð.
    Það er hins vegar líka á verksviði ríkisstjórnar að leggja fram tillögu í fjáraukalögum, ef ekki fjárlögum, um að breyta niðurgreiðsluliðnum þannig að 35 millj. kr. sem áttu að ganga til niðurgreiðslu á vöruverði verði teknar af þeim lið og færðar yfir í niðurgreiðslu á orku. Það er bara fjáraukalagamál og þarf enga tillögu um það, enda gagnslaust að leggja fram tillögu. Viðskrh. getur ekki tekið þetta fé og fært það yfir á annan lið þó að fyrir liggi þál. Það er ekki hægt. Það þarf fjáraukalög til þess. Málið er náttúrlega eins klúðurslegt og verða má og gagnslaust vegna þess að það ítrekar aðeins fyrri tillögur sem fram hafa komið á Alþingi og hafa verið afgreiddar sem ályktun Alþingis.
    Þetta haggar ekki því að í nefndinni var unnið mikið starf og starfsmenn nefndarinnar unnu gott starf. (Gripið fram í.) Frá því starfi, hæstv. ráðherra, er greint í þeirri skýrslu sem hér fylgir með. Þar segir m.a. að ríkissjóður hefur til þessa yfirtekið lán af raforkugeiranum sem nemur á núvirði 8.186 millj. kr. Þar kemur fram að núverandi niðurgreiðsla á raforku til húshitunar er frá ríkissjóði 63 aurar og hefur staðið óbreytt síðan 1985. Ef það hefði fylgt verðlagi, þá væri ekki við neinn vanda að etja nú í þeirri grein. Það eru 16 aurar frá Landsvirkjun og 37 aurar frá RARIK, samtals 1,16 kr. á kwst. Þetta þýðir að niðurgreiðsla á raforku til húshitunar hjá RARIK er um 31%. Það er talsvert, 31%. Út af fyrir sig hefur talsvert verið gert í þessum málum.
    Það kemur líka fram í þessari skýrslu að ef skuldayfirtakan hefði ekki farið fram hefði þurft að hækka hitunartaxta RARIK um 36,5% og hjá Orkubúi Vestfjarða um 45%. Það er, miðað við það 31% sem felst í beinni niðurgreiðslu, ef ekkert hefði verið gert hefði þurft að hækka taxtana hjá RARIK um 67,5% og hjá Orkubúi Vestfjarða um 78%. Þannig að í sjálfu sér hefur mikið verið gert í þessum efnum sem bæði er að þakka núv. hæstv. ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum. Núv. ríkisstjórn kom því fram sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið og látið reikna út undir forustu fráfarandi iðnrh., 1. þm. Reykv., en vegna þess að sú ríkisstjórn fór skyndilega frá þá dróst það fram á tíð þessarar ríkisstjórnar sem nú situr. En það er líka komið svo að mismunur á orkuverði RARIK og Rafmagnsveitu Reykjavíkur er að meðaltali aðeins 13,6%. Hann hafði hæstur orðið 88%. Þannig hefur margt færst í rétta átt í þessum efnum og það er miklu auðveldara að taka á þessum málum nú heldur en verið hefur vegna þess sem búið er að gera í þessum málaflokki. Allt þetta kemur fram í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir og þar liggur mikið verk að baki. En þetta haggar ekki því að sú tillaga sem hér liggur fyrir er eins og áður sagði einungis yfirlýsing án aðgerða, gagnslaus yfirlýsing í lok kjörtímabils núv. hæstv. ríkisstjórnar. Hefði hæstv. ríkisstjórn ætlað sér að taka á þessu máli og leggja fram fé til þess að það væri hægt að gera eitthvað marktækt í þessu efni þá ætti hún að vera búin að því en ekki vísa þessum víxli til framtíðarinnar til næstu ríkisstjórnar. Næsta ríkisstjórn þarf án efa ekki leiðbeiningu núv. hæstv. ríkisstjórnar í því sem hún ætlar að gera í þessum efnum. Ég vænti þess að hún hafi burði til að taka á máli eins og þessu þó að hún fái ekki leiðbeiningu af þessu tagi í jafngrautarlegri og í rauninni óþinglegri tillögu og þeirri sem hér liggur fyrir. Það er því ekki að undra þó hv. 1. þm. Vesturl. hafi orðið fyrir vonbrigðum. Og það var eitt sem ég skildi ekki í hans ræðu, að hann skyldi þrátt fyrir allt þetta vilja afgreiða þessa tillögu.
    Ég held nú, virðulegi forseti, af því að tíminn er svo skammur til umræðna um þetta efni, að ég hafi komið því til skila sem er meginefnið í þessu máli. Ég hlýt að taka það fram að ég sé ekki nokkra ástæðu

til þess og líka ekki möguleika til þess að fara ofan í þetta mál með þeim hætti sem þarf til þess að það verði afgreitt nú í lok þessa þings.