Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin sem mynduð var haustið 1988 sté á stokk og hét því í stjórnarsáttmála að taka á mismunun í samfélaginu í sambandi við ýmsa grundvallarþætti sem ríkisvaldið getur haft áhrif á, þar á meðal jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu. Það hefur verið nefnt hér í umræðunni að ríkisstjórnin hafi stuðlað að því að gjaldskrár opinberra fyrirtækja, Rafmagnsveitu ríkisins og Orkubús Vestfjarða, hafi ekki þurft að hækka jafnmikið og raun ber vitni með þeirri yfirtöku skulda sem á þessum fyrirtækjum hvíldu. Það er atriði sem sjálfsagt er að hafa í huga þegar við ræðum þetta mál og hefur verið dregið fram hér í umræðunni. En það breytir ekki hinu að verkefnið, að jafna orkukostnaðinn, hefur ekki verið leyst. Með yfirtöku skulda var komið í veg fyrir að það yrði verðsprenging sem var auðvitað útilokað með öllu að yrði hleypt fram og það var fyrrv. ríkisstjórn lítið til sóma sem gaf fyrirheit 1986 þegar verðjöfnunargjald af raforku var afnumið í tengslum við kjarasamninga, að þetta skyldi gert, að hún skyldi ekki koma því í verk og það skyldi falla í hlut næstu ríkisstjórnar að koma því í framkvæmd.
    En það er sannarlega mögur uppskera sem við okkur blasir nú í lok starfstíma þessarar ríkisstjórnar að ekki skuli hafa áunnist neitt teljandi í rauninni til að draga úr þeim mikla kostnaðarmun sem er á húshitun í landinu milli hinna köldu svæða og þeirra sem við verðlag ámóta og hjá Hitaveitu Reykjavíkur búa. Og mér finnst heldur ekki álitlegt að verið sé að taka á þessu máli eins og kemur fram í þessari þáltill. með í rauninni engum bindingum og ekki skýrari stefnumörkun í þessu máli. Ég tel að það hefði þó verið til verulegra bóta ef þetta þing sem nú situr hefði náð að marka ákvarðandi spor í þessum efnum sem væri niðurstaða af samkomulagi í fyrsta lagi innan ríkisstjórnarflokkanna og helst með breiðari stuðningi eins og segja má að að hafi verið stefnt af hæstv. iðnrh. með því að leita eftir tilnefningu frá öllum þingflokkum. En það er ekki nóg að fá hugmyndir frá fólki sem tekur að sér að sitja í nefnd ef ekki er séð fyrir því í rauninni af þeim sem forustu eiga að veita að það sé hægt að gera marktækar tillögur því að auðvitað hefur formaður nefndarinnar, hv. 3. þm. Vesturl., lagt sig fram um það að gera sitt besta í þessu máli. Ég efa það alls ekki. Hann þekkir til þessa vanda, hann þekkir vanda fólks í sínu kjördæmi, á Snæfellsnesi, sem er eitt af þessum kvöldu svæðum og einnig hið háa verð sem viðskiptavinir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar búa við sem er af eðlilegum ástæðum, eins og staðið hefur verið að rekstri þessara fyrirtækja, langtum hærra en gerist hjá hinni mjög svo hagstæðu Hitaveitu Reykjavíkur.
    Það er tekið fram í nefndarálitinu á bls. 7 að sú skoðun hafi komið fram í nefndinni að óeðlilegt sé, svo skömmu fyrir kosningar, að binda hendur næstu ríkisstjórnar varðandi verðjöfnun á orku til húshitunar. Mér finnst þetta ekki gilt sjónarmið. Verkefnið var að sjálfsögðu að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um úrlausnir en jafnframt að veita forustu um skref sem væru tekin. Ef það hefði lánast er ég viss um að ríkisstjórn sem hefði tekið við sæmilegu búi í þessum efnum hefði ekki verið fært að draga í land í þeim efnum, alls ekki. Það eru þó það digrar yfirlýsingar sem fyrir liggja frá stjórnmálaflokkunum í orði í þessum málum, þó ekki hafi gengið fram á borði að efna þær. Þar kemur að því að menn greinir á um leiðirnar til þess að ná þessum markmiðum. Ég tel að það sé ekki farsælt sem kom fram í máli hv. 1. þm. Reykv. að það sé nánast að segja bannorð að ætla að jafna innan orkugeirans, ef svo má að orði komast, að leggja á jöfnunargjöld til þess að afla tekna til að jafna þennan kostnaðarmun. Það er að mínu mati í rauninni langeðlilegasta aðgerðin í þessum málum fremur en vera að efna til stórfelldra niðurgreiðslna úr ríkissjóði og eftir öðrum leiðum, gera kröfur til orkufyrirtækja um að taka þátt í slíkum niðurgreiðslum, þó að auðvitað beri ekki að hafna slíkum leiðum ef um það tækist samstaða. En mun eðlilegra tel ég vera að leggja á orkujöfnunargjald til þess að tryggja þá verðjöfnun sem hér er um að ræða.
    Ég minni á það sem gert hefur verið í sambandi við fjarskiptin, í sambandi við jöfnun símkostnaðar á yfirstandandi kjörtímabili, á starfstíma núv. ríkisstjórnar. Þar hefur tekist að jafna mjög verulega kostnaðarmuninn hjá þeim sem meira þurfa á langlínu að halda og hinum sem ekki bera þann kostnað sem var meira en áttfaldur þegar upp var lagt 1988, en er nú kominn undir það að vera fjórfaldur. Það hefur dregið mjög stórlega úr þeim kostnaðarmun til verulegra hagsbóta fyrir þá sem háðir eru langlínu og það er fólkið á landsbyggðinni öðrum fremur. Þarna er jafnað með því að færa á milli innan fjarskiptakerfisins. Þarna er lagt á þá notendur sem nota innanbæjarsímann meira og jafnað innan þessa viðskiptaþáttar. Það er aðferð sem ég tel að farsælust væri, en endurtek að ég hafna ekki öðrum leiðum ef þær geta leitt að ásættanlegu marki.
    Um markmiðið sem slíkt getum við kannski sagt sem svo um það sem kemur fram í 1. tölul. þessarar þáltill. að það væri stórt spor í átt þegar tekst að ná því, þó að maður vildi gjarnan ganga lengra í þessari verðjöfnun og segja að þarna ættu menn að stíga skrefið til fulls. En þetta væri stórfelld framför ef það tækist. En því miður eru leiðirnar til að ná þessum markmiðum svo óljósar og lagðar í hendur annarra en Alþingis, eins og t.d. stjórnarmanna í Landsvirkjun, að það lofar því miður ekki góðu um framhaldið. Það er því miður ekki fast í hendi.
    Virðulegur forseti. Ég tel að sú hugmynd sem hér hefur komið fram og raunar sem skilyrði frá einum þingflokki, þ.e. þingflokki framsóknarmanna, að fara að binda tillögugerð af þessu tagi við það að fallast á yfirlýsingar eða tillöguflutning vegna álbræðslu á Keilisnesi, ég tel það með miklum fádæmum, bæði þá hugsun almennt séð að fara að binda þetta mál við álbræðslumálið og ég tala nú ekki um að fara að gera það að skilyrði og síðan fæðist sú mús sem hér liggur fyrir í sambandi við tillögugerð. Ég vísa líka til

þess að það er ekki mjög traustvekjandi af stjórnvalda hálfu þegar svo misvísandi tillögur koma fram eins og í tillögu nefndar um skipulag Byggðastofnunar sem fjallar um þetta á bls. 28 -- 29 í sínu nefndaráliti sem vísar á allt aðrar leiðir í þessum efnum. Allt er þetta vafalaust með góðum hug gert en veitir því miður litla stoð.